Útgáfuár
2011
ISBN númer
978 9979 65 420 9
Að þessu sinni birtast níu ritrýndar greinar í Griplu, alls 258 blaðsíður auk handritaskrár. Þetta eru allt greinar sem geyma viðamiklar frumrannsóknir í tengslum við útgáfur stakra texta, útgáfusögu og skrifara síðari alda, handrita- og bókmenntafræði, hugmyndasögu og aldur fornkvæða.
Efni:
Fyrsta greinin er eftir Þórunni Sigurðardóttur á Árnastofnun. Þórunn rakst nýlega á áður óþekkt erfiljóð Hallgríms Péturssonar um Vigfús Gíslason á Stórólfshvoli. Kvæðið er í handriti sem varðveitt er í háskólabókasafninu í Uppsölum og var skrifað af Jóni Rúgmann. Þórunn setur kvæðið í bókmenntalegt samhengi, sýnir fram á tengsl Hallgríms og Vigfúsar og rekur varðveislusögu kvæðisins sem hún gefur jafnframt út.
Kirsten Wolf við háskólann í Madison í Bandaríkjunum gefur út helgisögnina um Trú, Von og Kærleika, Sögu af Fídes, Spes ok Karítas, í tveimur gerðum, rekur varðveislu hennar í fjórum handritum frá 15. öld og ber þau saman við latneska frumgerð sögunnar. Sagan var áður gefin út af Unger 1877 en rannsókn Wolf leiðir í ljós að heppilegra sé að velja annað handrit en Unger gerði sem aðaltexta annarrar gerðarinnar.
Carla Cucina við háskólann í Macerata á Ítalíu fjallar um regnbogatáknsöguna í íslenska Physiologus-handritinu og gefur út það textabrot sem hún rýnir í. Þetta er stutt allegórísk predikun um liti regnbogans og líkingamál í kringum þá. Þennan texta setur Cucina í samhengi við kristnar ritskýringar á miðöldum, bæði frá meginlandinu og meðal írskra munka, um leið og hún dregur fram sjálfstæð efnistök íslenska textans og bendir á hugsanleg áhrif sams konar hugmynda á lýsingu lita regnbogans í Gylfaginningu.
Sigurjón Páll Ísaksson skrifar um skýringar á 74. erindi Hávamála, sem þekkt er fyrir hendinguna: „Skammar eru skips rár“. Sigurjón skýrir vísuna með tilvísunum til segla- og siglingasögu miðalda og öryggisatriða sjófarenda sem þurfa bæði að huga að búnaði sínum og veðurhorfum áður en lagt er upp í siglingu.
Heimir Pálsson við Uppsalaháskóla greinir efnisskipan Uppsalaeddu sem er elsta varðveitta handrit Snorra Eddu. Heimir sýnir fram á sérstöðu handritsins og líkir því við kennarahandbók, um leið og hann leggur áherslu á það sem tengir handritið sérstaklega við skrifarastofu Snorra sjálfs: Skáldatalið, Ættartölu Sturlunga og Lögsögumannatalið.
Helgi Skúli Kjartansson við Háskóla Íslands tekur til gagnrýninnar umræðu hugmyndir fræðimanna um hina brunnu Resensbók Landnámu og Kristnisögur, og hvernig þær hugmyndir móta skilning á Viðauka Skarðsárbókar (Landnámugerð Björns á Skarðsá). Helgi Skúli er ekki sannfærður um að Kristnisaga hafi verið í Resensbók, og tekur þar undir með Ólafi Halldórssyni, heldur hafi umræddur texti lengi verið viðauki Landnámu og þar með sé erfiðara en áður að tengja Sturlu Þórðarson og Landnámu hans við Kristnisögu.
Daniel Sävborg við háskólann í Tartu í Eistlandi rýnir í listina að lesa sögur út frá túlkunum á mikilvægi kristnitökunnar í Njálu. Grein sína tileinkar hann minningu Roberts Cook. Sävborg reifar hugsanlegan trúar- og siðferðisboðskap í sögunum og kemst að því, þvert á hugmyndir margra fræðimanna, að Njálu og öðrum fornsögum sé ekki ætlað að hafa trúar- eða siðferðislegt hlutverk að hætti dæmisagna og uppbyggilegra trúarbókmennta. Þvert á móti sæki þær innblástur sinn í sérstaka hefð Íslendingasagna sem móti byggingu, atburðarás, persónusköpun og gildismat þeirra.
Haukur Þorgeirsson við Háskóla Íslands rannsakar og gefur út Þóruljóð, sagnakvæði sem varðveitt er í kvæðabók Gissurar Sveinssonar frá 1665 og fleiri yngri handritum. Haukur setur kvæðið í samhengi við vetrarskemmtanir og svokallaðan Háu-Þóruleik sem heimildir eru um frá 17. öld og Sigurður Guðmundsson gat sér til að hefði sprottið af ljóðunum. Þrátt fyrir að Gissur hafi að líkindum skrifað kvæðið úr munnlegri geymd tekst Hauki að færa sannfærandi rök fyrir því að hægt sé að aldursgreina kvæðið til 14. aldar og kemur sú niðurstaða í kjölfar sams konar rannsóknar á Gullkársljóðum og Hrafnagaldri sem Haukur birti í Griplu 21.
Síðasta greinin í Griplu er eftir ítalska fræðimanninn Giovanni Verri sem birtir hér niðurstöður rækilegra skriftarfræðilegra rannsókna sinna á rithöndum Ásgeirs Jónssonar, afkastamesta skrifara Árna Magnússonar og Þormóðs Torfasonar. Verri flokkar rithendur Ásgeirs og sýnir fram á að hann hafi ekki tileinkað sér kansellíbrotaskrift og kansellískrift fyrr en eftir að hann gerðist atvinnuskrifari í Kaupmannahöfn; hina fyrrnefndu noti hann til að afrita handrit sem Árni átti ekki von á að eignast en hina síðarnefndu hafi hann þróað til að ná meiri hraða í vinnunni fyrir Þormóð.
Gripla er alþjóðlegt fræðitímarit Árnastofnunar á sviði íslenskra og norrænna fræða. Hún hefur komið út frá því skömmu eftir að fyrstu handritin komu heim frá Danmörku árið 1971; í fyrstu óreglulega en síðar á hverju ári. Greinar eru ýmist á íslensku, öðrum Norðurlandamálum, þýsku, ensku eða frönsku. Útdrættir á ensku fylgja öllum greinum. Með greinum á öðrum málum en íslensku fylgir einnig íslensk samantekt. Ritstjóri Griplu er Gísli Sigurðsson.
Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 83).
Efni:
Fyrsta greinin er eftir Þórunni Sigurðardóttur á Árnastofnun. Þórunn rakst nýlega á áður óþekkt erfiljóð Hallgríms Péturssonar um Vigfús Gíslason á Stórólfshvoli. Kvæðið er í handriti sem varðveitt er í háskólabókasafninu í Uppsölum og var skrifað af Jóni Rúgmann. Þórunn setur kvæðið í bókmenntalegt samhengi, sýnir fram á tengsl Hallgríms og Vigfúsar og rekur varðveislusögu kvæðisins sem hún gefur jafnframt út.
Kirsten Wolf við háskólann í Madison í Bandaríkjunum gefur út helgisögnina um Trú, Von og Kærleika, Sögu af Fídes, Spes ok Karítas, í tveimur gerðum, rekur varðveislu hennar í fjórum handritum frá 15. öld og ber þau saman við latneska frumgerð sögunnar. Sagan var áður gefin út af Unger 1877 en rannsókn Wolf leiðir í ljós að heppilegra sé að velja annað handrit en Unger gerði sem aðaltexta annarrar gerðarinnar.
Carla Cucina við háskólann í Macerata á Ítalíu fjallar um regnbogatáknsöguna í íslenska Physiologus-handritinu og gefur út það textabrot sem hún rýnir í. Þetta er stutt allegórísk predikun um liti regnbogans og líkingamál í kringum þá. Þennan texta setur Cucina í samhengi við kristnar ritskýringar á miðöldum, bæði frá meginlandinu og meðal írskra munka, um leið og hún dregur fram sjálfstæð efnistök íslenska textans og bendir á hugsanleg áhrif sams konar hugmynda á lýsingu lita regnbogans í Gylfaginningu.
Sigurjón Páll Ísaksson skrifar um skýringar á 74. erindi Hávamála, sem þekkt er fyrir hendinguna: „Skammar eru skips rár“. Sigurjón skýrir vísuna með tilvísunum til segla- og siglingasögu miðalda og öryggisatriða sjófarenda sem þurfa bæði að huga að búnaði sínum og veðurhorfum áður en lagt er upp í siglingu.
Heimir Pálsson við Uppsalaháskóla greinir efnisskipan Uppsalaeddu sem er elsta varðveitta handrit Snorra Eddu. Heimir sýnir fram á sérstöðu handritsins og líkir því við kennarahandbók, um leið og hann leggur áherslu á það sem tengir handritið sérstaklega við skrifarastofu Snorra sjálfs: Skáldatalið, Ættartölu Sturlunga og Lögsögumannatalið.
Helgi Skúli Kjartansson við Háskóla Íslands tekur til gagnrýninnar umræðu hugmyndir fræðimanna um hina brunnu Resensbók Landnámu og Kristnisögur, og hvernig þær hugmyndir móta skilning á Viðauka Skarðsárbókar (Landnámugerð Björns á Skarðsá). Helgi Skúli er ekki sannfærður um að Kristnisaga hafi verið í Resensbók, og tekur þar undir með Ólafi Halldórssyni, heldur hafi umræddur texti lengi verið viðauki Landnámu og þar með sé erfiðara en áður að tengja Sturlu Þórðarson og Landnámu hans við Kristnisögu.
Daniel Sävborg við háskólann í Tartu í Eistlandi rýnir í listina að lesa sögur út frá túlkunum á mikilvægi kristnitökunnar í Njálu. Grein sína tileinkar hann minningu Roberts Cook. Sävborg reifar hugsanlegan trúar- og siðferðisboðskap í sögunum og kemst að því, þvert á hugmyndir margra fræðimanna, að Njálu og öðrum fornsögum sé ekki ætlað að hafa trúar- eða siðferðislegt hlutverk að hætti dæmisagna og uppbyggilegra trúarbókmennta. Þvert á móti sæki þær innblástur sinn í sérstaka hefð Íslendingasagna sem móti byggingu, atburðarás, persónusköpun og gildismat þeirra.
Haukur Þorgeirsson við Háskóla Íslands rannsakar og gefur út Þóruljóð, sagnakvæði sem varðveitt er í kvæðabók Gissurar Sveinssonar frá 1665 og fleiri yngri handritum. Haukur setur kvæðið í samhengi við vetrarskemmtanir og svokallaðan Háu-Þóruleik sem heimildir eru um frá 17. öld og Sigurður Guðmundsson gat sér til að hefði sprottið af ljóðunum. Þrátt fyrir að Gissur hafi að líkindum skrifað kvæðið úr munnlegri geymd tekst Hauki að færa sannfærandi rök fyrir því að hægt sé að aldursgreina kvæðið til 14. aldar og kemur sú niðurstaða í kjölfar sams konar rannsóknar á Gullkársljóðum og Hrafnagaldri sem Haukur birti í Griplu 21.
Síðasta greinin í Griplu er eftir ítalska fræðimanninn Giovanni Verri sem birtir hér niðurstöður rækilegra skriftarfræðilegra rannsókna sinna á rithöndum Ásgeirs Jónssonar, afkastamesta skrifara Árna Magnússonar og Þormóðs Torfasonar. Verri flokkar rithendur Ásgeirs og sýnir fram á að hann hafi ekki tileinkað sér kansellíbrotaskrift og kansellískrift fyrr en eftir að hann gerðist atvinnuskrifari í Kaupmannahöfn; hina fyrrnefndu noti hann til að afrita handrit sem Árni átti ekki von á að eignast en hina síðarnefndu hafi hann þróað til að ná meiri hraða í vinnunni fyrir Þormóð.
Gripla er alþjóðlegt fræðitímarit Árnastofnunar á sviði íslenskra og norrænna fræða. Hún hefur komið út frá því skömmu eftir að fyrstu handritin komu heim frá Danmörku árið 1971; í fyrstu óreglulega en síðar á hverju ári. Greinar eru ýmist á íslensku, öðrum Norðurlandamálum, þýsku, ensku eða frönsku. Útdrættir á ensku fylgja öllum greinum. Með greinum á öðrum málum en íslensku fylgir einnig íslensk samantekt. Ritstjóri Griplu er Gísli Sigurðsson.
Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 83).