Markmið þessarar einföldu umritunartöflu er að auðvelda þeim sem lesa íslensku en kunna ekki úkraínsku að átta sig á framburði úkraínskra orða og nafna, sem og að skila úkraínskum orðum og nöfnum yfir á latneska letrið sem íslenska styðst við þegar þess gerist þörf. Jafnframt gæti taflan auðveldað þeim sem kunna úkraínsku en ekki íslensku að tengja íslenska bókstafi við hina úkraínsku.
Vonandi nýtist taflan í samskiptum við úkraínskumælandi fólk á Íslandi og annars staðar og í frágangi á textum, t.d. í íslenskum fjölmiðlum, þar sem úkraínskum heitum bregður fyrir.
Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor á málræktarsviði Árnastofnunar, ber ábyrgð á frágangi umritunartöflunnar. Sérstakir fræðilegir ráðgjafar voru íslenskumælandi slavneskufræðingar, þau dr. Hana Štěříková og dr. Helgi Haraldsson, en Ari Páll ber einn ábyrgð á því sem kann að hafa misfarist. Skal athugasemdum, leiðréttingum og ábendingum beint til hans.
Ef til vill verður með tíð og tíma birt nánari greinargerð um umritun milli þessara tveggja stafrófa en í ljósi aðstæðna í Evrópu þykir brýnt að koma sjálfri umritunartöflunni á framfæri án mikilla málalenginga. Þó skal strax vakin athygli á þrennu:
- Í íslensku eru bókstafirnir i og y bornir eins fram og því má velja milli þeirra í íslenskri umritun á úkraínsku и en ýmislegt mælir með því að velja heldur y. Í öðrum umritunarkerfum yfir á latnesk stafróf er oft haft y sem jafngildi úkraínsks и. Til dæmis birtist heiti höfuðborgarinnar Київ í umrituðum textum gjarna sem Kyiv.
- Úkraínskt x er borið fram eins og íslenska hljóðið í g í sagt eða k í sæktu. Þessu er reynt að koma hér til skila með bókstafatvenndinni kh.
- Með bókstafnum z í umrituninni er reynt að halda því til haga að um er að ræða raddað s-hljóð (það hljómar líkt og í enska orðinu zoo).
Hér er hægt að sækja töfluna á PDF-sniði.