Skip to main content

Umhverfisstefna

Umhverfis- og loftslagsstefna Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Umhverfis- og loftslagsstefna og framkvæmd hennar er liður í daglegu starfi Árnastofnunar. Stefnan nær til allrar starfsemi hennar, bygginga, mannvirkja og framkvæmda.  Haft er að leiðarljósi að verðmæti séu endurnýtt eftir því sem kostur er og dregið sé úr hvers kyns sóun þannig að starfsemi stofnunarinnar hafi sem minnst neikvæð umhverfisáhrif. Árnastofnun tekur þátt í Grænum skrefum í ríkisrekstri. Verkefnið er fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna.

Forstöðumaður er ábyrgur fyrir framkvæmd stefnunnar. Hún er stöðugt í endurskoðun og er framfylgt í samráði við starfsmenn. Umhverfis- og loftslagsstefnan er rýnd árlega af umhverfisnefnd Árnastofnunar og árangur mældur. Starfsmenn stofnunarinnar framfylgja umhverfis- og loftslagsstefnunni og hafa hana til hliðsjónar í starfi sínu.

  • Innkaup stofnunarinnar verði byggð á stefnu ríkisins um vistvæn innkaup. Umhverfismerktar vörur og þjónusta verði valin umfram aðrar.
  • Dregið verði úr beinni og óbeinni losun gróðurhúsaloftegunda í allri starfsemi stofnunarinnar í samræmi við loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar. Stofnunin mun draga úr losun um 40% frá árinu 2019 til ársins 2030.
  • Bein losun sem fellur til vegna rekstrar stofnunarinnar er kolefnisjöfnuð.
  • Dregið verði úr orkunotkun eftir föngum, m.a. með reglubundinni stillingu tækja og fyrirbyggjandi viðhaldi.
  • Endurnýtanlegur úrgangur verði flokkaður og skilað til endurnýtingar og spilliefnum til viðurkenndra móttökuaðila.
  • Dregið verði eftir föngum úr pappírsnotkun jafnt í útgáfustarfsemi sem öðru.
  • Íslensk framleiðsla verði valin eftir því sem kostur er.
  • Hugað verði að umhverfinu þegar ferðast er á vegum stofnunarinnar.
  • Starfsfólk verði hvatt til að ferðast til og frá vinnu á sem umhverfisvænstan hátt.
  • Þekkingu á umhverfismálum verði miðlað til starfsfólks.

 

Leiðir að markmiðum

Pappírsnotkun

  • Dregið verður úr pappírsnotkun með því að birta gögn frekar á vef stofnunarinnar, m.a. á innri vef, en að dreifa þeim prentuðum.
  • Því er beint til starfsfólks og gesta að ljósrita og prenta allt sem hægt er báðum megin og prenta ekki í lit nema nauðsynlegt sé. Pappírsblöðum, sem notuð hafa verið öðrum megin, er safnað saman og þau notuð aftur. Drög að bréfum og öðrum texta sem ekki þarf að varðveita eru prentuð á bakhlið notaðs pappírs þar sem því verður við komið. Minnismiðar og rissblöð eru einnig útbúin úr notuðum pappír.
  • Umbúðir, s.s. umslög, fóðruð umslög, pappi og bóluplast, eru notaðar aftur eins og kostur er. Fjölnota umslög eru notuð fyrir póst innan stofnunar og innan Háskólans.

Orkunotkun

  • Því er beint til starfsfólks og gesta að fara sparlega með sápu í uppþvottavélar og nota stutt þvottakerfi. Að öllu jöfnu er einnota borðbúnaður ekki notaður á stofnuninni.
  • Starfsfólk er hvatt til að spara orku m.a. með því að slökkva ljós og á tölvum, skjám og öðrum rafmagnstækjum í lok vinnudags.

Flokkun sorps

  • Starfsfólk er hvatt til að henda sorpi frekar í flokkunartunnur en ruslafötur í skrifstofum. Sorp er flokkað í fjóra eða fimm mismunandi flokka:
    • Pappír: hvítur pappír, dagblöð, tímarit, bæklingar og auglýsingapóstur, venjuleg umslög og gluggaumslög. Tómar umbúðir: fernur, sléttur pappi og pappabakkar.
    • Plast: plastílát, plastpokar og frauðbakkar. Umbúðirnar eiga að vera tómar og hreinar.
    • Skilagjaldsskyldar umbúðir: ál- og stáldósir, plastflöskur, glerflöskur.
    • Lífrænt sorp til moltugerðar (í Árnagarði): matarafgangar, kaffikorgur og filterar, tepokar og pappírsþurrkur.
    • Óendurvinnanlegt sorp.
  • Ónýtum rafhlöðum er safnað í sérstök ílát og þeim síðan skilað til Sorpu.
  • Séð er til þess að seljendur prenthylkja fyrir stóra prentara taki aftur notuð hylki. Tóm prenthylki úr bleksprautuprenturum flokkast með plasti.
  • Gömlum tölvubúnaði og öðrum tækjum er fargað á viðeigandi hátt.

Samgöngur

  • Starfsfólk er hvatt til þess að fara ekki á einkabíl á fundi stofnunarinnar og halda fjarfundi þegar hægt er.
  • Starfsfólk er hvatt til að nýta sér samgöngusamning og stefnt er að því að allir geti nýtt sér hann þannig að a.m.k. þrjá daga í viku sé ekki ferðast á einkabíl.
  • Starfsfólk er hvatt til þess að halda fjarfundi þar sem því verður við komið heldur en að ferðast langa leið til að sitja stutta fundi.
  • Umhverfisvænsta leiðin í samgöngum er valin þegar ferðast er á vegum stofnunarinnar og lengri ferðir eru kolefnisjafnaðar með kaupum á vottuðum kolefniseiningum frá og með árinu 2022.

Miðlun

  • Þekkingu á umhverfismálum er miðlað til starfsfólks og gesta stofnunarinnar, m.a. með því að hafa leiðbeiningar um flokkun úrgangs og endurnýtingu pappírs á viðeigandi stöðum.
  • Umhverfis- og loftslagsstefnan er aðgengileg í starfsmannahandbók og á vef stofnunarinnar.

 

10. desember 2021,

f.h. Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, umhverfisnefnd

Jóhannes B. Sigtryggsson

Þórdís Úlfarsdóttir