Skip to main content

Um Icelandic Online

Icelandic Online eru sjálfstýrð vefnámskeið í íslensku sem öðru máli, opin öllum endurgjaldslaust. Vefnámskeiðin eru á mismunandi færnistigum, bæði ætluð byrjendum og lengra komnum, allt frá A1 til C1 á CEFR skala. Þeim er ætlað að þjóna stúdentum hérlendis og erlendis, fræðimönnum og öðru áhugafólki um íslenskt mál og menningu. Aðfaranámskeiðið Bjargir (survival course) er ætlað þeim sem óvanir eru á allra fyrstu stigum íslenskunáms og búa og starfa á Íslandi.

Icelandic Online eru samfelld námskeið sem byggjast á myndrænu og gagnvirku námsefni. Hvert námskeið samsvarar 45−90 klukkustunda námi. Námsefnið þjálfar nemann í málfræði íslensku, orðaforða, hlustun og notkun málsins, m.a. með gagnvirkum æfingum. Orðaforði og málfræðigrunnur eru löguð að þörfum byrjenda. Hjálparmálið er enska. Námskeiðin er unnt að nálgast í tölvu og á snjalltækjum.

Námsefnið er einnig notað í fjarkennslu á vegum Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands. Auk þess er námsefnið notað sem hluti af háskólakennslu og á tungumálanámskeiðum.

Skráðir notendur í lok árs 2019 voru um 230.000 en virkir notendur um 77.000.

Saga

Árið 2000 hófu íslenskuskor heimspekideildar Háskóla Íslands og Stofnun Sigurðar Nordals samstarf um að koma á fót vefsetri um íslenskt mál og menningu. Veitti menntamálaráðuneytið tveggja milljóna kr. styrk til vefsetursins þá um haustið. Meðal þess sem ætlunin var að yrði á vefnum er kennsluefni í íslensku fyrir útlendinga. Árið 2001 hlutu íslenskuskor heimspekideildar, Stofnun Sigurðar Nordals og Hugvísindastofnun styrk frá Rannsóknarráði Íslands til að vinna að kennsluefni í íslensku fyrir útlendinga á netinu. Jafnframt lagði Kennslumálasjóður Háskóla Íslands fé til verkefnisins. Verkefnisstjórn var skipuð undir forsæti Birnu Arnbjörnsdóttur prófessors sem var frumkvöðull verkefnisins. Úlfar Bragason, forstöðumaður Stofnunar Sigurðar Nordals, sat í verkefnisstjórninni með henni. Partick Thomas, mál- og tölvunarfræðingur, var tæknilegur ráðgjafi verkefnisins frá upphafi en Kolbrún Friðriksdóttir M.A. vann mest að kennsluefnisgerðinni sjálfri frá byrjun, auk ýmissa annarra.

Komið var á samstarfi við Wisconsinháskóla í Madison til að koma þessu verki í kring. Þar var í forsvari Dick Ringler prófessor. Var síðan unnið að námsefnisgerðinni, einkum hér á landi, en Wisconsinháskóli einbeitti sér að gerð rafrænnar íslensk-enskrar orðabókar sem er í tengslum við námsefnið. Að auki var komið á samvinnu við fimm háskóla í fjórum Evrópulöndum: í Kaupmannahöfn, Berlín, München, Lyon og Lundúnum þar sem íslenska var þá kennd með stuðningi íslenskra stjórnvalda. Íslenskulektorar þar unnu bæði að námsefnisgerðinni með starfsfólki verkefnisins hér á landi og létu nema sína prófa námsefnið. Studdi Linguaáætlun Evrópusambandsins þetta samstarfs með myndarlegu fjárframlagi.

Fyrri hluti vefnámskeiðsins Icelandic Online 1 var tilbúinn í ágúst 2004 og opnaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þá vefnámskeiðið til notkunar. Seinni hluti þess og Icelandic Online 2 voru tilbúinn 2005. Þessi námskeið eru ætluð byrjendum á háskólastigi.

Gerð vefnámsskeiðanna byggist á rannsóknum á íslensku máli og kennslufræði tungumála á netinu. Þau eru þróuð í samvinnu kennara og nemenda við Háskóla Íslands og samstarfsskólanna. Jafnframt hefur frá upphafi verið ætlunin með hjálp vöktunarkerfis, sem tengt er námskeiðunum, að hleypa af stokkunum rannsóknum á tileinkun íslensku sem annars máls á netinu og námshegðun málnema. Þær rannsóknir ættu einnig að veita frekari vitneskju en nú liggur fyrir um hvernig fullorðnir læra beygingarmál eins og íslensku.

Í framhaldi af opnun Icelandic Online 1 tóku Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (áður Stofnun Sigurðar Nordals) og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum höndum saman – í samstarfi við fimm stofnanir á Norðurlöndum, Tungumálamiðstöð Háskólans og Fjölmenningarsetur – og unnu annars vegar að því að bæta tveimur framhaldsnámskeiðum við Icelandic Online, þ.e. Icelandic Online 3 og Icelandic Online 4, og hins vegar að gerð fornámskeiðs sem sniðið væri að þörfum innflytjenda, svonefndar Bjargir (survival course). Nordplus-áætlun Norrænu ráðherranefndarinnar styrkti þessa vinnu. Námskeiðin voru opnuð til notkunar 2010.

Skömmu síðar hófst vinna við Icelandic Online 5. Það var hugsað sem framhaldsnámskeið sem einkum lyti að menningarskilningi (cultural literacy) nemenda sem stunduðu nám í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands, einkum færni í að skilja eldri og yngri bókmenntatexta. Umsjón með verkefninu hafði Jón Karl Helgason prófessor. Námskeiðið var unnið í samstarfi íslenskudeildar Háskóla Íslands, Hugvísindastofnunar, Stofnunar Vígdísar Finnbogadóttur, Stofnunar Árna Magnússonar í íslensku fræðum, Björgvinjarháskóla og Helsinkiháskóla. Verkefnið var stutt af Nordplus-áætluninni. Námskeiðið var tilbúið til notkunar í árslok 2013.

Endurforritun og endurskoðun Icelandic Online námskeiðanna fyrir snjalltæki hófst 2014 í samvinnu við tölvunarfræðideild Háskóla Íslands. Nemar í tölvunarfræði við Háskóla Íslands þróuðu nýtt forrit fyrir námskeiðin undir leiðsögn Patrick Thomasc mál- og tölvunarfræðings. Forritunin, endurhönnunin og yfirfærslan á efninu í hið nýja kerfi og endurskoðun var mikil vinna og kostnaðarsöm. Margir komu að því verki með verkefnisstjórninni, Birnu Arnbjörnsdóttur prófessors, Úlfari Bragasyni rannsóknarprófessors og Kolbrúnu Friðriksdóttur aðjunkts. Verkefnið var stutt af Nordplus-áætluninni, Háskóla Íslands, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Vinnumálastofnun. Endurhönnunin miðaði að því að gera námskeiðin nothæf á snjalltækjum. Verkefninu var lokið sumarið 2018 – þó hefur Icelandic Online 5 ekki enn verið endurhannað.

Jafnframt því að vinna að endurhönnun vefnámskeiða í íslensku var hafin samvinna við Fróðskaparsetur Færeyja og Helsinkiháskóla um gerð námskeiða í færeysku og finnlandssænsku. Hefur verið lokið við byrjendanámskeið í færeysku og byrjendanámskeið og eitt framhaldsnámskeið í finnlandssænsku.

Verkefni í vinnslu

Möguleikar Icelandic Online forritsins eru meiri en enn hafa verið nýttir. Nú hafa Birna Arnbjörnsdóttir prófessor og Halldóra Þorláksdóttir, ritstjóri Icelandic Online, fengið styrki til að hefjast handa við að þróa námsefni fyrir börn í tengslum við Icelandic Online. Í nýrri greiningu Menntamálastofnunar (2018) kemur fram að gríðarleg vöntun er á námsefni í íslensku fyrir börn með annað tungumál að móðurmáli og kennarar kalla eftir því. Markmið Birnu og Halldóru er að koma til móts við þessa þörf, með því að þróa vandað námsefni í íslensku fyrir aldurshópinn fimm til sjö ára, það yrði aðgengilegt, skemmtilegt og gagnvirkt 60 klst. námsefni. Áhersla verður lögð á að þjálfa orðaforða, málbeitingu og máltilfinningu með æfingum, leikjum og þrautum. Markhópurinn verður jafnt börn sem eiga erlent mál að móðurmáli og íslensk börn sem alist hafa upp í öðru málumhverfi og þurfa á íslenskukennslu að halda. Verkefnisstjórn skipa Kolbrún Friðriksdóttir, aðjunkt við Háskóla Íslands, Úlfar Bragason rannsóknarprófessor emeritus og Branislav Bédi, verkefnisstjóri við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, auk Birnu og Halldóru. Verkefnið hefur hlotið styrki frá Barnavinafélaginu Sumargjöf, Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur, Þróunarsjóði innflytjenda, Þróunarsjóði námsgagna og mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

(Úlfar Bragason tók saman í ársbyrjun 2020)