Nú hillir undir að Íslensk-dönsk orðabók Sigfúsar Blöndals verði opnuð á vefnum en undanfarin ár hefur verið unnið að stafrænni gerð hennar á orðfræðisviði stofnunarinnar. Verkefnið er unnið á vegum Íslensks-dansks orðabókarsjóðs sem fjármagnar vinnu starfsmanna.
Frá upphafi verksins árið 2016 hafa komið að því sjö háskólanemar sem hafa unnið við það á sumrin og í hlutastarfi yfir veturinn, þrír til fjórir í senn. Þeir stunda allir nám í íslensku og málvísindum og eru eftirtaldir, Árni Davíð Magnússon, Ása Bergný Tómasdóttir, Bolli Magnússon, Finnur Á. Ingimundarson, Kristján Friðbjörn Sigurðsson, Oddur Snorrason og Salome Lilja Sigurðardóttir.
Orðabókin, sem er lykilverk í íslenskri orðabókasögu, kom út á árunum 1920–1924 og er enn stærsta íslenska orðabókin sem hefur verið unnin til þessa. Allar orðskýringar í bókinni eru á dönsku sem kann að vekja furðu í dag en á þeim árum sem verkið var í vinnslu (1903–1920) var Ísland hluti af Danmörku og styrkir komu frá dönskum sjóðum, svo og dönskum og íslenskum stjórnvöldum.
Orðabókin er 1052 blaðsíður að stærð með tveimur breiðum dálkum en auk þess kom út viðbótarbindi árið 1963 sem er 200 blaðsíður. Uppflettiorð eru samtals 154.000. Í verkefnisstjórn eru Halldóra Jónsdóttir, Steinþór Steingrímsson og Þórdís Úlfarsdóttir.