Skip to main content

Það er ástríða að kenna íslensku: Nordkurs-námskeið fyrir norræna nemendur

Alþjóðasvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast skipulagningu Nordkurs-námskeiðs í íslenskri tungu og menningu sem haldið er árlega í samvinnu við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Námskeiðið er styrkt af norrænu samstarfi og er ætlað nemendum frá Norðurlöndum. Kennsla og samskipti fara fram á íslensku og á öðrum Norðurlandamálum. Í ár (2022) hafa 25 nemendur frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð sótt námskeiðið í Reykjavík sem haldið er að þessu sinni 6.–30. júní en í fyrra var námskeiðið haldið með blönduðu fyrirkomulagi (staðnámi og fjarnámi) vegna COVID-19-faraldursins. Með þessu móti gátu fleiri sótt námskeiðið. Nemendur á Norðurlöndum sýna mikinn áhuga á að læra íslensku en vegna takmarkaðs pláss komast ekki allir að sem vilja.

Auk þess að nema íslensku gefst stúdentum tækifæri á að hlýða á fyrirlestra um náttúru Íslands, menningu og sögu landsins, íslenskar nútímabókmenntir og íslensk stjórnmál. Í staðnámi geta nemendur heimsótt menningarstofnanir og skoðað sig um á sögustöðum.

Það er ástríða að kenna íslensku

Ana Stanićević og Marc D. S. Volhardt hafa kennt saman á Nordkurs-námskeiðinu í fimm ár. Þau eru bæði af erlendu bergi brotin og það sem þau hafa sameiginlegt er ástríða fyrir íslensku og íslenskukennslu. Ana er Norðurlandafræðingur; Hún stundaði nám í skandinavískum fræðum við Háskólann í Belgrad og síðan í íslensku sem öðru máli og Norðurlandafræði við Háskóla Íslands. Í dag er hún að ljúka doktorsnámi í menningarfræðum við Háskóla Íslands. Marc er með meistaragráðu í málvísindum frá Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla. Bæði hafa þau góða reynslu í kennslu norrænna tungumála.

Á Nordkurs-námskeiðunum eru danska, norska eða sænska notuð sem samskiptamál. Kennarar nota þau til þess að útskýra betur tengsl milli málanna, auðvelda samskipti milli nemenda og ekki síst til þess að efla skilning á Norðurlandamálum en þaðer einn helsti tilgangur Nordkurs. Hins vegar er allt kennsluefni, æfingar og heimaverkefni á íslensku og gerir það nemendunum kleift að nota tungumálið bæði í kennslutímum og í íslensku samfélagi þegar þeir eru að leysa verkefni utan kennslutíma í staðnámi. „Nemendur í Nordkurs eiga tvennt sameiginlegt, þeir eru skandinavískumælandi fólk og tungumálafólk,“ segir Marc og bætir við að kennararnir geti jafnvel þess vegna byrjað að kenna á mjög háu stigi og talað við nemendur á íslensku eftir aðeins þrjár vikur. Ana segir að í byrjun geti þessi tungumálablanda sem er í gangi allan tímann verið krefjandi fyrir nemendur og bætir við: „til dæmis nota sænskumælandi nemendur frá Finnlandi annað tungumál til að læra íslensku eða Svíar sem eru ekki vanir að heyra dönsku gætu líka fundið fyrir álagi.“ En Marc bendir á ósýnileg tengsl milli Norðurlandanna og segir að „maður sé kannski ekki eins mikið í útlöndum þegar farið er héðan til Finnlands en til dæmis til Þýskalands. Nemendum á þessu námskeiði finnst kannski ekki heldur þeir vera eins mikið í útlöndum þegar þeir eru hér.“ Nemendur í staðnámi fá tækifæri til að heyra og nota íslensku á mörgum stöðum í okkar samfélagi. Hins vegar fá nemendur í fjarnámi í staðinn fleiri tækifæri til þess að æfa sig í íslensku í kennslutímum á netinu. Þessir svokölluðu nettímar eru haldnir á Zoom. Það þýðir að allir nemendur eru heima hjá sér í öllum þessum löndum og kennarar kenna svo á netinu. „Ég verð að viðurkenna að nemendum í fyrra gekk betur en við áttum von á, þetta var svo skemmtilegur hópur sem vildi virkilega læra og okkur öllum tókst að hafa góða stemmningu í hópnum jafnvel þó að kennslan væri bara á netinu,“ segir Ana. Samkvæmt Marc er það mikilvægt að skapa samkennd og að þjappa hópnum saman á netinu. Hann segir svo frá fyrirkomulagi kennslunnar: „Við hittumst á hverjum degi í þrjá til fimm klukkutíma og manni fannst eins og maður væri alveg partur af hópnum og gleymdi stundum að hann væri bara í tölvu. Þannig var hægt að kynnast þessu fólki vel þrátt fyrir að við höfðum aldrei hist áður í persónu.“ Auk þess segir Ana það mikilvægt „að skapa góða stemmningu í hópnum og passa upp á það að flæði sé í kennslu og verkefnum og ekki síst að passa upp á að öllum líði vel allan tímann.“

Áhugi á íslensku vaknaði á kvikmyndahátíð í Moskvu

Á námskeiðinu starfar einnig einn aðstoðarkennari úr röðum erlendra nemenda við HÍ. Hann gegnir mikilvægu hlutverki þar vegna þess að hann aðstoðar við skipulagningu námskeiða á staðnum og hjálpar til við að halda utan um óformleg samskipti við nemendur aðallega í gegnum Facebook. Undanfarin ár hefur Victoria Bakshina starfað sem aðstoðarkennari. Áhugi hennar á íslensku vaknaði þegar hún var sjálf nemandi við háskólann í Rússlandi og fór á norræna kvikmyndahátíð í Moskvu árið 2015 þar sem hún horfði á íslenskar kvikmyndir. „Þannig gæti ég hlustað á tungumálið og íslenska var fyrir mig eins og endurómur sem heyrist í kirkjunni eftir að kórinn klárar að syngja og mig langaði að tala svoleiðis,“ segir hún. Stuttu eftir þetta kom Victoria til Íslands og árið 2016 hlaut hún styrk á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis til að stunda BA-nám í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands. Eftir þetta nám hélt hún áfram með meistaranám í þýðingafræði við sama háskóla sem hún er að ljúka núna. Á sumarnámskeiðinu aðstoðar hún við tæknilega hluti. Auk þess gegnir hún hlutverki mentors og svarar óformlegum spurningum nemenda, m.a. um nemendalíf í Reykjavík.