Sumarskóli í handritafræðum er haldinn á hverju ári af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Árnasafni í Kaupmannahöfn (Institut for Nordiske studier og sprogvidenskab) til skiptis í Reykjavík og Kaupmannahöfn. Þegar námskeiðið er á Íslandi er það haldið í samvinnu við Landsbókasafn Íslands − Háskólabókasafn og Háskóla Íslands.
Kennslan fer fram á ensku og eru nemendur yfirleitt um 60 talsins.
Sjá nánar á vef handritaskólans.
Stúdentar geta tekið eitt af eftirfarandi námskeiðum, eftir því hver undirbúningur þeirra er:
Sumarskóli í handritafræðum - Grunnnámskeið
Tíu daga námskeið í norrænum handritafræðum frá miðöldum fram um 1800. Meðal efnis er saga norrænna miðaldahandrita, grunnatriði í sögu bókagerðar, lýsing og skráning handrita, fornskriftarfræði og uppskriftir texta í handritum, auk stafrænnar framsetningar slíks texta. Námskeiðið byggist jöfnum höndum á fyrirlestrum og hagnýtum æfingum. Færni í (forn)íslensku er skilyrði fyrir þátttöku. Einnig er æskilegt að nemendur geti lesið eitthvert hinna Norðurlandamálanna, þótt það sé ekki skylda.
Sumarskóli í handritafræðum - Framhaldsnámskeið
Tíu daga námskeið í norrænum handritafræðum. Áhersla er lögð á samanburð texta í handritum, fræðilegar forsendur og vinnubrögð við textarýni, grunnatriði útgáfustarfs og mótun stefnu við útgáfu texta. Námskeiðið byggist jöfnum höndum á fyrirlestrum og hagnýtum æfingum. Nemendur skulu hafa lokið grunnnámskeiði Sumarskólans í handritafræðum eða sambærilegu námi.
Sumarskóli í handritafræðum - Meistaranámskeið
Á meistaranámskeiði vinna nemendur að einu útgáfuverkefni. Þeir skrá sögu tiltekins texta, staðsetja og lýsa þeim handritum sem skipta máli, taka ákvörðun um útgáfustefnu og framfylgja henni eins og unnt er innan átta daga tímaramma námskeiðsins. Nemendur skulu hafa lokið framhaldsnámskeiði Sumarskólans í handritafræðum eða sambærilegu námi.
Hvert námskeið er metið til 5 ECTS eininga og getur verið hluti af meistaranámi í íslenskum miðaldafræðum (Medieval Icelandic Studies).