Staðarhólsbók er í hópi veglegustu skinnhandrita Árnasafns, lagahandrit í arkarbroti (folio) og að líkindum meðal elstu íslensku handrita sem varðveist hafa heil að kalla. Skarðsbók Jónsbókar (AM 350 fol.) tekur henni fram í mikilleik og íburði eitt íslenskra lagahandrita frá miðöldum, en það er yngra handrit.
Fyrir Staðarhólsbók mótar fyrst í þoku fortíðar í Húnaþingi á fjórtándu öld, en þá páraði eigandi hennar eða handhafi í hana minnisgreinar um jarðeignir þar um slóðir ásamt ókennilegum nöfnum. Bókin er 108 skinnblöð og útsíður hennar hafa sýnilega staðið auðar í upphafi og þjónað kápuhlutverki, en öldum síðar var hún felld í leðurklædd viðarspjöld með spennslum. Á meginhluta bókarinnar stendur lagaskrá þjóðveldistímans, Grágás, með Kristinrétti hinum forna og tíundarstatútu, og fyllir fyrstu 98 blöð handritsins. Í beinu framhaldi fylgir lögbókin Járnsíða, sem var lögboðin Íslendingum af Noregskonungi 1271 og þeir játuðu að fullu 1273. Handritið mun ekki fullritað fyrr en þá, en líklega var gerð þess lokið áður en Jónsbók var boðuð í Járnsíðu stað sumarið 1281. Á hinn bóginn er ekkert fast í hendi um hvenær eða hvers vegna til bókarinnar var upphaflega efnað þótt færa megi skynsamleg rök fyrir því að hvorki hafi handritið verið áratugi í smíðum né því kastað saman í flýti. Við lögtöku Jónsbókar 1281, eða einhverju síðar, var dómakapítula mannhelgisbálks þeirrar bókar bætt við á fremstu síðu Staðarhólsbókar en á öftustu síðu virðist fyrst skrifað á 16. öld, bæði eigendanöfn og smærri athugagreinar. Þar stígur fyrsti nafngreindi eigandi bókarinnar fram úr þokunni, húsfrú Hólmfríður Erlendsdóttir í Stóradal undir Eyjafjöllum, mægð við og komin af mætum lögmönnum.
Myndin er af blöðum 36v−37r, upphafi þáttarins um fjárleigur.
Víst má telja að mörg veglegustu handrit fyrri alda hafi ekki síður gengið erfðum og gjöfum mektarkvenna á milli en valdsmanna, og virðist Staðarhólsbók dæmi þar um. Eftir því sem í pári bókarinnar greinir arfleiddi Hólmfríður Filippus nokkurn Runólfsson að henni sem aftur gaf hana Páli lögmanni Vigfússyni á Hlíðarenda (d. 1570) með svofelldri bæn: „Guð gefi honum og öllum til lukku bæði fyrir líf og sál“, en Pál erfði systir hans Guðríður og þar með bókina vafalaust, og síðan Guðrún dóttir hennar. Víkur nú sögu bókarinnar vestur til Breiðafjarðar þar sem séra Páll Ketilsson í Hvammi (d. 1720) gaf systursyni sínum Árna Magnússyni hana sumarið 1685, en áður áttu feðgarnir Pétur og Bjarni Pétursson (d. 1693) á Staðarhóli í Saurbæ. Dró Árni af því nafn bókarinnar og hlýtur að teljast líklegt að afi Bjarna (og Brynjólfs biskups Sveinssonar), Staðarhóls-Páll (d. 1598), hafi átt hana fyrrum, hinn aðsópsmesti valdsmaður og lögspekingur sinnar tíðar.
Úr Járnsíðu féllu að líkindum tvö blöð áður en Árni eignaðist handritið og má við upphaf eyðunnar sjá rithönd safnarans sjálfs: „hér vantar“. Þá kvarnaðist og lítillega af niðurlagi lögbókarinnar þegar síðasta blað handritsins var skorið einhvern tíma í fyrndinni, og er það nú allvelkt. Að öðru leyti er þessi elsta, og í raun eina, gerð hinnar fornu lögbókar konungs mjög sæmilega varðveitt í Staðarhólsbók. Skinnbókin ber aldur sinn vel, með lituðum og fagurdregnum upphafsstöfum og rauðlitum fyrirsögnum. Mun hún frá upphafi hafa verið eiganda sínum hæsta prýði enda ærnu til hennar kostað.
Viðar Pálsson, ágúst 2018