Skip to main content

Sjálfsmyndir, ímyndir og félagsleg vitund í siðabókmenntum og tækifæristextum árnýaldar

Meginmarkmið verkefnisins er að rannsaka siða- og hegðunarreglur og skyldar bókmenntagreinar sem varðveittar eru í íslenskum handritum frá árnýöld, og sýna fram á tengsl þessara bókmennta við mótun sjálfsmynda ráðandi stétta í landinu, félagslega og menningarlega ímyndasköpun og hvernig viðkomandi textar tengjast félagslegu og menningarlegu valdakerfi í landinu.

Með þessu er jafnframt komið á framfæri bókmenntum sem hafa hingað til fengið litla sem enga athygli í bókmenntasögunni en eiga þó, að mínu mati, mikilvægan þátt í mótun hugmynda okkar um kynferði og félagsvitund. Lykilspurningar verkefnisins eru: Í hvers konar umhverfi þróuðust hugmyndir um kynferði og samskipti kynjanna, félagsvitund og menningarleg viðmið? Hvernig birtast þessar hugmyndir í samtímatextum? Á hvaða hátt endurspegla textarnir viðhorf og hugmyndir fólks á árnýöld? – Þá er ætlunin að gefa út valda texta, sem ekki hafa áður verið prentaðir en eru mikilvægur hluti af bókmenningu síðari alda. Með því að koma þessum textum á framfæri og setja þá í samhengi við aðra texta á tímabili sem litið hefur verið á sem hnignunarskeið íslenskra bókmennta verður íslensk bókmennta- og menningarsaga endurmetin á vissan hátt. Þá er markmiðið einnig að tengja þessa texta sambærilegum bókmenntum í Norður-Evrópu, en að undanförnu hafa birst útgáfur og rannsóknir á siða- og hegðunarreglum árnýaldar, einkum þýskum og breskum.