Skip to main content

Sigurður Nordal (1886−1974); ævi og störf

Sigurður Nordal (1886−1974)

Sigurður Nordal

Sigurður Nordal var einn áhrifamesti fræðimaður þessarar aldar á sviði íslenskra fræða. Með ritum sínum um íslenskar bókmenntir fyrri og síðari alda, fjölda greina og fyrirlestra auk kennslu sinnar við Háskóla Íslands mótaði hann skilning og túlkun bókmennta og menningar Íslendinga frekar en flestir aðrir Íslendingar. Áhrif Sigurðar náðu langt út fyrir raðir fræðimanna, alla ævi var hann áberandi á sviði íslenskrar menningarumræðu og hann var virtur og viðurkenndur meðal fræðimanna á sviði íslenskra og norrænna fræða um heim allan. Hann var einn forvígismanna þeirrar stefnu í rannsóknum íslenskra miðaldabókmennta sem kennd er við „íslenska skólann“ og hefur verið áhrifamikill í miðaldarannsóknum allt fram á þennan dag.

Á þessari síðu er að finna stutt æviágrip Sigurðar, skrá um nokkur rit og greinar um Sigurð og verk hans auk efnisyfirlits nýrrar heildarútgáfu á verkum hans. Einnig er hér að finna grein eftir Kristján B. Jónasson rithöfund, „Í miðjum straumi menningar“. Þar gerir Kristján grein fyrir stöðu Sigurðar sem menningargagnrýnanda og sérkennum hans sem túlkunarfræðings. Í grein Kristjáns segir m.a.: „Á þröskuldi íslensks nútímasamfélags tókust á ólík viðhorf um hver ætti að vera hugmyndalegur grundvöllur hinnar nýju þjóðfélagsmyndar sem iðnvæðing og innlend fjármagnsmyndun var að skapa og Sigurður hafði af því stórar áhyggjur að allt það sem prýddi íslenska menningu myndi fara forgörðum í þeim átökum … [hann vildi] leita út fyrir ramma samtímaumræðunnar og skyggnast eftir frumformum þess sem var sannanlega íslenskt. Grunninn […] fann hann í miðaldabókmenntunum og túlkun þeirra var í hans augum lykill að mótun nútímasamfélags á Íslandi.“

nordal71
Æviágrip

1886 Fæddur 14. september að Eyjólfsstöðum í Vatnsdal.

1906 Stúdent frá lærða skólanum í Reykjavík.

1912 Mag. Art. frá Kaupmannahafnarháskóla.

1913 Gefur út Orkneyingasögu.

1914 Dr. phil. frá Kaupmannahöfn með ritgerð um Ólafs sögu helga. Ritgerðin kom út sama ár og nefndist Om Olaf den helliges saga.

1915-18 Heimspekinám í Berlín og Oxford.

1918 Prófessor í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands.

1918-19 Hannesar Árnasonar fyrirlestrarnir. Veturinn 1918-19 flutti Sigurður 20 fyrirlestra um heimspeki sem voru afrakstur námsdvalar hans í Berlín og Oxford en til hennar hafði hann hlotið styrk úr sjóði Hannesar Árnasonar. Hluti fyrirlestranna var gefinn út árið 1986 í ritröðinni íslenzk heimspeki. Þeir eru allir prentaðir í ritsafni hans undir titlinum „Einlyndi og marglyndi“ í öðru bindi þess hluta sem nefnist „List og lífsskoðun.“

1919 Fornar ástir, smásögur eftir Sigurð koma út. Sögur Sigurðar voru um margt nýstárlegar, einkum „Hel“ sem af mörgum fræðimönnum er talin eitt þeirra verka sem ruddu íslenskum nútímabókmenntum braut.

1920 Bók Sigurðar Snorri Sturluson kemur út.

1922 Kvænist Ólöfu Jónsdóttur.

1922-23 Rektor Háskóla Íslands.

1923 Gefur út Völuspá með skýringum í Árbók Háskóla Íslands. Bókin var síðan endurútgefin árið 1952. Skýringar Sigurðar á Völuspá og hugmyndir hans um kvæðið sem heilsteypt höfundarverk eins manns gengu gegn mörgum eldri túlkunum kvæðisins, en urðu fljótt áhrifamiklar. Dönsk gerð ritgerðarinnar kom út árið 1927 í þýðingu Hans Albrectsens, ensk þýing birtist árið 1978, þýsk þýðing árið 1980 og loks japönsk þýðing árið 1993.

1924 Gefur út Íslenska lestrarbók með ritgerðinni „Samhengið í íslenskum bókmenntum“. Lestrarbókin og ritgerð Sigurðar eru meðal mikilvægustu rita í mótun íslenskrar bókmenntasögu á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þar setur Sigurður fram þær hugmyndir sem síðan áttu eftir að móta öll skrif hans um bókmenntir fyrri og síðari alda. Meginþátturinn í kenningu Sigurðar um samhengi bókmenntanna er sá að saga íslenskra bókmennta sé samfelld og ekki sé staðfest gjá á milli fornbókmenntanna og endurreisnar bókmenntanna á 19. öld.

1927-29 Einn af ritstjórum tímaritsins Vöku, tímarits um menningarmál, ásamt Kristjáni Albertssyni o.fl.

1928-36 Gráskinna, þjóðsagnasafn sem Sigurður gaf út í samvinnu við Þórberg Þórðarson, kemur út.

1931-32 Professor of Poetry, Harvard University.

1933 Gefur út Egilssögu fyrir Hið íslenska fornritafélag. Sigurður markaði með þessari útgáfu þá stefnu sem útgáfur Fornritafélagsins hafa fylgt síðan. Hann var útgáfustjóri félagsins til 1951.

1933-42 Ritstjóri Monumenta typographica Islandica.

1937-51 Ritstjóri Studia Islandica.

1939 Gefur út Andvökur Stephans G. Stephanssonar, úrval.

1940 Bók Sigurðar um Hrafnkötlu kemur út í Studia Islandica. Ásamt Egluformálanum frá 1933 og Völuspárútgáfunni er ritgerð Sigurðar um Hrafnkötlu það rit hans sem helst markaði íslenska skólanum stefnu. Sigurðu heldur því fram að sagan sé skáldsaga, verk menntaðs 13. aldar höfundar sem hafi því sem næst ekkert stuðst við arfsagnir. Árið 1958 kom út ensk gerð bókarinnar í þýðingu R. George Thomas, sú útgáfa var endurútgefin árið 1983.

1942 Íslenzk menning I kemur út. Íslenzk menning er af mörgum talin höfuðrit Sigurðar Nordals. Þar setur hann fram í heildstæðu formi hugmyndir sínar um gerð og sérkenni íslenskrar menningar og ítrekar fyrri hugmyndir sínar um gildi hins gamla og mikilvægi varðveislu þess fyrir nýsköpun og lífsþrótt menningarinnar. Ensk gerð bókarinnar kom út í þýðingu Vilhjálms T. Bjarnar árið 1990.

1943 Áfangar I. Líf og dauði kemur út.

1944 Áfangar II. Svipir kemur út.

1946 Leikrit Sigurðar, Uppstigning, leikið í Þjóðleikhúsinu.

1950 Skottið á skugganum, bók með vísum og kvæðum Sigurðar ásamt ljóðaþýðingum, kemur út.

1951-57 Sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn. Frá og með 1945 var Sigurður einnig prófessor við Háskóla Íslands án sérstaks aldurstakmarks eða kennsluskyldu.

1960 Skiptar skoðanir ritdeila Sigurðar og Einars H. Kvaran frá árunum 1925-27 kemur út. Þessi deila fór fram í íslenskum tímaritum og snerist um skáldskap Einars og þá lífsskoðun sem þar birtist. Eins og Sigurður bendir sjálfur á í einni af greinum sínum var þessi deila í raun réttri deila tveggja kynslóða þar sem tókust á viðhorf Einars og kynslóðar raunsæismanna sem verið hafði ríkjandi í íslensku bókmenntalífi frá því á síðustu áratugum nítjándu aldar og ný viðhorf, sem kenna mætti við ný-rómantík og nútímavæðingu, og Sigurður túlkaði.

1962 Gráskinna hin meiri kemur út.

1964 Ritgerð með kvæðasafni Einars Benediktssonar kemur út.

1966 Útnefndur heiðursdoktor við Háskóla Íslands.

1968 Um íslenskar fornsögur kemur út. Þessi bók Sigurðar er þýðing á hans hluta í Nordisk KulturVIII B sem kom út í Stokkhólmi árið 1953.

1970 Bók Sigurðar um Hallgrím Pétursson og Passíusálmana kemur út.

1971-73 Þjóðsagnabókin kemur út í þremur bindum.

1974 Sigurður Nordal lést í Reykjavík 21. september.