Í þessu verkefni eru mörk setningafræði og orðhlutafræði rannsökuð út frá samfalli. Ýmsar setningagerðir, sem eiga það sameiginlegt að samfall gerir þær betri en ella, verða skoðaðar. Dæmi um þetta eru sýnd í (1)–(2) (dæmi (1) er fengið úr Málkrókum Marðar Árnasonar frá 1991, bls. 74):
(1) ??Strákurinn stal og eyðilagði bílinn.
(2) Strákurinn stal og eyðilagði bíl.
Sögnin stela stýrir þágufalli en eyðileggja þolfalli. Hér gengur verr að nota bílinn en bíl og ástæðuna virðist mega rekja til samfalls: bíl er eins í þolfalli og þágufalli, og það eru einmitt föllin sem eyðileggja og stela stýra, en bílinn getur eingöngu verið þolfall en ekki þágufall.
Kenningakerfi málkunnáttufræði ganga gjarnan út frá því að myndun setninga (málfræðileg afleiðsla) fari fram í áföngum; fyrst býr setningafræðihlutinn til formgerðina sem er svo send til orðhlutafræðihluta afleiðslunnar. Þegar þangað er komið getur setningafræðin ekki frekar átt við formgerðina. Þessar forsendur hafa í för með sér skýra spádóma: Setningafræðin ætti ekki að hafa aðgang að upplýsingum um orðhlutafræði, svo sem að orðmyndin bíl getur verið þolfall og þágufall en að bílinn getur eingöngu verið þolfall. Engu að síður virðast upplýsingar um slíkt samfall hafa áhrif á hversu góðar ýmsar setningagerðir þykja, sbr. setningarnar í (1)–(2).
Í verkefninu verður reynt að svara eftirfarandi spurningum:
(3) Hvenær eru upplýsingar um orðhlutafræði gerðar aðgengilegar í málkerfinu? Hvaða aðgang hefur setningafræðin að slíkum upplýsingum og hvernig getur hún nýtt sér þær?
(4) Má nota áhrif samfalls á það hversu góð setning telst til að velja milli mismunandi málfræðilegra greininga?
Verkefnið „Samfall: Innsýn í mörk setningafræði og orðhlutafræði“ er styrkt af Rannsóknasjóði Rannís til þriggja ára (2021–2023). Því stýra Einar Freyr Sigurðsson, rannsóknarlektor á orðfræðisviði, og Jim Wood, lektor í almennum málvísindum við Yale-háskóla. Tvær MA-ritgerðir verða skrifaðar innan verkefnisins en Oddur Snorrason MA-nemi vinnur á vormisseri 2021 að ritgerð sinni um áhrif samfalls í nýju þolmyndinni og skyldum setningagerðum. Þá gengur Gísli Rúnar Harðarson nýdoktor til liðs við verkefnið síðari hluta árs 2021.