Skip to main content

Saga og bókmenntir í handritum

Siglingar og landafundir norrænna manna

Á víkingaöld (um 800-1050) voru Skandínavar ein mesta siglingaþjóð í Evrópu. Þeir sigldu á knörrum og reru langskipum, og fóru ýmist með ófriði eða stunduðu verslun. Sums staðar settust þeir um kyrrt í hernumdum löndum og stofnuðu sjálfstæð víkingaríki. Svíar herjuðu í austurveg um Eystrasalt, sigldu upp eftir ám og stofnuðu Garðaríki á Rússlandi; höfuðstaðir voru Hólmgarður og Kænugarður, sem nú heita Novgorod og Kiev. Danir og Norðmenn fóru í vesturveg, stofnsettu víkingaríki í kringum Jórvík á Englandi austanverðu, í Orkneyjum, í kringum Dyflinni á Írlandi og í Normandí á Frakklandi með höfuðstað í Rúðuborg, nú Rouen. Í þessum löndum runnu norrænir menn saman við innfædda og týndu smám saman tungu sinni og þjóðerni. Áhrifa þeirra gætir þó enn víða í örnefnum og norrænt mál, norn, var talað á skosku eyjunum fram á 18. öld. Varanlegast varð landnám norrænna manna þar sem þeir hittu fyrir mannauð eða fábyggð lönd, í Færeyjum, á Íslandi og Grænlandi. Forn víkingaskip hafa fundist í Noregi og Danmörku, sæmilega varðveitt í jörðu og sjó. Eftirlíkingar sem gerðar hafa verið í nútíðinni sanna hve þau hafa verið góðir farkostir. Stílfærðar myndir í íslenskum handritum sýna að lag skipanna hefur haldist fram eftir öldum.

Landnám Íslands - Þjóðveldið

Norrænir menn byggðu Ísland á síðara hluta níundu aldar og fyrra hluta hinnar tíundu, bæði frá Noregi og norrænum byggðum á Bretlandseyjum þaðan sem þeir fluttu með sér eiginkonur og þræla. Þegar Ísland var albyggt orðið, um 930, stofnuðu landnemarnir og afkomendur þeirra eitt ríki í landinu. Æðstu völd voru þá í höndum 39 bændahöfðingja, goða. Þing voru haldin á vorin í hverju héraði. Þar voru dómar dæmdir og ráðið fram úr ýmsum málum innan héraðs. Síðan komu höfðingjar og með þeim fjöldi fólks úr öllum stéttum saman til allsherjarþings, Alþingis, sem haldið var í tvær vikur á Þingvöllum við Öxará þegar sól var hæst á lofti.

Eitt fyrsta rit sem samið var á íslensku var Landnámabók sem byrjað var að efna til á 12. öld en haldið áfram að bæta í fram um 1300. Þar eru taldir allir helstu frumbyggjendur landsins, sagt frá bústöðumþeirra og ættir raktar. Hin mannfræðilega beinagrind er lífguð með stuttum, en kjarnmiklum frásögnum af landnámsmönnum og niðjum þeirra, sem sagt er meira frá í Íslendingasögum.

Nánar um Landnámu og AM 107 fol. (Sturlubók Landnámu).

Alþingi - Hin fornu lög, Grágás

Alþingi var áhrifamikil samkoma þótt það starfaði aðeins tvær vikur á ári. Lögrétta, skipuð héraðshöfðingjunum, hafði það hlutverk að setja ný lög og endurbæta frumlögin. Dómstólar voru fjórir, einn fyrir hvern landsfjórðung. Snemma var bætt við sérstökum fimmtardómi sem var einskonar hæstiréttur fyrir allt landið.

Í fyrstu voru lögin varðveitt í minni fólks eins og hjá öðrum germönskum þjóðum á heiðnum tíma. Sérstakur lögsögumaður hafði það hlutverk að þylja þau í heyranda hljóði á Lögbergi, einn þriðjung hvert ár. Mikilvægt var að koma í veg fyrir ágreining um lögin og því voru þau meðal þess sem fyrst var fært í letur eftir að ritmenning kristninnar náði fótfestu í landinu. Hafliðaskrá var rituð veturinn 1117-18 á bæ Hafliða Mássonar, Breiðabólsstað í Vesturhópi og er það jafnan talið marka upphaf ritaldar á Íslandi. Hafliðaskrá er nú löngu glötuð en þjóðveldislögin fengu síðar nafnið Grágás og eru varðveitt í nokkrum fornum handritsbrotum og tveimur skinnbókum sem skrifaðar voru um þær mundir sem þjóðveldið leið undir lok og Ísland komst undir Noregskonung 1262-64.

Landnám Grænlands

Á fyrstu öldinni eftir landnámið áttu Íslendingar enn mikinn skipaflota og á seinna hluta 10. aldar héldu þeir áfram í vestur í leit að nýjum löndum. Eiríkur rauði fann land sem hann nefndi Grænland "og kvað menn það myndu fýsa þangað farar að landið ætti nafn gott", segir Ari fróði. Á næstu árum fluttust margir Íslendingar til Grænlands og reistu þar byggð sem blómgaðist vel framan af. Íbúar munu hafa verið um 4-6 þúsund þegar best lét.

Grænland fylgdi móðurlandinu Íslandi undir stjórn norskra og síðar danskra konunga. Á síðmiðöldum hrakaði byggðinni vegna kólnandi loftslags og vanrækslu stjórnvalda, og að lokum lögðust ferðir til Grænlands af í byrjun 15. aldar. Þegar landkönnuðir komu þangað aftur tveim öldum síðar fundu þeir aðeins hrundar bæjarústir og fátæklega trékrossa yfir beinum hinna norrænu íbúa. Talið er líklegt að á yngri árum hafi Kólumbus komið í norðurhöf, jafnvel alla leið til Íslands, og heyrt sögur af vesturferðum Íslendinga til Grænlands og Vínlands.

Fundur Vínlands

Í Grænlendingasögu og Eiríkssögu rauða er sagt frá fundi Vínlands hins góða. Bjarni Herjólfsson og Leifur heppni, sonur Eiríks rauða, eru hvor um sig sagðir hafa fundið þrjú lönd sem nefnd voru Vínland, Markland og Helluland. Helluland og Markland hafa líklega verið Baffinsland og Labradorskaginn. Vínland virðist hafa verið sunnan við St. Lawrence flóann, líklega í New Brunswick. Húsarústir og aðrar minjar um norræna menn hafa fundist í L'Anse aux Meadows á norðurodda Nýfundnalands, og mun þar hafa verið viðkomustaður á leiðinni milli Grænlands og Vínlands. Þorfinnur karlsefni reyndi að nema land á Vínlandi en varð að hörfa þaðan eftir þrjú ár vegna ófriðar innfæddra og gerðist síðan bóndi á Glaumbæ í Skagafirði ásamt Guðríði konu sinni og syninum Snorra, fyrsta hvíta manninum sem fæddist á meginlandi Norður Ameríku.

Eddukvæði - Konungsbók

Eddukvæðin eru að mestum hluta aðeins varðveitt í einu handriti sem nefnt er Konungsbók Eddukvæða eða á latínu Codex Regius af því að það var lengi varðveitt í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn. Brynjólfur biskup Sveinsson sendi konungi bókina 1662 og var hún afhent vorið 1971 ásamt Flateyjarbók. Voru þetta fyrstu handritin af um 1800 sem voru flutt til Íslands frá Danmörku.
Konungsbók var lengi nefnd Sæmundar-Edda af því að menn héldu ranglega að Sæmundur fróði í Odda hefði tekið bókina saman. Í bókina var safnað kvæðum sem höfðu lifað öldum saman í munnlegri geymd en voru færð í letur á Íslandi á 12. og 13. öld. Í fyrra hluta Eddu eru kvæði um hina heiðnu norrænu guði en í seinna og stærra hlutanum eru hetjukvæði. Frægust goðakvæðanna eru Hávamál, heilræða- og spekiljóð sem lögð eru í munn Óðni, og Völuspá sem birtir í skáldlegum leiftursýnum heimsmynd og heimssögu hinnar fornu trúar.
Hetjur þær sem frá er sagt í Eddu lifðu suður í Evrópu á fyrra hluta miðalda, og eru sumar þeirra nafnkenndar svo sem Atli Húnakonungur (Attila, d. 453) og Jörmunrekur konungur Gota (Ermanrik, d. 376). Aðrir eru ekki kunnir í jarðneskum veruleika þótt kvæðin telji þá mesta konunga, svo sem Sigurður sem drap orminn Fáfni og náði undir sig gulli hans.

Goðafræðin - Snorra-Edda

Snorra-Edda er fræðslurit um íslenskan skáldskap, tekin saman af Snorra Sturlusyni (1179-1241). Skáldskaparmálið var byggt á goðsögnum sem Snorri segir til skýringar á fornum kenningum og því varð Snorra-Edda jafnframt meginheimild um hinn forna átrúnað norrænna manna.
Guðirnir (æsir) búa í Ásgarði og hefur hver þeirra sinn bústað. Óðinn er þeirra æðstur, guð skáldskapar, rúna og galdra, djúpvitur og slægvitur. Margir hinna helstu guða eru synir Óðins. Þeirra vinsælastur er Þór, mikill kappi sem lemur óvini guða, jötnana, með hamri sínum Mjöllni. Baldur er bestur ása, "hann er svo fagur álitum og bjartur að lýsir af honum". Loki, hinn lævísi jötunssonur og rógberi ásanna, veldur dauða Baldurs sem fer til Heljar en æsirnar refsa Loka grimmilega.
Goðin eiga í sífelldri baráttu við jötna sem búa í hellum og hömrum í Jötunheimum. Til jötna teljast og ýmsar ófreskjur, svo sem Fenrisúlfur sem engu eirði og Miðgarðsormur sem liggur í hafinu kringum jörðina og bítur í sporð sér. Goðunum tókst með brögðum að fjötra úlfinn og litlu munaði að Þór tækist að drepa Miðgarðsorm. Þór reri til fiskjar á djúpmið með jötninum Hymi, og dró jötunninn hvali en Þór egndi fyrir Miðgarðsorm með uxahöfði. "Engi hefir sá séð allógurligar sjónir er eigi mátti það sjá er Þór hvessti augun á orminn, en ormurinn starði neðan í mót og blés eitrinu," segir í Snorra-Eddu. En jötunninn skelfdist svo að hann hjó á vaðinn við borðstokkinn. Þór kastaði hamrinum Mjöllni eftir orminum en missti hans, og liggur Miðgarðsormur í umsjá allt til ragnaraka.
Að lokum sameinast jötnar í geysilegri herför móti guðunum og lýkur þeirri heimsorrustu svo að goðin falla flest og jötunninn Surtur brennir jörðina í eldi. Þetta eru ragnarök, örlög guðanna, einnig kölluð ragnarökkur. Eftir heimsbrunann rís jörðin í annað sinn iðjagræn úr ægi, og hin bestu goð og menn búa áfram í heimkynnum feðra sinna.

Dróttkvæði - Egill Skallagrímsson

Dróttkvæði eru önnur aðalgrein íslenskra fornkvæða, við hlið Eddukvæða, en eru miklu formfastari en þau, fjalla um samtímann eða nýliðna viðburði og eru eignuð nafnkenndum skáldum. Dróttkvæði hafa líklega fyrst verið ort af norrænum skáldum á seinna hluta 9. aldar en kvæðagreinin blómgaðist síðan einkum í höndum íslenskra skálda. Þegar ungir Íslendingar komu til annarra landa gengu þeir á fund jarla og konunga og fluttu þeim lofkvæði en þágu að launum fé og vegsemdir. Í annan stað vörpuðu skáldin fram vísum við ýmis tækifæri, og er fjöldi slíkra lausavísna varðveittur í sögum.
Mestur allra dróttkvæðaskálda var Egill Skallagrímsson sem uppi var á 10. öld. Egill er aðalhetja í sögu sem um hann var rituð á fyrra hluta 13. aldar og segir þar að hann hafi í æsku ort um að "fara á brott með víkingum". Honum varð að ósk sinni er hann hafði aldur til. Um ferðir sínar og vígaferli orti hann fjölmargar lausavísur, hlaðnar meitluðum líkingum. Þegar fjandmaður hans, Eiríkur konungur blóðöx, ætlaði að lífláta hann í Jórvík á Englandi, leysti hann höfuð sitt með því að yrkja á einni nóttu lofdrápu um konunginn undir nýstárlegum bragarhætti. Er það kvæði réttilega nefnt Höfuðlausn. Frægasta kvæði Egils er þó Sonatorrek sem hann orti um tvo sonu sína er hann hafði misst með sviplegum hætti.

Heilög ritning - Stjórn

Bækur bárust fyrst til Íslands með kristinni trú sem lögfest var á Alþingi árið 1000: latínubækur,heilög rit hinnar kaþólsku kirkju, skráðar með fjaðrapenna á skinn. Biskupssetrin tvö, Skálholt á Suðurlandi og Hólar fyrir norðan, voru helstu menntastöðvar landsins uns Reykjavík tók að eflast seint á 18. öld. Klaustur voru stofnuð víðs vegar um landið og mörg höfðingjasetur voru einnig stöðvar lærdóms og mennta.
Margvísleg þýdd latínurit voru meðal þess fyrsta sem ritað var á íslensku. Trúfræðileg skýringarrit voru notuð við kennslu prestaefna, og síðan þurftu þeir hómilíur til að prédika fyrir söfnuðinum á móðurmálinu. Lesnar voru í heyranda hljóði frásagnir af helgum mönnum á messudögum þeirra, og þessi trúarlegu rit þjálfuðu íslenskt ritmál og áttu þátt í að kenna Íslendingum að skrifa um innlenda viðburði.

Líkur benda til að öll Biblían hafi verið þýdd á norrænt mál á miðöldum en aðeins hefur varðveist fyrri hluti Gamla testamentisins, aukinn trúfræðilegum skýringum miðaldamanna. Þessi þýðing hefur á síðari tímum hlotið nafnið Stjórn, og er líklega átt við stjórn Guðs á heiminum. Sum handrit Stjórnar eru fagurlega lýst.

Konungasögur - Snorri Sturluson

Íslendingar rituðu ekki aðeins sögu síns eigin lands heldur og nálægra landa: Noregs, Danmerkur, Færeyja, Orkneyja og Grænlands. Mest kveður að sögum Noregskonunga sem eru margar og fjölbreytilegar, ritaðar á 12. og 13. öld.

Mestur og frægastur allra höfunda konungasagna var Snorri Sturluson (1179-1241). Hann var einn auðugasti höfðingi landsins og bjó stórbúi í Reykholti í Borgarfirði en hafði þó tóm til að yrkja kvæði um erlenda þjóðhöfðingja, semja Eddu og Heimskringlu og líklega fleiri rit. En hann dróst inn í deilur aldarinnar og fór svo að fjandmenn hans undir forystu Gissurar Þorvaldssonar réðust að honum óvörum á myrkri haustnóttu og hjuggu hann. Heimskringla dregur nafn sitt af upphafsorðunum: "Kringla heimsins, sú er mannfólkið byggir, er mjög vogskorin." Þetta er saga norskra konunga og höfðingja frá þjóðsögulegum tímum fram til Sverris konungs Sigurðssonar seint á 12. öld.

Sturlungasaga - Biskupasögur

Ari fróði Þorgilsson ritaði fyrstur manna sögurit á íslensku en eftir hann rak hvert sagnaritið annað og til urðu margar og fjölbreytilegar bókmenntategundir.

Íslendingasögur segja frá atburðum sem gerst höfðu löngu fyrr en þær voru ritaðar, en biskupasögur og Sturlungasaga herma frá nýlegum atburðum eftir frásögnum sjónarvotta eða annarra kunnugra manna.

Biskupasögur segja frá íslenskum biskupum frá upphafi kristni á 11. öld og fram til 14. aldar. Sturlungasaga (Sturlunga) dregur nafn af ætt Snorra Sturlusonar sem var valdamikil í landinu á 12. og 13. öld. Þetta er samsteypa margra sagna og er þeirra mest og merkust svonefnd Íslendingasaga eftir Sturlu Þórðarson (1214-84), bróðurson Snorra. Hún er merkilegt bókmenntaverk og jafnframt höfuðheimild um sögu Íslands á umbrotatímum 13. aldar.

Hetjuöld Íslands - Íslendingasögur

Íslendingasögur eru varðveittar í handritum frá 13. öld og þó einkum frá 14. og 15. öld en eru sagðar gerast á landnámsöld og fram um miðja 11. öld. Alls eru varðveittar um 40 sögur auk styttri þátta, allar án höfundarnafns. Sögurnar byggja bæði á munnlegri, innlendri frásagnarlist og þeim aðferðum við sagnaritun sem menn lærðu í skólum kirkjunnar og þróuðust við ritun samtímasagna: konunga- og biskupasagna og Sturlungu. Þær eru raunsæilegar á ytra borði og ekki er sagt annað en það sem einhver gæti hafa séð eða heyrt. Frásögnin er gagnorð og laus við málskrúð og útúrdúra, persónur margar og fjölbreyttar eins og í lífinu sjálfu. Margar Íslendingasögur snúast um átök og hefndir og vanda manna við að lifa með sæmd. Ýmist er sagt frá mörgum kynslóðum, ævi aðalhetju, heilum héruðum eða hópi manna. Þá leika konur og ástir stórt hlutverk í sumum sögum. Hetjur Íslendingasagna eru oftast synir frjálsra bænda eða goða og gerast stundum hirðskáld konunga og frægir víkingar.

Ritun Íslendingasagna hófst á fyrra hluta 13. aldar og þær endurspegla að nokkru leyti þau átök og hugmyndir sem þá ríktu í þjóðfélaginu en byggja jafnframt á gamalli hefð.
Blóðhefndir og mannvíg eru magnaðasta efni Íslendingasagna, enda þykir slíkt jafnan meira frásagna vert heldur en friðsamleg skipti manna á meðal.

Brennu-Njálssaga

Brennu-Njálssaga (Njálssaga, Njála) er mest og frægust allra Íslendingasagna. Höfundur hennar hefur stuðst við munnmælasagnir og eldri ritaðar heimildir en jafnframt stælt eldri sögur og notað þær í nýju samhengi. Í Njálu er miklu efni saman þjappað, sumar persónur ýktar og sumir atburðir reyfaralegir. Höfundur dáist að og ann sumu sögufólki sínu en hefur fyrirlitningu á öðru, og þar á milli er fjöldinn sem fær samúð hans eða andúð í misjöfnum skömmtum. En þó eru allir viðburðir rökvíslega undirbyggðir, stundum með löngum aðdraganda, og allar mannlýsingar eru skarpar, hinar dökku með nokkru ljósi en engin svo björt að hún skýrist ekki af einhverjum skuggum. Fáar sögur í samanlögðum bókmenntum heimsins eiga þvílíkan fjölda ljóslifandi einstaklinga, þvílíka fjölbreytni í lýsingum og þvílíka speki í boðskap.

Erlend stjórn - Jónsbók

Íslendingar gengu á hönd Hákoni gamla Noregskonungi 1262, og sonur hans Magnús, sem kallaður var "lagabætir", setti þeim ný lög sem sniðin voru við hæfi konungsvalds og nýrra tíma í Evrópu. Hin nýja lögbók var nefnd Jónsbók eftir lagasmiðnum sem flutti hana til Íslands. Hún gilti öldum saman og handrit hennar skipta hundruðum. Mörg Jónsbókarhandrit eru fagurlega myndskreytt, svo sem Skarðsbók. Sum ákvæði Jónsbókar gilda enn í dag, til dæmis ákvæðin um það er hvali, timbur eða annað ágæti rekur að ströndinni.