Rannsóknarsvið
Bókmenntir og saga
Á menningarsviði eru stundaðar rannsóknir á textum frá miðöldum og síðari öldum sem eru í flestum tilvikum varðveittir í handritum. Textarnir eru af ýmsu tagi, bókmenntir, sagnfræði, lög, máldagar, fornbréf og önnur skjöl, annálar o.fl.
Handrit og skrift
Á menningarsviði eru stundaðar rannsóknir á handritum og unnið að margvíslegum verkefnum þeim tengdum. Má þar nefna rannsóknir á skrift, lýsingum og samsetningu handrita en einnig almennar rannsóknir á handritum í tengslum við rannsóknir á textum og útgáfur þeirra.
Mál og samfélag
Á íslenskusviði eru stundaðar rannsóknir á máli og málnotkun með áherslu á samspil ýmissa ytri þátta við hina formlegu þætti tungumálsins og þróun þeirra. Sjónarhornið tengist gjarna málsamfélaginu í heild eða miðast við einstaka málnotendur og hópa fólks; við breytilegar málaðstæður og hið fjölbreytilega samhengi sem málnotkun birtist í.
Málsaga
Á Árnastofnun eru stundaðar málsögurannsóknir af ýmsu tagi, bæði rannsóknir á þróun málsins með samanburði á málnotkun í textum frá ólíkum tímum og samtímalegar rannsóknir á máli og málnotkun á tilteknu tímaskeiði. Málsaga tekur til allra þátta málsins, jafnt til formlegra þátta sem snerta rithátt og hljóðkerfi, beygingu og setningagerð og til merkingarlegra þátta og málnotkunar.
Máltækni
Á íslenskusviði eru stundaðar rannsóknir í máltækni með áherslu á málleg gagnasöfn, málheildir, og greiningu og hagnýtingu á þeim. Einkum eru stundaðar rannsóknir á færni myndandi mállíkana til að búa til texta, hvort sem það felur í sér að mæla nákvæmni þýðingarvéla eða smíði málfræðilegra prófa fyrir mállíkön. Þá er máltækni hagnýtt til að styðja við aðrar rannsóknir og starfsemi stofnunarinnar.
Nöfn
Á menningarsviði eru stundaðar rannsóknir í nafnfræði og unnið að margvíslegum verkefnum sem tengjast örnefnum, m.a. í samstarfi við Landmælingar Íslands og Þjóðskrá Íslands. Nafnfræði er fræðigrein sem fæst við rannsóknir á nöfnum með áherslu á orðsifjar, uppruna og merkingu nafna en einnig beygingar þeirra.
Orð
Á íslenskusviði eru stundaðar rannsóknir á notkun orða og orðasambanda í raungögnum. Gögnin eru af ýmsum toga og sem dæmi má nefna stórar stafrænar málheildir og textasöfn, seðlasöfn, sendibréf og hljóðrituð samtöl.
Orðabækur
Á íslenskusviði eru stundaðar rannsóknir og þróun á sviði orðabókafræði. Rannsóknum má einkum skipta í tvo flokka. Í fyrsta lagi lúta þær að gerð orðabóka og í öðru lagi snúa rannsóknirnar að innihaldi orðabókaverka.
Þjóðsögur- og kvæði
Á menningarsviði eru stundaðar rannsóknir í þjóðfræði og unnið að margvíslegum verkefnum sem fyrst og fremst falla undir þá undirgrein þjóðfræðinnar sem er kölluð þjóðsagnafræði en hún fæst við rannsóknir á sögum og kvæðum, hverjir fluttu þau og hvernig.
Söfn Árnastofnunar
Handritasafn
Í handritasafni Árnastofnunar eru 1666 handrit og handritahlutar úr safni Árna Magnússonar, prófessors í Kaupmannahöfn og handritasafnara, auk 1345 íslenskra fornbréfa í frumriti og 5942 fornbréfauppskrifta. Til viðbótar er 141 handrit úr Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn.
Stofnunin á í fjölbreyttu samstarfi við systurstofnanir, samtök og háskóla í öðrum löndum og tekur þátt í fjölþjóðlegum rannsóknarverkefnum.
Stofnunin á í fjölbreyttu samstarfi við systurstofnanir, samtök og háskóla í öðrum löndum og tekur þátt í fjölþjóðlegum rannsóknarverkefnum.
Þjóðfræðisafn
Þjóðfræðisafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum inniheldur hljóðrit sem safnað hefur verið af starfsmönnum stofnunarinnar. Söfnunin fór fram á seinni hluta 20. aldar um allt land og í Íslendingabyggðum vestan hafs. Þar er einnig að finna afrit af elstu íslensku hljóðritum sem varðveist hafa frá upphafi 20. aldar og ýmis minni söfn sem stofnuninni hafa verið afhent til varðveislu.
Örnefnasafn
Í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eru geymdar skrár yfir örnefni á flestum jörðum á Íslandi. Kjarninn í safninu eru skrár yfir örnefni á flestum jörðum á landinu, en einnig eru varðveittar skrár yfir örnefni á mörgum afréttum og svæðum á hálendinu, auk t.d. skráa um nöfn á miðum en örnefnaskrár í örnefnasafni skipta þúsundum.
Söfn Orðabókar Háskólans
Stofnunin varðveitir söfn Orðabókar Háskólans sem eru ein mikilvægasta heimild sem til er um íslenskan orðaforða og þróun hans frá upphafi prentaldar um miðbik 16. aldar fram til nútímans. Söfnin eru varðveitt á pappírsseðlum sem geyma dæmi um notkun orða í samhengi eða umsagnir um orð og einkenni þeirra í töluðu eða rituðu máli, þar á meðal talsvert efni úr gömlum orðabókahandritum sem sum hafa aldrei verið gefin út.