Í tilefni af aldarafmæli dr. Sigurðar Nordals prófessors, 14. september 1986, var komið á fót við Háskóla Íslands menntastofnun sem bar nafn hans. Hlutverk hennar var að efla hvarvetna í heiminum rannsóknir og kynningu á íslenskri menningu að fornu og nýju og tengsl íslenskra og erlendra fræðimanna á því sviði. Úlfar Bragason var ráðinn forstöðumaður við stofnunina frá 1. janúar 1988. Því starfi gegndi hann þar til sameining stofnananna tók gildi 1. september 2006. Þá tók hann við starfi stofustjóra alþjóðasviðs á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Stofnunin var til húsa í Þingholtsstræti 29 í Reykjavík.
Vörður Sigurðar Nordals
2006
Stofnun Sigurðar Nordals 20 ára hinn 14. september.
Stofnun Sigurðar Nordals sameinuð Íslenskri málstöð Orðabók Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar og Örnefnastofnun Íslands þann 1. september undir heitinu Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Ráðstefna um íslensku sem annað mál/íslensku sem erlent mál, 17.–19. ágúst, í tilefni af 20 ára afmæli stofnunarinnar.
2005
Ný vefsíða Stofnunar Sigurðar Nordals opnuð.
Stofnunin tekur að sér skrifstofuhald fyrir Samstarfsnefnd um kennslu í Norðurlandafræðum erlendis.
Kynning á Norðurlöndum við háskóla í Shanghai og Bejing í Kína.
2004
Hinn 27. ágúst er opnaður aðgangur að vefnámskeiðinu Icelandic Online.
2003
Margmiðlunardiskurinn, Carry on Icelandic, kennsluefni í íslensku fyrir skiptistúdenta, gefinn út.
2002
Alþjóðleg ráðstefna um úrvinnslu J.R.R.Tolkiens, Halldórs Laxness og Sigrid Undset á norrænum menningararfi, 13. –14. september.
2001
Sumarnámskeið fyrir stúdenta frá Norður-Ameríku haldið í fyrsta skipti í samvinnu við University of Minnesota.
Íslenskunámskeið fyrir þátttakendur í Snorraverkefninu haldið í fyrsta skipti á vegum stofnunarinnar.
Kynning á Norðurlöndum við skóla í Japan.
2000
Alþjóðleg ráðstefna um miðlun þekkingar á landafundum norrænna manna á miðöldum, vesturförunum og landnámi Íslendinga í Vesturheimi, 31. ágúst–2. september.
1999
Alþjóðleg ráðstefna um heimildir um landnám norrænna manna við Norður-Atlantshaf og fund Ameríku, 9.–11. ágúst.
1998
Þing þýðenda íslenskra bókmennta haldið 9.–14. september
Samstarfsnefnd í kennslu í Norðurlandafræðum hérlendis styður í fyrsta skipti kynningu á Norðurlandafræðum við háskóla í Norður-Ameríku.
Vefsíða Stofnunar Sigurðar Nordals opnuð.
1997
Efnt til alþjóðlegs sumarnámskeiðs um íslenska miðaldafræði í fyrsta skipti.
1996
Alþjóðlega ráðstefna um íslenska málsögu og textafræði í tilefni af 10 ára afmæli stofnunarinnar, 14–15. september.
1995
Stofnunin fær fulltrúa í stjórn Snorrastofu.
1994
Ímynd Íslands, fyrsta smárit stofnunarinnar kemur út og hefur að geyma fyrirlestra um miðlun íslenskrar sögu og menningar.
Wagnerdagar, málþing í tilefni af frumflutningi á Íslandi á Niflungahringnum eftir Richard Wagner, haldið 23. maí og 29. maí.
1993
Hrafnkötluþing, fyrsta sagnaþingi í héraði sem stofnunin stendur að með heimamönnum, fer fram á Egilsstöðum 28.–29. ágúst.
1992
Halldórsstefna, alþjóðleg ráðstefna til heiðurs Halldóri Laxness níræðum, 12–14. júní.
Dr. Helgi Þorláksson, dósent við Háskóla Íslands, flytur fyrsta Sigurðar Nordals fyrirlesturinn á fæðingardegi dr. Sigurðar 14. september og nefnir hann: „Snorri goði og Snorri Sturluson."
Snorrastefna, fyrwsta rit stofnunarinnar kemur út.
Styrkir Snorra Sturlusonar veittir í fyrsta skipti erlendum fræðimönnum, þýðendum og rithöfundum til dvalar á Íslandi við störf sín.
1991
Menntamálaráðuneytið felur með bréfi 26. apríl stofnuninni að annast málefni sendikennslu í íslensku erlendis.
Stofnunin verður aðili að Samstarfsnefnd um kennslu í Norðurlandafræðum erlendis, samstarfsvettvangi stofnana á Norðurlöndum sem annast málefni sendikennslu.
1990
Snorrastefna, alþjóðleg ráðstefna um norræna óðfræði og goðafræði, 25.–27. júlí.
1989
Stofnunin gengst í frysta sinn fyrir alþjóðlegu sumarnámskeiði í íslensku í samvinnu við heimspekideild Háskóla Íslands.
Fréttabréf Sigurðar Nordals um íslensk fræði gefið útí fyrsta sinn og dreift til meira en þúsund stofnana og einstklinga sem fást við íslensk fræði í heiminum.
1988
Stofnun Sigurðar Nordals hefur starfsemi hinn 1. janúar í Þingholtsstræti 29.
Dr. Peter Hallberg, fv. prófessor í bókmenntafræðum við Gautaborgarháskóla, flytur fyrsta opinbera fyrirlesturinn á vegum stofnunarinnar 22. júní.
Stofnunin gengst fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um íslensk fræði í heiminum til að marka upphaf starfsemi sinnar, 24.–26. júlí.
1987
Ákveðið að stofnunin fái til umráða húseignina Þingholtsstræti 29 í Reykjavík sem aðsetur sitt og menntamálaráðuneytið festir kaup á húsinu í því skyni. Hafið að gera endurbætur á húsinu.
Dr. Úlfar Bragason bókmenntafræðingur ráðinn til að gegna forstöðu við stofnunina frá 1. janúar 1988.
1986
Þess minnst með dagskrá í Þjóðleikhúsinu 14. september að liðin eru 100 ár frá fæðingu dr. Sigurðar Nordals. Menntamálaráðherra Sverrir Hermannsson tilkynnir að sett hafi verið á fót menntastofnun við Háskóla Íslands sem beri nafn hans.
Skipuð stjórn Stofnunar Sigurðar Nordals. Í henni eiga sæti Davíð Ólafsson, fv.seðlabankastjóri, formaður, Jónas Kristjánsson, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar og Svavar Sigmundsson dósent.