Orðasambandaskráin er unnin upp úr tölvuskráðum notkunardæmum úr Ritmálssafni Orðabókar Háskólans sem spanna íslenskar ritheimildir allt frá miðri 16. öld. Í skránni birtist fjölbreytileg mynd af notkun einstakra orða í föstum samböndum og í dæmigerðu samhengi við önnur orð. Orðasambönd með algengum orðum skipta víða tugum og hundruðum og varpa sem heild skýru ljósi á merkingu og önnur notkunareinkenni orðanna. Skráin veitir einnig innsýn í sögu og samhengi íslensks orðaforða á síðari öldum.
Orðasambandaskráin hefur nú að geyma rösklega 135.000 orðasambönd af ýmsu tagi, sem tengd eru u.þ.b. 57.500 lykilorðum (leitarorðum).
Tilvitnun í efni á vef og gagnasöfn
Leit í skránni
Við leit í skránni býðst notendum að tilgreina ýmis leitarskilyrði:
- Einfaldasta leit felst í því að tilgreina lykilorð í flettimynd sinni í efri reitnum vinstra megin.
- Til að tryggja réttan orðflokk þarf að bæta við skammstöfun orðflokksins (ásamt kyni nafnorðs) í reitnum aftan við, samkvæmt eftirfarandi skammstafanalista:
-
- no kk: nafnorð í karlkyni
- no kvk: nafnorð í kvenkyni
- no hvk: nafnorð í hvorugkyni
- so: sagnorð
- lo: lýsingarorð
- ao: atviksorð
- fn: fornafn
- fs: forsetning
- st: samtenging
- to: töluorð
Ef leitin beinist sérstaklega að tengslum leitarorðsins við tiltekið orð, orðmynd eða orðflokk má þrengja leitarskilyrðin með því að viðhafa samtengda leit.
- Í reitunum tveimur hægra megin má tilgreina annað lykilorð (ásamt viðeigandi orðflokki) eða einungis skammstöfun þess orðflokks sem áhuginn beinist að. Ef t.d. skammstöfunin lo er færð í aftasta reitinn í framhaldi af leitarorðinu fjall í fremsta reitnum birtast einungis þau orðasambönd þar sem orðið fjall stendur með lýsingarorði.
- Í neðsta reitnum má svo tilgreina textastreng innan orðasambands (eins eða fleiri) sem leitað er að í tengslum við leitarorð og/eða orðflokk í reitunum fyrir ofan. Þar má t.d. tilgreina ákveðna fallmynd nafnorðs sem valið hefur verið sem lykilorð, eða tiltekna orðmynd sem staðið getur með mörgum lykilorðum (t.d. afturbeygða fornafnið sig í tengslum við orðflokkinn sagnorð, án þess að nokkurt sagnorð sé tilgreint).
Niðurstaða leitar
- Þegar smellt hefur verið á Leita birtist listi með orðasamböndum viðkomandi orðs sem raðað er í stafrófsröð með tilteknum frávikum. Orð og sambönd sem afmörkuð eru með oddklofum raðast aftast á þann hátt að fremri oddklofi gildir sem aftasti bókstafur og það sem stendur innan oddklofanna er hlutlaust gagnvart röðuninni (sjá sýnishorn (afl no hvk)). Oddklofarnir afmarka svokallaða breytiliði, þar sem fram koma eins konar samnefnarar eða fulltrúar orða og sambanda sem standa í viðkomandi umhverfi. Valfrjálsir liðir, sem afmarkaðir eru með svigum, eru einnig hlutlausir gagnvart röðuninni.
- Niðurstaða leitar birtist á tvískiptum skjá. Orðasambönd leitarorðsins eru rakin vinstra megin en hægra megin á skjánum birtist leitarorðið ásamt þeim lykilorðum sem standa því næst í stafrófinu. Þar á meðal eru tví- og fleiryrtar flettur sem hentugt getur verið að athuga í stað þess að leita slíkra samband undir almennara (einyrtu) leitarorði. Ef smellt er á orð í listanum birtast orðasambönd með viðkomandi orði.
Framsetning orðasambandanna í orðasambandaskránni er með sama sniði og í orðabókunum Orðastaður og Orðaheimur, og röðunarreglan er sú sama og viðhöfð er í orða- og orðasambandaskrá síðarnefndu bókarinnar. Í inngangi og notkunarvísum orðabókanna er að finna frekari lýsingu á framsetningu og röðun orðasambandanna.