Skip to main content

Óland kortlagt

Föstudagur 30. ágúst


Setning

13.30 Margrét Eggertsdóttir býður gesti velkomna fyrir hönd ráðstefnustjórnar
 

Opnunarávarp

13.35 Þorsteinn Antonsson: Um hvern haldið þið að ég sé að tala?

 

Málstofa 1: Prósaverk Eiríks Laxdals í bókmenntalegu samhengi
 

14.00 Lena Rohrbach: Genre memory and novelization: Laxdal and the saga tradition

Eiríkur Laxdal‘s two prose texts Ólands saga and Ólafs saga Þórhallasonar have been denoted as early Icelandic novels or also proto-novels due to their radical innovativeness of storytelling in close relation to earlier and contemporaneous foreign literary models. In all their innovativeness, the two texts are however deeply rooted in the Icelandic premodern narrative tradition, not only in terms of their self-designation as sagas, but also in their recourse to traditional narrative patterns, techniques and modes. In my paper, I will discuss how the peculiar literary style of these two sagas unfolds exactly in this tension between innovativeness and indebtedness to tradition. In this regard, Laxdal‘s sagas are in line with and in certain ways a paradigmatic example of the continuous reformulation and reinvention of narrative traditions over centuries and a reflection of a productive and active genre memory at work.

14.30 Ásdís Rósa Magnúsdóttir: Um Ólafs sögu Þórhallasonar og rammafrásagnir á 18. öld

Ólafs sögu Þórhallasonar er skipt niður í fjóra vökulestra sem innihalda marga smærri kafla. Með vökulestrum skrifar Eiríkur Laxdal verkið inn í vel þekkta hefð sem Hannes Finnsson biskup hafði einnig í huga við gerð rits síns Kvöldvökurnar 1794 sem ætlað var íslenskum almúga, þó einkum ungmennum, og sprettur upp úr fræðslustefnu 18. aldar. Verk Hannesar inniheldur samtals 69 vökulestra og þeir eru helgaðir fjölmörgum stuttum verkum af ólíkum toga, einkum þýddum, sem raðast niður á vetrarnæturnar sem vökulesturinn nær yfir. Vökulestrar Eiríks eru hins vegar fáir og frumsamdir og frásögn hans í senn flókin og heildstæð. Í fyrirlestrinum verður leitast við að varpa ljósi á tengsl verkanna tveggja við rammafrásagnir á 18. öld sem sumar hverjar voru vel þekktar á Íslandi á ritunartíma verkanna tveggja.

15.00 Kaffihlé

 

15.30 Kristján Bjarki Jónasson: Andupplýsing á Skaga? Frásagnarlist alþýðunnar í Ólafs sögu Þórhallasonar í ljósi fagurfræði Sturm und Drang

Íslenskur skáldskapur á seinni hluta 18. aldar sem stendur á grunni eldri íslenskra bókmenntagreina virðist ekki láta sveigja sig svo glatt undir nytsemis- og ögunarkröfur upplýsingarmanna. Efamál er þó að þar sé á ferð hugsuð andstaða við fagurfræði upplýsingarinnar. Hins vegar viðra samtímamenn og jafnaldrar Eiríks Laxdal á þýskumælandi menningarsvæðinu á 7. og 8. áratug 18. aldar hugmyndir um listaverk sem beinlínis er teflt gegn upplýsingunni. Þar er án efa áhrifamestur Johann Gottfried Herder sem gagnrýnir hve fjarri alþýðunni og menningu hennar upplýsingin sé. Það er áleitin spurning hvort Eiríkur Laxdal sé sama sinnis og Herder, Hamann eða von Gerstenberg í leit þeirra að „rödd og anda alþýðunnar“ í andstöðu við nytsemishyggju og siðferðisögun upplýsingar.

16.00 Jón Karl Helgason: Eiríkur Laxdal og Baldvin Einarsson: Frumkvöðlar í skáldsagnagerð?

Það var lengi haft fyrir satt að Jón Thoroddsen, höfundur Pilts og stúlku (1850) og Manns og konu (1868), væri frumkvöðull nútímalegrar skáldsagnagerðar á Íslandi.  Í seinni tíð hafa verið gerðar ýmsar athugasemdir við þessa söguskoðun, einkum með hliðsjón af handritum sem lítil þekking lá fyrir um fram á tuttugustu öld. Þar marka tímamót rannsóknir Steingríms J. Þorsteinssonar frá 1943 en hann var fyrstur til að kortleggja þá „skáldsagnaritun eða tilraunir þær til skáldsagnagerðar“ sem gerðar höfðu verið áður en Piltur og stúlka kom út. Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að stöðu Sögu Ólafs Þórhallasonar í þessari meintu þróunarsögu íslensks prósaskáldskapar en einnig vakin athygli á vissum sameiginlegum fagurfræðilegum einkennum hennar og fyrsta árgangs tímaritsins Ármanns á Alþingi (1829) eftir Baldvin Einarsson.

Laugardagur 31. ágúst


Málstofa 2: Heimur þjóðsagna og yfirnáttúru í verkum Laxdals
 

10.00 Sveinn Yngvi Egilsson: Kóngafólk og kynjaverur í ímyndaðri Evrópu: Sagnaheimur Ólandssögu

Í fyrirlestrinum verður fjallað um Ólandssögu (1777) eftir Eirík Laxdal (1743–1816). Sagan gerist í goðsögulegri fortíð víkingaaldar og fjallar um átök konungsætta og kynjavera um völd og áhrif. Höfundurinn býr til ævintýralegan heim sem tengist þó þekktum stöðum og staðreyndum. Einhvers konar Evrópa er sögusviðið en hún er hér kölluð Óland. Persónusafnið er stórt og litríkt, mannanöfn táknræn og lýsandi og örnefni sömuleiðis. Sagnaminnin eru fengin úr ýmsum áttum, ekki síst úr rómönsum og ævintýrum. Við sögu koma álög, barnsburðir, draumar, ferðalög, forneskja, fóstbræðralög, giftingar, hamskipti, haugbúar, hernaðir, kvonbænir, risar, skipbrot, töfl, tröll, útburðir, veislur og víg, svo fátt eitt sé talið. Allt fléttast þetta saman í flókinni frásögn sem skiptist í ákveðna þætti og undirsögur. Í fyrirlestrinum verður hugað að heimsmynd Ólandssögu og þá sérstaklega að því hlutverki sem yfirnáttúra og ummyndanir gegna í henni.

10.30 Rósa Þorsteinsdóttir: Ólensk, íslensk og erlend ævintýri

Ætlunin er að skoða bæði íslensk og erlend tilbrigði ævintýra sem eiga sér samsvörun í Ólandssögu Eiríks Laxdals. Þarna er hægt að finna ævintýri sem hafa auðsjáanlega verið þekkt mjög lengi á Íslandi, svo sem sagan af Vilfríði Völufegri og sagan af Finnu forvitru sem bæði voru skráð snemma á 18. öld. Einnig nokkur sem ekki eru skráð fyrr en á 19. öld en hafa þó yfir sér þann blæ að teljast verður líklegt að þau hafi gengið í munnmælum mun fyrr. Áhugaverðust í þessu sambandi er þó sagan sem samkvæmt alþjóðlegu flokkunarkerfi þjóðsagna er flokkuð sem ATU 710 Our Lady’s Child, en sú saga virðist helst hafa borist út í munnlega íslenska þjóðsagnahefð eftir að hún birtist fyrst í þýðingu Jóhanns Halldórssonar á Grimmsævintýrinu „Marienkind“ árið 1841.

11.00 Kaffihlé

 

11.15 Romina Werth: Sagnagerðin ATU 706 Stúlkan án handa og birtingarmynd hennar í Ólandssögu

Sagnagerðin ATU 706 Stúlkan án handa, eða nánar tiltekið undirgerðin ATU 706C Faðirinn sem vildi giftast dóttur sinni, er gömul og alþjóðleg ævintýragerð. Hún finnst m.a. í enskum, frönskum og þýskum miðaldabókmenntum en hefur einnig verið vinsælt sagnaefni í almúgabókum. Samkvæmt Einari Ól. Sveinssyni kynntist Eiríkur erlendu sagnaefni og sagnasöfnum á meðan hann var staddur í Kaupmannahöfn á árunum 1769‒1775 (1940, 102‒105). Það er því athyglisvert að Eiríkur notar sagnagerðina í Ólandssögu, í þætti Af Helgu hinni vænu (kafli 1‒19) sem og í lok Rauðsþáttar (kafli 30‒34) en ævintýragerðin er einnig útbreidd meðal íslenskra ævintýra sem safnað hefur verið á 19. öld. Í erindinu mínu mun ég fjalla um hvernig Eiríkur hefur unnið úr sagnagerðinni ATU 706/706C og aðlagað hana að Ólandssögu. Notaði hann erlendar fyrirmyndir af ATU 706/706C að einhverju marki eða vann hann alfarið úr íslenskum munnmælasögum og jafnvel íslenskum miðaldabókmenntum? Er sá möguleiki fyrir hendi að Ólandssaga hafi mótað yngri íslensk tilbrigði af ATU 706/706C?

11.45 Aðalheiður Guðmundsdóttir: Um heima og geima í Ólafs sögu Þórhallasonar

Á ferðalagi sínu umgengst Ólafur Þórhallason fjölda fólks, bæði mennska menn og álfa. Söguheimurinn er í senn sérstæður og hefðbundinn, og í raun er um að ræða ímyndaðan heim sem er þó að sama skapi kunnuglegur, því að allar helstu efniseiningarnar eru sóttar í innlenda sagnahefð, bæði þjóðsögur og bókmenntir fyrri alda. Innan hins breiða söguramma sem snýr að ferðalögum Ólafs kemur höfundur að mörgum sagnaeiningum þannig að til verða þættir innan þátta, þræðir innan þráða og jafnvel útúrdúrar innan útúrdúra. Í fyrirlestrinum mun ég taka fyrir einn þátt úr sögu Ólafs, en uppistöður hans eru kaflar 11–19 undir öðrum kvöldvökulestri. Í þættinum segir frá Sveini og bræðrum hans sem hafa búið á hálendinu frá því að foreldrar þeirra lögðust út vegna sakamáls. Við sögu koma einnig tólf bræður, útilegumenn, sem urðu fyrir álögum og kemur það í hlut Sveins að leysa þá úr ánauð.

12.15 Matarhlé
 

Málstofa 3: Formtilraunir og framhaldslíf verka Laxdals
 

13.30 María Anna Þorsteinsdóttir: Leitin að réttu formi: Af Hermóðsrímum og Ingibjargarrímum alvænu og sama efni Ólandssögu

Eftir Eirík Laxdal liggja sex rímur í handritum. Fernar þeirra fjalla um efni sem tengist riddara- og fornaldarsögum, en tvennar greina frá ævintýrum sem einnig segir af í Ólandssögu, fyrri skáldsögu höfundarins. Í handriti segir að rímurnar séu ortar annars vegar 1777 og hins vegar 1778. Ritunartími Ólandssögu hefur verið miðaður við að rímurnar séu ortar eftir skáldsögunni (E.Ó.S. Um íslenzkar þjóðsögur, 1940) eins og algengast var í rímnaskáldskap Íslendinga. Líkt og í Sögu Ólafs Þórhallasonar síðari skáldsögu Eiríks, sem kölluð hefur verið álfasagan mikla, er efniviður Ólandssögu sóttur að mestu til íslenskra þjóðsagna og þá íslenskra ævintýra. Hliðstæður við ævintýri Ólandssögu má finna í útgefnum þjóðsagnasöfnum og sum ævintýrin birtast oftar en einu sinni í skáldsögunni. Bygging Ólandssögu er ekki eins nútímaleg og í Ólafssögu, heldur líkist hún svokölluðum þáttasögum fyrri tíma. Ævintýrin eru fléttuð saman með ýmsum hætti í tíma og rúmi og persónurnar flækjast um í annarra manna sögum, ef svo má segja. Markmiðið virðist vera að skrifa samfelldan texta um ættarsögu Ólandskonungs og Helgu drottningar hans þar sem lesa má hugmyndir Eiríks um hið nýja þjóðskipulag Evrópu 18. aldar, hið svokallaða upplýsta einveldi. Íslenskur rímnaskáldskapur verður seint kallaður frumlegur hvorki hvað varðar efni né form og í 500 ár fólst frumleikinn helst í að skapa nýjar kenningar og bragarhætti. Eiríkur er afar frumlegur í báðum skáldsögum sínum svo að líkja má við ósvífni gagnvart hugmyndum samtímamanna hans um hvað eina er viðkom vísindum og sálfræðilegu innsæi. Athygli vekur að eitt helsta einkenni ævintýra, sem eru álög og hamskipti persóna, skýrir Eiríkur út frá persónulegum einkennum líkt og nútíma sálfræðingar gera og það sem þjóðtrúin kallaði galdra á fyrri tímum skýrir hann með nýjustu tækni í vélfræði. Er Eiríkur jafnróttækur í rímnaskáldskapnum og Ólandssögu þegar hann skrifar um sama efni? Um það fjallar þessi fyrirlestur.

14.00 Katelin Marit Parson: Gáðu að því að Gvendur hér ei gelur kvæði: Kortlagning áhrifavalda í rímnakveðskap Eiríks Laxdals

Af varðveislu rímna Eiríks Laxdals má ætla að rímnakveðskapur hans hafi notið meiri vinsælda á hans dögum en prósasögur hans. Enginn rímnaflokkur eftir Eirík kom út á prenti enda andstaða menntamanna gagnvart útgáfu rímna undir lok 18. aldar og við byrjun þeirrar 19. mikil. Rímur dreifðust nær eingöngu í handritum á tímabilinu 1780–1830. Rímur voru þó ortar til flutnings og mikilvægt er að hafa í huga að rímnahandrit fyrri alda voru ekki ætluð til lesturs í hljóði heldur var hlutverk þeirra fyrst og fremst það að gera kvæðamanninum kleift að flytja rímurnar.
Í þessum fyrirlestri er mansöngur úr Norna-Gests rímum (1793) Eiríks Laxdals í brennidepli en þar dregur hann athygli að því hverjir flytja ekki rímurnar, t.d. Þórður á Strjúgi og Árni Böðvarsson. Mansöngvar rímna hafa lengi verið vettvangur fyrir tjáningu skáldsins þar sem leyfilegt var að ávarpa áheyrendur beint og leyfa þeim að skyggnast inn í heim skáldsins og innra líf þess sem orti. Einnig gátu mansöngvar verið vettvangur skáldsins til að sýna lipurleika sinn í meðferð bragarhátta. Saman mynda þeir ákveðinn ramma utan um meginfrásögn rímnaflokksins sem er yfirleitt mun línulegri í eðli sínu. Samspil mansöngva og meginfrásagnar er breytilegt eftir rímnaflokknum en í mansöngvum er ekki eingöngu fjallað um ástarsorgir og ellikvilla. Mansöngurinn gat m.a. verið rými fyrir skáldið til þess að staðsetja sig innan rímnahefðarinnar eins og Eiríkur Laxdal gerir í Norna-Gests rímum. Rýnt verður í þessa bókmenntaumfjöllun Eiríks og spurt hvað hún getur sagt okkur um áhrifavalda í rímnakveðskap hans.

15.00 Kaffihlé

 

15.30 Madita Knöpfle: The materiality of storytelling: Eiríkur Laxdal's sagas in manuscript and print

This paper delves into the manuscripts of Eiríkur Laxdal’s Ólandssaga and Ólafs saga Þórhallasonar, examining the visual presentation of the stories. Drawing from narrative theory (i.e., Wolf Schmid) and media philosophy (i.e., Sybille Krämer) with consideration of New Philology, I discuss the correlation of narrativity and the materiality of writing. Through an analysis of Laxdal’s manuscripts, I show that so-called paratextual elements such as chapter headings or different types of scripts contribute to the formation of meaning. The findings suggest that in order to gain a deeper understanding of Laxdal's works, narratological research benefits from taking the manuscripts into consideration, using the prints only as an aid and not as objects of research. In this way, historical narrative theory finally puts the demands of New Philology into practice.

Lokaávarp

16.00 Sjón: Af álfum var þar nóg. Samtal nýsúrrealista við neðanjarðarbókmenntir Eiríks Laxdals.