Skip to main content

Ný útgáfa: Codex Regius of the Poetic Edda. Konungsbók eddukvæða - GKS 2365 4to

Konungsbók eddukvæða er elsta og merkasta safn eddukvæða sem varðveist hefur og frægust allra íslenskra bóka. Hún er talin skrifuð um 1270. Í fyrra hluta bókarinnar eru kvæði um heiðin goð, en í síðara hlutanum kvæði um fornar germanskar hetjur. Mörg kvæðanna eru ekki varðveitt í neinum öðrum miðaldaheimildum. Um uppruna bókarinnar og feril að öðru leyti er ekkert vitað fyrr en Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup letraði á hana einkennisstafi sína og ártalið 1643. Þá voru týnd úr henni 8 blöð. Konungsbók er án efa merkasta handrit í eigu Íslendinga.

Í þessari bók er staftáknrétt (diplómatísk) útgáfa Konungsbókar en að auki fylgja þrjár ritgerðir: Vésteinn Ólason skrifar um sögu Konungsbókar („The Codex Regius — A Book and Its History“), Drífa Kristín Þrastardóttir skrifar grein um bókina sjálfa og gerð hennar („The Making of the Codex Regius“) og Guðvarður Már Gunnlaugsson gerir grein fyrir rittáknum („Palaeography“). Útgáfan er reist á rafrænum gagnabanka með XML-merktum texta og lemmuðum orðstöðulykli með málfræðilegri greiningu hverrar orðmyndar. Þetta efni á allt að verða aðgengilegt fljótlega á þessu ári sem 3. bindi  Editiones Arnamagnæanæ, Series Electronicæ, sem gefið verður út af Stofnunum Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn og Reykjavík. Haraldur Bernharðsson vann að gagnabankanum og orðstöðulyklinum og ritstýrði þeim þætti.

Ritstjórar bókarinnar eru Guðvarður Már Gunnlaugsson, Haraldur Bernharðsson og Vésteinn Ólason. Árnastofnun gefur hana út í samvinnu við Mál og menningu sem annast sölu og dreifingu.