Skip to main content

Nánar um erindin

Laugardaginn 30. apríl 2022, kl. 13:00-16:30

Málþing um kynhlutlaust mál

Veröld – hús Vigdísar

 

Undanfarin ár hefur skapast mikil umræða í íslensku samfélagi um kyn og hvernig félagslegar hugmyndir um kyn endurspeglast í íslensku máli, ekki síst frá málfræðilegu sjónarhorni. Þá hafa einnig orðið breytingar og tilbrigðum hefur fjölgað í notkun málfræðilegs kyns í máli fólks en æ fleiri málhafar reyna nú að færa mál sitt meira í átt til kynhlutlausara máls á einn eða annan hátt. Þessi þróun er að mestu leyti sprottin úr grasrótinni, enda tengist hún réttindabaráttu m.a. kvenna og jaðarsettra hópa, en í umræðu dagsins í dag birtast alls konar sjónarmið hinna ýmsu samfélagslegu hópa um efnið. Innan fræðasamfélagsins er einnig fjallað um kynhlutlaust mál frá ólíkum sjónarmiðum en sú fjölbreytilega umfjöllun hefur ekki endilega skilað sér til almennings eða út í samfélagsumræðuna. Hópur málfræðinga við Háskóla Íslands, sem er í þann mund að stofna Rannsóknastofu um félagsmálvísindi, og Íslensk málnefnd tóku höndum saman í byrjun ársins 2022, með það markmið að opna fræðilega umræðu um kynhlutlaust mál fyrir almenningi. Fyrsta skrefið í átt að þessu markmiði er að halda málþing um kynhlutlaust mál þann 30. apríl 2022 þar sem boðsfyrirlesarar úr íslensku fræðasamfélagi kynna rannsóknir sínar og miðla þekkingu sinni um efnið frá ólíkum sjónarhornum.

 

Fyrirlesarar

Anton Karl Ingason – Hefð, jafnrétti og blandaðar sjálfsmyndir

Finnur Ágúst Ingimundarson – Mál og kyn í ljósi sögu og samtíma

Guðrún Þórhallsdóttir – Hvað er kynhlutleysi? Sjónarmið, röksemdir, hugtök og heiti

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir – „Að berja niður venjulegt málfar meirihlutans í pólitískum tilgangi“

Höskuldur Þráinsson – Hvað eru kynin mörg?

Þorbjörg Þorvaldsdóttir – Merking, málfræði og mannréttindi

 

Fundarstjóri er Eiríkur Rögnvaldsson sem jafnframt opnar málþingið.

 

Málþingið er öllum opið.

 

Í undirbúningsnefnd málþingsins sitja Anna Sigríður Þráinsdóttir, Eva María Jónsdóttir, Heimir F. Viðarsson og Ingunn Hreinberg Indriðadóttir.

 

Nánari upplýsingar:

https://arnastofnun.is/is/vidburdir/malthing-um-kynhlutlaust-mal

 

 

Anton Karl Ingason

Hefð, jafnrétti og blandaðar sjálfsmyndir

 

Í umræðu um kynhlutlaust mál takast stundum á ólík sjónarmið og við fyrstu sýn kann að virðast sem fólk skiptist í andstæðar fylkingar. Sum halda á lofti jafnréttisjónarmiðum og hvetja til þess að vikið sé frá eldri málhefð (og jafnvel málkerfi) í þágu jafnréttissjónarmiða. Slík jafnréttispólitík tengist sterkum tilfinningum. Önnur leggja áherslu á virðingu fyrir málhefð, samhengi málsögunnar og tilfinningar sem tengjast því máli sem þau hafa umgengist allt sitt líf. Þessar tilfinningar eru líka sterkar. Bæði þær jafnréttistilfinningar sem um ræðir og tilfinningar til móðurmálsins eru tengdar sjálfsmynd þeirra sem taka þátt í umræðunni og þátttaka í umræðunni er sjálfsmyndarskapandi vegna þess að fólk notar skoðanaskiptin til að móta sína eigin persónu og staðsetja sig gagnvart samfélaginu. Ég ræði þá staðreynd að það er alvanalegt að láta sig varða bæði jafnréttisjónarmið og eigið móðurmál og að þetta skiptir máli þegar við römmum inn umræðuna um kynhlutlaust mál.

 

 

Finnur Ágúst Ingimundarson

Mál og kyn í ljósi sögu og samtíma

 

Þrískipting kynjakerfis íslensku, í karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn, á rætur að rekja allt aftur til hinnar indóevrópsku frumtungu (um 3500 f.Kr.). Þar er jafnframt að finna ástæðu þess að karlkyn gegnir samkynshlutverki í íslensku og öðrum indóevrópskum málum. Það birtist okkur með ýmsum hætti í málinu, t.d. í setningum á borð við Sá sem flöskustútur lendir á eða Að vera glaður… og nafnorðum líkt og gestur, vinur, áheyrandi.        


Í frumtungu germanskra mála varð róttæk breyting á þessu kerfi sem fólst í því að tekið var að nota hvorugkyn um kynjablandaða hópa í sértækri merkingu. Dótturmál germönsku kvíslarinnar hafa síðan þróast á ólíkan veg en málkerfi flestra einfaldast til muna og eru íslenska og færeyska nú einar um að varðveita leifar þessar samgermönsku breytingar. Um aldir hefur verkaskiptingin í íslensku máli verið skýr: Karlkyn hefur gegnt almennu samkynshlutverki í málinu og hvorugkyn verið notað í sértækri merkingu (sbr. Allir velkomnir og Verið þið öll velkomin), en nú hafa komið fram hugmyndir sem miða að því að hvorugkyn taki við kynhlutlausu hlutverki karlkyns.

 

Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir þessari sögulegu hlið og að lokum lagt út af henni í hugleiðingum um það sem nú er á seyði í málinu.

 

 

Guðrún Þórhallsdóttir

Hvað er kynhlutleysi? Sjónarmið, röksemdir, hugtök og heiti

 

Þegar tekist er á um málfarsnýjungar sem boðaðar eru af jafnréttisástæðum er beitt ólíkum röksemdum, sem ég hef kallað hefðarrök, tilvísunarrök, tengslarök og tilfinningarök í fyrirlestrum, kennslu og skrifum á liðnum árum. Þótt röksemdirnar séu þannig margs konar er afstaðan til hins svokallaða „kynhlutlausa málfars“ eða „máls beggja/allra kynja“ þó iðulega sett þannig fram að um tvennt sé að ræða: að vera með eða á móti. Það gefur engan veginn fullnægjandi mynd af ólíkum sjónarmiðum eins og til dæmis kom fram í einum af málfarspistlum Eiríks Rögnvaldssonar („Fimm sjónarmið um kynjahalla í tungumálinu“, 3.8. 2021, https://uni.hi.is/eirikur/).

 

Í þessum fyrirlestri er ætlunin að ræða um sjónarmið, röksemdir og nokkur hugtök og heiti sem fram hafa komið í umræðum um jafnréttismálfarið. Sérstaklega verður fjallað um fyrirbærið kynhlutleysi í tungumáli og hvenær sé við hæfi að nota orðið kynhlutlaus.

 

 

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir

„Að berja niður venjulegt málfar meirihlutans í pólitískum tilgangi“

 

Í erindinu er ætlunin að greina helstu tilraunir kvenna og femínista á nýliðnum árum til að færa málnotkun sína í átt að kynhlutleysi. Þá verður farið yfir helstu gagnrýnispunkta sem fram hafa komið og þá miklu skautun í umræðunni sem verður vart við þegar rætt er um kynhlutlausara málfar eða málnotkun. Viðtökurnar verða settar í samhengi við viðbrögð við öðrum tilraunum femínista til að beygja samfélagið í jafnréttisátt. Þannig verður reynt að sýna fram á að það gildir það sama um tilraunir til að breyta málnotkun og öðrum þáttum samfélagsins; þær mæta mótstöðu vegna þess að þær ógna ríkjandi valdakerfi sem er til marks um hversu mikilvægt og sterkt valdatæki tungumálið er.

 

 

Höskuldur Þráinsson

Hvað eru kynin mörg?

 

Þegar rætt er um málfræðiformdeildina kyn í íslensku er oftast gerður greinarmunur á málfræðilegu kyni og merkingarlegu (líka kallað eðliskynraunkynlíffræðilegt kyn og fleira). Greinarmunurinn er oft skýrður með því að taka dæmi af nafnorðum eins og fressskáldhetjanemandi o.s.frv. og virðist auðskilinn. Málið vandast samt nokkuð þegar um er að ræða orð sem taka kynbeygingu, þ.e. lýsingarorð, lýsingarhátt þátíðar, fornöfn af ýmsu tagi og töluorð. Í þessum fyrirlestri verður því haldið fram að verkaskiptingu kynjanna megi að langmestu leyti skýra með því að gera greinarmun á þrenns konar kyni sem mætti lýsa á þessa leið: 

  • samræmiskyn kemur fram þegar kynbeygða orðið þiggur kyn sitt af tilteknu nafnorði (tilteknum nafnorðum) sem það stendur með eða á við 
  • vísandi kyn kemur fram þegar kynbeygða orðið lagar sig ekki að tilteknu orði heldur að kyni tiltekins einstaklings (tiltekinna einstaklinga) sem vísað er til 
  • sjálfgefið málfræðilegt kyn kemur fram þegar kynbeygða orðið stendur ekki með neinu tilteknu nafnorði eða á ekki við tiltekið nafnorð og vísar ekki til neins tiltekins einstaklings (tiltekinna einstaklinga) 

Þessum greinarmun verður lýst með völdum dæmum, m.a. dæmum sem hafa komið við sögu í umræðum um kynhlutlaust mál. 

 

 

Þorbjörg Þorvaldsdóttir

Merking, málfræði og mannréttindi

 

Þegar rætt er um málfræðilegt kyn og samræmi er mikilvægt að hafa í huga þau sterku tengsl sem formdeildin hefur við merkingu. Í þessu erindi verður fjallað um tvo merkingarkjarna málfræðilegs kyns í íslensku og hvernig samkeppni þeirra á milli hefur áhrif á upplifun fólks af merkingarlegu samræmi. Þá verður sagt frá ákalli hinsegin fólks um breytingar á málinu, hvernig þær breytingar líta út og hvað við sem málfræðingar getum gert til að stuðla að hinseginvænu málumhverfi.