Skip to main content

Íslenska við aldahvörf: Erlend máláhrif í lok 19. og 20. aldar

Rannsóknin beinist að erlendum máláhrifum, einkum aðkomuorðum, eins og þau birtast í blöðum og tímaritum frá árunum 1875 og 1900. Fyrirmyndin er sótt til eins þáttar verkefnisins Nýleg aðkomuorð í Norðurlandamálum þar sem sambærileg athugun var gerð á aðkomuorðum í dagblöðum frá 1975 og 2000. Hluti verkefnisins felst í því að bera saman niðurstöður þessara tveggja rannsókna. Efnisval úr 19. aldar máli er því haft eins sambærilegt 20. aldar efninu og kostur er og beitt er hliðstæðum aðferðum við úrvinnslu og greiningu.

Markmið rannsóknarinnar er að auka þekkingu á erlendum máláhrifum á síðari hluta 19. aldar, einkum á útbreiðslu og einkennum aðkomuorða, og að bera þau saman við sambærileg áhrif undir lok 20. aldar. Um leið er ætlunin að afla vitneskju og auka skilning á málbreytingum sem stafa af utanaðkomandi áhrifum og skoða samspil slíkra breytinga við ytri aðstæður í málsamfélaginu.

Um leið miðar verkefnið að því að afla og vinna úr efnivið frá 19. öld sem gæti orðið grundvöllur að frekari rannsóknum á máli og málnotkun á þeim tíma. Það er liður í því að koma upp rafrænu safni með 19. aldar textum við stofnunina.

Verkefnið hefur verið styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands (2010–2012). Það tengist verkefnunum Málbreytingar og tilbrigði í íslensku máli á 19. öld: tilurð opinbers málstaðals og Mál, málbreytingar og menningarleg sjálfsmynd auk þess sem samvinna er við ýmis verkefni á stofnuninni um gagnaöflun og úrvinnslu.

Glærur frá kynningu verkefnisins hjá Íslenska málfræðifélaginu í mars 2010 (pdf, 282k)

Verkefnisstjóri: Ásta Svavarsdóttir

Aðstoðarfólk: Hjördís Stefánsdóttir og Kristján Friðbjörn Sigurðsson