Alþingi samþykkti árið 2016 þingsályktun um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu og árið 2019 var Geimvísinda- og tækniskrifstofan stofnuð. Markmið hennar er að ýta undir þekkingar- og verðmætasköpun tengda þátttöku Íslands í geimvísindum. Á þeim stutta tíma sem skrifstofan hefur starfað hefur fjöldi vísindamanna notið stuðnings og þjónustu hennar.
Starf Geimvísinda- og tækniskrifstofunnar fer að mestu fram á ensku þar sem íslenskur orðaforði á þessu sviði er takmarkaður. Íslensk geimorð hefur helst verið að finna á Stjörnufræðivefnum, í tímaritinu Lifandi vísindi og einnig í Orðaskrá úr stjörnufræði frá 1996.
Til að efla stöðu íslensku á þessu sviði var ákveðið að gera átak og sótt var um styrk til Nýsköpunarsjóðs námsmanna til að fá starfsmann til að vinna við samantekt íðorðasafns og myndun nýrra íðorða fyrir íslensk geimvísindi og tækni. Hugrún Hanna Stefánsdóttir og Árni Þór Þorgeirsson voru ráðin í þetta verkefni og umsjónarmenn þess voru Atli Þór Fanndal hjá Geimvísinda- og tækniskrifstofunni og Ágústa Þorbergsdóttir hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Orðin kastbrautarskot og kastbrautargeimflaug eru dæmi um ný orð í geimvísindum en þau eru mynduð með liðnum kastbrautar- sem er íslenskt jafngildi fyrir enska lýsingarorðið suborbital. Með orðinu kastbrautar- er átt við feril loftfars sem nær ekki fullri sporbraut.
Íðorðasafnið í geimvísindum verður birt í Íðorðabankanum (idord.arnastofnun.is) og vonast er til að með því komist festa á íðorðin og þau komist í almenna notkun.
En hvers vegna geimurinn og hvers vegna núna? Umsvifin hafa aukist hratt. Ísland býður upp á kjöraðstæður til prófana í geimvísindum þökk sé óblíðri veðráttu, hraunhellum og þess hversu mikið hálendið líkist yfirborði Mars. Auknum umsvifum fylgir aukin umfjöllun og Íslendingar vilja geta rætt geimvísindi á eigin tungu en þá þurfa almenningur og fjölmiðlar að hafa íslensk orð til taks.
Förum með íslenskuna út í geiminn.