Samspilið milli hins heilaga og vanheilaga í handritum og prentuðum bókum á tveimur ólíkum tímabilum í íslenskri bókmenntasögu, sautjándu öld og nítjándu öld, er viðfangsefni þessa verkefnis. Á báðum tímaskeiðum var tilhneiging til að líta niður á það sem kallað var hjátrúarfullt og smekklaust og ýta þannig til hliðar ákveðnum tegundum kveðskapar og sagna og koma í veg fyrir útbreiðslu þeirra. Mörkin milli æskilegra og óæskilegra bókmennta færðust stöðugt til á því þriggja alda skeiði sem hér um ræðir. Í verkefninu verður skoðað hvernig bókmenntalegir textar hafa verið meðhöndlaðir á ákveðnum tímaskeiðum, þar á meðal hvernig reynt var með ýmsum aðferðum að halda hinum vanheilögu rímum niðri og hvernig sumir trúarlegir textar voru afhelgaðir vegna breyttra viðhorfa, einkum hjá þeim sem stjórnuðu prentverkinu á hverjum tíma.
Verkefnið beinist að íslenskum skáldum og bókmenntagreinum, annars vegar á sautjándu öld og hins vegar nítjándu öld, sem hafa verið stimpluð sem annaðhvort trúarleg eða veraldleg og farið verður í saumana á því að hve miklu leyti slíkir merkimiðar eiga rétt á sér. Í verkefninu verður fengist við fjölbreytta texta í bundnu og óbundnu máli og þannig er ætlunin að þróa rafrænan vettvang fyrir rannsóknir á síðari alda bókmenntum og sameina á einum stað trúarlega og veraldlega, heilaga og vanheilaga texta.
Katelin Parsons, nýdoktor frá Háskóla Íslands, mun ásamt Margréti Eggertsdóttur vinna að rannsóknum á handritum sem varðveita kveðskap Stefáns Ólafssonar (1618–1688) og Bjarna Gissurarsonar (1621–1712). Pétur Húni Björnsson mun vinna að doktorsritgerð sinni um Andra rímur og Andra sögur undir leiðsögn Aðalheiðar Guðmundsdóttur. Einnig er ætlunin að skoða sögurnar sem Hallgrímur Pétursson (1614–1674) byggði rímur sínar á. Seinna munu Lea Pokorny og Karl Óskar Ólafsson bætast í hópinn og vinna áfram að heildarútgáfu á verkum Hallgríms Péturssonar. Ætlunin er að endurskoða aðferðir við útgáfuna og gefa rímur Hallgríms og rit hans í lausu máli út í rafrænu formi. Einnig verður haldið málþing þar sem verkefnið verður kynnt og fræðimönnum á sama sviði boðin þátttaka. Verkefnið hlaut styrk til þriggja ára og er ætlunin að ljúka því með útgáfu greinasafns.