Skip to main content

Hið glataða Njáluhandrit Gullskinna: Varðveisla textans og viðtökur á síðari öldum

Markmið verkefnisins er að rannsaka varðveislusögu Njáluhandrita á síðari öldum. Nýlegar rannsóknir benda til þess að flest þeirra 45 pappírshandrita sögunnar sem skrifuð voru upp á 16.–19. öld séu runnin frá týndri skinnbók sem í einu handritanna er kölluð Gullskinna.

Undirstöðugögn verkefnisins eru uppskriftir texta handritanna samkvæmt TEI-XML-staðlinum sem notaðar eru til að takast á við tvo meginþætti verkefnisins: (1) Að búa til ættartré Gullskinnuhandritanna með tölvustuddri greiningu lesbrigða í handritunum og (2) að greina notkun nokkurra orðhluta- og setningarfræðilegra breytna hjá ólíkum skrifurum. Greiningin byggir á hálfsjálfvirkri orðhluta- og setningarfræðilegri mörkun og á samanburði breytna í samsvarandi textabútum.

Búast má við að skrifarar á 17. og 18. öld hafi lagað tungumálið í þeim textum sem þeir skrifuðu upp að sinni málnotkun en líka reynt að varðveita textann nokkurn veginn upprunalegan. Í verkefninu verða niðurstöður þessarar togstreitu rannsakaðar í mismunandi handritum og kannað hvaða áhrif þetta hefur á gildi síðari alda uppskrifta miðaldatexta sem málfræðilegra og bókmenntalegra heimilda.

Til viðbótar verða skrifarar síðari alda Njáluhandrita athugaðir sérstaklega í rannsókninni og sjónum einkum beint að tengslum tiltekinna handrita og skrifara, umhverfi, viðtökum og verkbeiðendum.

Verkefnisstjóri er Ludger Zeevaert en aðrir þátttakendur eru Margrét Eggertsdóttir, Svanhildur Óskarsdóttir og Alaric Hall (University of Leeds).

Verkefnið er styrkt af RANNÍS.