Skip to main content

Heimur í orðum: Sýning í mótun

Sýningin
Aðaláhersla þessarar sýningar verður að opna hinn lokaða heim handritanna og sýna fjölbreytt og ríkulegt innihald þeirra þar sem líf, dauði, tilfinningar og trú, völd og heiður koma við sögu. Fjallað verður um erlend áhrif á íslenska menningu á miðöldum og á íslenska tungu en einnig um áhrif íslenskra bókmennta erlendis. 

Að miklu leyti fjallar sýningin um sköpun, bæði sköpun heims og handrita og þá sísköpun sem býr í tungumálinu. Fjölbreytt miðlun er notuð til að koma efninu á framfæri, en fyrir utan að skoða handritin sjálf geta gestir sökkt sér ofan í texta og snertiskjái, horft á kvikmyndir, hlustað á upplestur af ýmsu tagi og brugðið á leik. 

Efnistök

Sýningunni verður skipt upp í nokkra kafla. Í hverjum kafla er ákveðnu efni gerð skil með vísun í innihald handritanna ásamt myndefni og gagnvirku fræðsluefni. Í fimm meginköflum verða nokkur handrit til sýnis sem tengjast efni kaflanna. Þessir fimm meginkaflar fjalla um sköpun heimsins, manninn, heimsmynd, lög og reglur og loks endalok heimsins.

Sköpun heimsins

Hvert er upphaf tímans? Hvar hefst saga heimsins?
Svar nútímans er að alheimurinn sé upprunninn í svokölluðum Miklahvelli. Á miðöldum réð sköpunarsaga Biblíunnar hugmyndum Íslendinga um uppruna alls, en þeir höfðu líka erft heiðnar goðsögur um sköpun heimsins.

Yst sem innst

Handritin lýsa fjölskrúðugum hugmyndum um líf og eðli manneskjunnar og samband hennar við æðri máttarvöld. Öll erum við gerð af holdi og blóði, við fæðumst og deyjum og finnum til. Skilningur okkar mótast hins vegar af tímunum sem við lifum á. 

Út og suður

Heimsmynd landnámsmanna birtist í goðafræðinni, forkristnum hugmyndum um skipan heimsins sem lifðu í sögum og kvæðum. Þar segir frá heimstrénu sem teygir sig um himin og jörð, frá nornunum sem spinna örlög manna og sjá inn í framtíðina, frá atburðum í heimi goðanna sem leiða af sér náttúrufyrirbæri eins og veðurfar og jarðskjálfta. 

Við vitum ekki hvenær fyrsta manneskjan steig niður fæti á Íslandi. Líklega kom fólk fyrst í styttri leiðangra og kannaði aðstæður. Skipulegt landnám hófst hins vegar eftir miðja 9. öld. 

Vér og þér

Fólkið sem nam land á Íslandi varðveitti menningu sína ekki á bók. Kvæði og sögur af mönnum og goðum, lög og reglur og hagnýt þekking – allt var þetta geymt í huga fólks og miðlað munnlega milli kynslóðanna. 

Eftir að ritmenning barst til landsins með kristnitökunni varð gjörbreyting. Starf kirkjunnar og lærdómur klerka byggðist á hinu ritaða orði. Smám saman tileinkuðu Íslendingar sér þessa nýju tækni og fóru að skrifa niður það sem áður hafði verið varðveitt munnlega. Í stað lifandi texta sem var kannski aldrei nákvæmlega eins í munnlegum flutningi kom texti sem var festur á bókfell í tiltekinni útgáfu. 

Endalok heimsins

Hugsanir um endalok heimsins leita á dauðlegar manneskjur. Á okkar dögum óttast mannkynið að ofhitnun geri jörðina óbyggilega. Í íslenskum miðaldatextum er því lýst hvernig heimurinn muni eyðast í eldi en síðan endurfæðast. 

 

Viðburðir
Viðburðir verða haldnir reglulega í tengslum við sýninguna, ekki síst þegar handritum er skipt út fyrir önnur. Það þarf að gera með vissu millibili því þau eru viðkvæm, einkum fyrir ljósi.