Íslensk stjórnvöld styðja nú kennslu í nútímaíslensku við fimmtán háskóla í Evrópulöndum, við Manitobaháskóla, Bejingháskóla erlendra tungumála og Wasedaháskóla í Tókýó. Árlegur fundur íslenskukennara, sem starfa við háskóla erlendis, verður haldinn við University College London og Cambridgeháskóla dagana 28. og 29. maí nk.
Alþjóðasvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur umsjón með kennslu í íslensku við erlenda háskóla af hálfu íslenskra stjórnvalda og skipuleggur fundinn í samráði við íslenskukennarana.
Á fundinum verður rætt um íslenskukennslu fyrir erlenda námsmenn við Háskóla Íslands og við erlenda háskóla og nýjar leiðir í tungumálakennslu, m.a. notkun kvikmynda við kennslu.
Áhugi á að læra íslensku sem annað mál og erlent mál fer stöðugt vaxandi. Nú nema á annað þúsund stúdentar íslensku við erlenda háskóla ár hvert, bæði þar sem íslensk stjórnvöld styðja kennsluna og annars staðar þar sem boðið er upp á kennslu í nútímaíslensku. Stöðugt fleiri nýta sér vefnámsefnið Icelandic Online, bæði hér á landi og erlendis. Nú eru um 16.000 skráðir notendur að vefnámskeiðinu og um 600 manns sækja það daglega. Jafnframt sækja æ fleiri erlendir stúdentar íslenskukennslu hingað til lands, bæði vetrarnám á vegum hugvísindasviðs Háskóla Íslands og sumarnámskeið á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sl. haust hófu 200 nýir nemar nám í íslensku sem öðru máli við Háskólann og á þessu sumri munu um 100 nemar taka þátt í íslenskunámskeiðum stofnunarinnar.
Kennsla í íslensku og íslenskum fræðum við erlenda háskóla er mikilvægur þáttur í kynningu á íslenskri menningu og til eflingar íslenskri tungu, eins og kom fram í þingsályktun sem alþingi samþykkti sl. vor undir heitinu Íslenska til alls. Þess vegna er eðlilegt að styðja þessa kennslu og auka, bæta starfsskilyrði og starfskjör kennaranna, efla kennsluefnisgerð og fjölga möguleikum til náms og námsstyrkjum.
Nú er m.a. unnið að því að búa til þrjú ný vefnámskeið í íslensku sem öðru máli. Styður Nordplusáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar það verkefni.