Skip to main content

Fréttir

Vinnu við íslensk-rússneska orðabók miðar vel


Ný orðabók á vefnum

Í sumar hefur verið unnið að því að gera íslensk-rússneska orðabók aðgengilega á vefnum. Orðabókin, sem samin er af Valéríj P. Bérkov með aðstoð Árna Böðvarssonar, kom út árið 1962 og er fyrir löngu orðin uppseld. Vinnan við að koma verkinu í gagnagrunnsform hófst sumarið 2016 eftir að styrkur til þess fékkst frá Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Verkefnið er unnið í samstarfi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Þórdís Úlfarsdóttir, orðabókarritstjóri hjá Árnastofnun, hefur umsjón með verkefninu, starfsmaður þess í sumar er Natalia V. Kovachkina, MA-nemi í þýðingarfræði við Háskóla Íslands. Ragnar Hafstað hefur annast forritun og tæknivinnu. Verkinu hefur miðað vel áfram og er þriðjungur orðabókarinnar, um 11.000 orð, nú kominn í gagnagrunninn. Sýnishorn af orðabókinni má sjá hér. 

Natalia hefur unnið að gerð íslensk-rússneskrar orðabókar í sumar.

 

Natalia V. Kovachkina hefur búið á Íslandi í um tvo áratugi. Hún segir að sumarvinnan í ár hafi verið mjög sérstök: „Ég hafði oft rekið mig á að það vantaði íslensk-rússneska orðabók þar sem sú sem kom út árið 1962 var eiginlega alveg ófáanleg. Ég hafði reyndar verið svo heppin að finna eitt eintak á fornsölu og við hana hef ég notast í starfi mínu á Tungumálamiðstöð HÍ. Og vinnan við íslensk-rússnesku orðabókina hefur verið mjög mikil en samt einhæf og róandi, eiginlega alger draumur í dós. Orðabók er eins og biblía fyrir útlending sem einnig er bókamanneskja eins og ég. Nú er ég að lesa þessa biblíu frá A-Ö og það er mjög góður tími. Það væri samt gagnlegt að halda áfram með verkefnið og bæta inn í orðabókina nýjum hugtökum sem komið hafa fram á undanförnum áratugum. „Barnabætur" er dæmi um slíkt orð."