Í lok september var fyrsti vinnufundur aðstandenda íslensk-franskrar orðabókar haldinn í Reykjavík. Verkefnið byggir á ISLEX-orðabókinni og er samstarfsverkefni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
Í tengslum við fundinn var haldið námskeið á orðfræðisviði Árnastofnunar fyrir þýðendur á frönsku þar sem verkefninu var formlega hleypt af stokkunum.
Verkefnisstjóri franska hluta orðabókarinnar er Rósa Elín Davíðsdóttir doktorsnemi og nýráðinn þýðandi er Jean-Christophe Salaün auk þess sem Francois Hennen, aðjúnkt við Háskóla Íslands, mun starfa að verkefninu.
Fyrir hönd orðfræðisviðs standa að verkefninu Halldóra Jónsdóttir, verkefnisstjóri og Þórdís Úlfarsdóttir, aðalritstjóri og kerfisstjóri.
Styrkir til verkefnisins hafa fengist frá frönskum stjórnvöldum og sjóðum og í tengslum við heimsókn Frakklandsforseta nú í október hét menntamálaráðherra Íslands að leggja fram mótframlag. Áætlað er að ljúka verkefninu á þremur árum og opna orðabókina í október 2018.
Í sambandi við þetta nýja verkefni hefur jafnframt verið veittur Erasmus-plús styrkur til þess að byggja upp námskeið um orðabókarfræði í samstarfi þriggja landa. Aðilar að námskeiðunum eru fyrrnefndar stofnanir á Íslandi auk Gautaborgarháskóla í Svíþjóð og Sorbonneháskóla í París. Fulltrúi Gautaborgarháskóla er Anna Helga Hannesdóttir, prófessor í sænsku, en fulltrúi Sorbonneháskóla er Karl Gadelii, prófessor við norrænu deildina þar.
Dagana 8. og 9. október var haldinn í Reykjavík fyrsti vinnufundur um Erasmus-plús samstarfsverkefnið. Verkefnisstjóri þess er Guðrún Kristinsdóttir hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
Frá vinstri: Halldóra Jónsdóttir verkefnisstjóri ISLEX, Ásdís Rósa Magnúsdóttir prófessor í frönsku við HÍ, Þórdís Úlfarsdóttir aðalritstjóri ISLEX, Karl Gadelii prófessor í norrænum málum við Sorbonne, Rósa Elín Davíðsdóttir doktorsnemi í frönsku við HÍ og Sorbonne og verkefnisstjóri íslensk-franskrar orðabókar, Jean-Christophe Salaün þýðandi og starfsmaður íslensk-franskrar orðabókar, Anna Helga Hannesdóttir prófessor í sænsku við Gautaborgarháskóla, Magnús Sigurðsson aðjúnkt í þýsku við HÍ, Erla Erlendsdóttir dósent í spænsku við HÍ, Guðrún Kristinsdóttir verkefnisstjóri við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum málum.