Skip to main content

Fréttir

Viðar Pálsson: Hugmyndafræðilegar rætur íslenska skólans


Laugardaginn 29.október 2011 kl.16 í Sögufélagshúsinu (Fischersundi 3) flytur Viðar Pálsson fyrirlesturinn "Einstaklingurinn og listaverkið: Hugmyndafræðilegar rætur íslenska skólans." Léttar veitingar og umræður að fyrirlestri loknum.

Einstaklingurinn, sköpunargáfan og listaverkið hlutu mikið rúm í söguskoðun „íslenska skólans“ um og fyrir miðja síðustu öld, og þóttust menn þar kenna kjarna fornnorrænnar menningar og frumforsendur helstu afreka hennar. Í fyrirlestrinum verða hugmyndafræðilegar rætur slíkrar túlkunar hins vegar raktar til mennta- og menningarstrauma á nítjándu öld—einkum innan hins þýskumælandi heims—fremur en til norrænnar fortíðar. Færð verða rök að því að merkisberar íslenska skólans, einkum Einar Ól. Sveinsson og Sigurður Nordal, endurómi grunnstef sem þegar um miðja nítjándu öld urðu áberandi í fræðilegri umræðu í Evrópu og sóttu mjög á rétt um það leyti sem Sturlungaöld og Íslenzk menning voru rituð, tvö öndvegisrit rannsóknarhefðarinnar. Þannig hafi alþjóðlegar og nútímalegar hugmyndir mótað skilning íslenska skólans á forníslenskri menningu og bókmenntum með afgerandi hætti.