Skip to main content

Fréttir

Vefsíða um lifandi hefðir á Íslandi

Hjá Stofnun Árna Magnússsonar í íslenskum fræðum er nú unnið að verkefni um óáþreifanlegan menningararf á Íslandi. Verkefnið er unnið í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneyti og tengist samningi UNESCO um varðveislu menningarerfða frá árinu 2003 sem öðlaðist gildi hér á landi árið 2006.

Hugtakið menningarerfðir hefur enn ekki náð almennri útbreiðslu en með því er átt við óáþreifanlegan menningararf, þ.e. siðvenjur, framsetningu, tjáningarform, þekkingu og færni sem samfélög eða hópar telja hluta af menningararfleifð sinni. Þessar erfðir birtast meðal annars í munnlegri hefð og tjáningu, sviðslistum, félagsvenjum, helgisiðum og hátíðahöldum, þekkingu og venjum sem tengjast náttúrunni og alheiminum sem og í hefðbundinni verkkunnáttu.

Til einföldunar má tala um hefðir og venjur, verkkunnáttu eða ýmiss konar iðkun þegar rætt er um óáþreifanlegan menningararf. Hefðir geta verið lifandi í samfélögum og hópum fólks en geta líka átt undir högg að sækja þannig að þær þarfnist sérstakrar athygli eða verndar. Almennt er þó álitið að hefðir séu best varðveittar með því að halda áfram að iðka þær án utanaðkomandi íhlutunar. Samkvæmt samningi UNESCO frá árinu 2003 hafa aðildarríki hans meðal annars skuldbundið sig til að stuðla að varðveislu og aukinni vitund um óáþreifanlegan menningararf.

Hefðir eru afar fjölbreyttar og geta átt rætur sínar í fortíðinni, verið miðlað mann fram af manni og þannig varðveist á milli kynslóða, eða verið nýtilkomnar. Sem dæmi um óáþreifanlegan menningararf er ýmislegt handverk eins og til dæmis þjóðbúningasaumur, vefnaður og meðhöndlun torfs. Lifandi hefðir eru einnig í venjum sem oft eru álitnar afar hversdagslegar og má meðal annars finna stað í prjónaskap, fluguhnýtingum, sundlaugarmenningu, matargerð, tónlistarflutningi o.fl.