Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkir nemendur til rannsóknar- og þróunarverkefna yfir sumartímann. Markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunn- og meistaranámi við háskóla til að sinna rannsóknar- og þróunarverkefnum.
Úthlutun fyrir sumarið 2025 var 18. mars og bárust í ár alls 293 umsóknir fyrir 444 háskólanema.
Tveir styrkir komu í hlut starfsmanna og verkefna á vegum Árnastofnunar:
Branislav Bédi hlaut styrk upp á 2.040.000 kr. fyrir verkefnið AI-driven word games for language learning.
Verkefnið snýst um að nota nýjustu gervigreindartækni til að búa til mismunandi orðaleiki fyrir nemendur sem eru að læra íslensku sem annað mál og japönsku sem erlent mál með íslenskum og enskum þýðingum. Sem dæmi má nefna krossgátur sem skapa gott tækifæri til að æfa sig í orðaforða á tilteknu kunnáttustigi samkvæmt Evrópska tungumálarammanum. Stefnt er á að hafa þessa stafrænu leiki aðgengilega ókeypis fyrir alla nemendur og kennara hér á landi. Tveir nemar við Háskóla Íslands munu vinna við þetta verkefni í sumar.
Katelin Marit Parsons hlaut styrk upp á 1.020.000 kr. fyrir verkefnið Handrit án landamæra.
Í haust verða liðin 150 ár frá stofnun Nýja-Íslands í Kanada. Sameiginlegur menningararfur Íslands og Kanada er í brennidepli í þessu verkefni sem snýst um hvernig treysta megi samstarf um handrit vesturfara í Kanada. Markmið verkefnisins er að byggja upp tengsl og samskipti milli stofnana, háskóla og félagasamtaka í Kanada og á Íslandi á sviði handritarannsókna.
Þórhildur Helga Hrafnsdóttir, meistaranemi í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands, mun vinna við þetta verkefni í sumar.