Skip to main content

Fréttir

Úthlutun úr Nýsköpunarsjóði námsmanna

​Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkir nemendur til rannsókna- og þróunarverkefna yfir sumartímann. Markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunn- og meistaranámi við háskóla til að sinna rannsókna- og þróunarverkefnum.

Úthlutun fyrir sumarið 2023 var 4. apríl og bárust í ár alls 472 umsóknir fyrir 726 háskólanema.

Fimm styrkir komu í hlut starfsmanna og verkefna á vegum Árnastofnunar:

 

Ágústa Þorbergsdóttir hlaut styrk upp á 3.060.000 kr. fyrir nýtt íðorðasafn fyrir gagnsæi gegn spillingu.

Verkefnið snýr að því að taka saman orð tengd spillingu, gagnsæi í viðskiptum og pólitík, siðareglum og góðri stjórnsýslu í skipulagt orðasafn sem verður aðgengilegt almenningi í Íðorðabanka Árnastofnunar. Verkefnið byggist m.a. á verkefni Alþjóðahreyfingar Transparency International, (CORRUPTIONARY A-Z), sem er hugtakaorðabók hreyfingarinnar fyrir almenning ásamt samtvinnun við úttektarvinnu ILP (International Lawyers Project) á lagaramma og stefnumótun Íslands í baráttu gegn spillingu.

 

Branislav Bédi hlaut styrki fyrir tvö verkefni. Annars vegar 1.020.000 kr. fyrir rafrænt námsefni í íslensku fyrir börn: Wiki-síða.

Verkefnið snýst um að búa til Wiki-síðu með ýtarlegum upplýsingum um ýmiss konar námsefni í íslensku sem öðru máli fyrir börn sem þegar finnst á mismunandi síðum veraldarvefsins. Með því að færa allt efnið þangað verður hægt að halda utan um innihaldið, styðja sjálfbærni í uppfærslu gagna og miðla upplýsingum um efnið tafarlaust til allra til lengri tíma. Wiki-síður eru auðveldar í viðhaldi og aðgengilegar án endurgjalds.

Hins vegar 2.040.000 kr. fyrir verkefni sem snýst um spurningasvörunina ChatGPT og námsefni fyrir íslensku sem annað mál.

Í þessu verkefni er lögð áhersla á að nota spurningasvörunina ChatGPT til þess að búa til fjölþætt námsefni fyrir bæði íslensku sem annað mál og íslenskt táknmál (ÍTM) til að styðja við lestrarfærni nemenda sem eru á byrjendastigi. Námsefnið verður vistað á veffanginu LARA og þannig aðgengilegt öllum án endurgjalds. Samstarfsaðilar í þessu verkefni eru Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra – SHH og Háskólinn í Genf.

 

Rósa Þorsteinsdóttir hlaut styrk upp á 1.020.000 kr. fyrir verkefnið: Stafrænt þjóðlagasafn séra Bjarna Þorsteinssonar.

Verkefnið felst í að útbúa stafræna endurgerð nótna yfir lög í þjóðlagasafni séra Bjarna Þorsteinssonar, Íslenzk þjóðlög, og gera lögin aðgengileg þannig að bæði megi hlusta á þau á Ísmús og nýta nóturnar til dæmis við tónlistarrannsóknir og -sköpun.

 

Vilhelmína Jónsdóttir hlaut styrk upp á 1.020.000 kr. fyrir verkefni um menningararfleifð innflytjenda.

Markmið með verkefninu er að safna upplýsingum um, skrásetja og gera menningararfleifð innflytjenda á Íslandi sýnilega. Skrásetningar verða birtar á yfirlitsskrá um óáþreifanlegan menningararf á Íslandi, lifandihefdir.is. Með verkefninu verður til þekking og upplýsingum safnað um menningararfleifð og lifandi hefðir fólks sem hefur fest rætur á Íslandi, henni miðlað og hún gerð sýnileg.

Sjá nánar um sjóðinn og úthlutanir á vef Rannís.