Á fæðingardegi dr. Sigurðar Nordals 14. september gengst stofnunin fyrir svokölluðum Sigurðar Nordals fyrirlestri. Fyrirlesari að þessu sinni var Finnur Ulf Dellsén, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands og gistiprófessor (professor II) við Høgskolen i Innlandet í Noregi. Rannsóknir Finns hafa að mestu leyti snúist um hvernig við öðlumst skilning og þekkingu á heiminum, sérstaklega í vísindum og með hjálp þeirra. Þessar rannsóknir falla undir vísindaheimspeki og þekkingarfræði en Finnur hefur einnig fengist umtalsvert við heimspekilega rökfræði sem og önnur svið heimspekinnar, svo sem siðspeki og heimspekisögu. Árið 2019 hlaut Finnur bæði hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs og Nils Klim-verðlaunin sem veitt eru ungum norrænum fræðimanni fyrir framúrskarandi rannsóknir á sviði hugvísinda, félagsvísinda, lögfræði og guðfræði.
Fyrir hverja eru fræðin?
Erindi Finns nefnist Fyrir hverja eru fræðin. Hann lýsir því svo: „Flest getum …Flest getum við verið sammála um að fræðin og vísindin séu ekki bara til fyrir fólkið sem leggur stund á þau heldur fyrir allan almenning líka. Fræðin eru fyrir okkur öll. En hvað felst í þessari hugmynd? Í þessum fyrirlestri ætla ég einkum að velta tveimur hliðum hennar fyrir mér. Annars vegar ætla ég að leitast við að svara því á hvaða heimspekilega grunni hægt sé að halda fram þessari hugmynd: Hvers vegna ættu fræðin að vera fyrir okkur öll? Hins vegar ætla ég að velta fyrir mér hvaða afleiðingar það hefur fyrir fræðin sjálf ef fallist er á þessa hugmynd: Hvernig yrðu fræði sem eru fyrir okkur öll?"