Fjölmargir nemendur lögðu stund á nám á vegum Stofnunar Árna Magnussonar í íslenskum fræðum í sumar. Áður en ágúst var hálfnaður höfðu vel á annað hundrað nemendur frá 40 löndum lokið námi í íslensku eða handritafræðum, sumir jafnvel úr hvoru tveggja.
Júní:
Í júní tóku 29 nemendur frá Norðurlöndunum – 9 frá Noregi og Svíþjóð, 3 frá Danmörku og 8 frá Finnlandi – þátt í fjögurra vikna námskeiði í íslensku máli og menningu á vegum Nordkurs-samstarfsins. Íslenskukennarar voru dr. Reynir Þór Eggertsson og Sólveig Brynja Grétarsdóttir, M.Paed. Auk 60 íslenskutíma hlýddu nemendurnir á fyrirlestra m.a. um íslenska sögu og menningu, bókmenntir, tónlist og jarðfræði, heimsóttu söfn og fóru í ferðir á söguslóðir.
Að auki var var tveggja vikna námskeið í íslensku og íslenskri menningu haldið við Háskóla Íslands í júní. Það námskeið sátu 16 norður–amerísk ungmenni, flest af íslenskum ættum, sem voru hér á vegum svonefnds Snorraverkefnis. Kennari var Sigríður Kristinsdóttir en auk íslenskukennslunnar fengu nemendurnir fyrirlestra m.a. um íslenska sögu og menningu og heimsóttu ýmiss söfn og stofnanir.
Júlí:
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og hugvísindasvið Háskóla Íslands gengust fyrir fjögurra vikna alþjóðlegu námskeiði í íslensku máli og menningu í júlí líkt og undanfarin ár. Alls var kennt í 80 stundir á námskeiðinu, 70 stundir íslenskt mál og 10 stundir saga og samfélag, bókmenntir og listir. Þátttakendur voru 42 frá 15 löndum, flestir frá Bandaríkjunum, Þýskalandi og Bretlandi. Nemendunum var skipt upp í þrjá hópa í íslenskunáminu eftir kunnáttu en allir þátttakendur þurfa að sýna fram á að þeir hafi að minnsta kosti lokið vefnámskeiðinu Icelandic Online I eða hafi íslenskukunnáttu sem því nemur (A1). Þurfa umsækjendur að taka stöðupróf til að umsókn þeirra á námskeiðið sé gild en mun færri komast að en vilja og aðeins hluti þeirra sem skila mjög góðu prófi komast að.
Kennarar í ár voru Ásdís Helga Jóhannesdóttir, BA í íslensku, Jón Símon Markússon, M.A., og Sigríður Kristinsdóttir, M.A. Eins og í námskeiðunum í júní héldu Úlfar Bragason rannsóknarprófessor og Guðrún Laufey Guðmundsdóttir verkefnisstjóri á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fyrirlestra um íslenska sögu, bókmenntir og menningu en auk þeirra héldu gestafyrirlesarar erindi um jarðfræði og samfélag og rithöfundur kom í heimsókn. Auk þessa heimsóttu nemendurnir söfn og stofnanir, meðal annars Alþingi þar sem Ögmundur Jónasson alþingismaður ræddi við hópinn. Einnig var farið var í ferð um höfuðborgarsvæðið sem og í tvær dagsferðir á söguslóðir.
Ágúst:
Eina viku í ágústmánuði var boðið uppá sumarskóla í handritafræðum á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Den Arnamagnæanske samling í Kaupmannahöfn og Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns. Var þetta í þrettánda sinn sem slíkt námskeið var haldið en þau eru að jafnaði haldin til skiptis í Reykjavík og Kaupmannahöfn.
Í ár voru nemendur 62 talsins af 21 einu þjóðerni, þar af komu flestir frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi. Nemendahópnum var skipt í þrennt; í byrjendahóp, hóp fyrir lengra komna og loks í vinnustofu fyrir reyndustu nemendurna, svokallaðan master class.
Skólastjóri að þessu sinni var Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor á Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hún segir að í handritaskólanum myndist oft góð og varanleg tengsl milli nemenda og kennara. Fyrrum nemendur skólans sem byrja í doktorsnámi í fræðunum verða til að mynda gjarnan kennarar við sumarskólann eða aðstoða við framkvæmdina síðar. Einnig eru dæmi um að samstarf hafi tekist á milli fólks sem kynnst hefur í master class. Þannig hafa tveir slíkir hópar, að hluta eða í heild, sent frá sér greinar eftir rannsóknir í sumarskólanum. Sú fyrri birtist í Griplu árið 2014 og nefnist: An Icelandic Christmas Hymn. Hljómi raustin barna best. Seinni greinin kemur í Opusculu 2016 og fjallar um Gnýs ævintýri.