Tvö verkefni tengd Árnastofnun hafa hlotið styrk úr Sagnfræðisjóði Aðalgeirs Kristjánssonar en þetta er í fyrsta skipti sem úthlutað er úr sjóðnum. Styrkhafar eru Úlfar Bragason rannsóknarprófessor emerítus, Trausti Dagsson, verkefnisstjóri í upplýsingatækni, og Rósa Þorsteinsdóttir rannsóknardósent. Heildarupphæð styrkja nemur tveimur milljónum króna.
Markmið sjóðsins er að rannsaka hina sérstöku alþýðumenningu í Þingeyjarsýslu sem þar varð til á síðari hluta nítjándu aldar og upphafi þeirrar tuttugustu, rætur hennar, einkenni, vöxt hennar og viðgang.
Úlfar Bragason hlaut styrk til útgáfu bókarinnar „Ingunn Sigurjónsdóttir: Ykkar einlæg. Bréf frá berklahælum“. Úlfar hefur safnað saman bréfum Ingunnar Sigurjónsdóttur, sem hún skrifaði á berklahælum, skýrt þau, ritað inngang að þeim og búið til prentunar. Bókin kemur út hjá Háskólaútgáfunni. Fyrirhugaður útgáfudagur er 24. nóvember nk. þegar 118 ár verða liðin frá fæðingu Ingunnar.
Ingunn Sigurjónsdóttir var fædd 1906 á Einarsstöðum í Reykjadal en ólst upp frá 1913 á Litlulaugum í sömu sveit. Líklega smitaðist hún af berklum sem barn. Hún var fyrst send á Sjúkrahúsið á Akureyri í vetrarbyrjun 1924, var þá greind með berkla og hafin meðferð á sjúkdómi hennar. Hún fór suður á Vífilsstaðahæli vorið 1926 og flutti svo inn á Kristneshæli í nóvember 1927 þegar hælið hafði verið tekið í notkun. Ingunn lést þar 20. maí 1931. Á meðan á dvöl Ingunnar stóð á sjúkrahúsinu og hælum skrifaðist hún á við foreldra og systkini. Bréfin lýsa lífinu á sjúkrastofnunum, lækningaaðferðum, andlegu ástandi berklasjúklings, löngunum og þrám, en einnig þroskakostum ungrar konu sem bundin er á heilsuhælum.
Trausti Dagsson og Rósa Þorsteinsdóttir hutu styrk til undirbúnings og útgáfu bókarinnar „Þjóðsögur Baldvins Jónatanssonar“.
Baldvin Jónatansson (1860–1944) var fæddur á Bergstöðum í Aðaldal og bjó á ýmsum stöðum í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann var þekktur fyrir hagmælsku sína og vísur en einnig fyrir að safna þjóðsögum. Handrit hans er varðveitt á Héraðsskjalasafni Þingeyinga á Húsavík og inniheldur 13 hefti með þjóðsögum, ævintýrum og þjóðlegum fróðleik frá árunum 1906–1910 og vetrinum 1932–1933. Sumar sögurnar er að finna í útgefnum þjóðsagnasöfnum eins og Grímu og Sagnablöðum Arnars á Steðja en í handritunum leynist enn margt sem aldrei hefur verið gefið út. Verkefnið miðar að því að gefa út þjóðsagnasafn hans í heild sinni, skrá sögurnar í Sagnagrunn og rannsaka ævi Baldvins og sagnamenningu Suður-Þingeyinga.