Út eru komnar tvær bækur eftir Annette Lassen, rannsóknardósent við Árnastofnun. Rannsóknir hennar hafa einkum verið á sviði norrænna fornbókmennta og goðafræði, aðallega fornaldarsagna og ritstýrði hún danskri þýðingu á þeim. Auk þess ritstýrði hún danskri útgáfu Íslendingasagna og -þátta, sem var þjóðargjöf Íslendinga til Dana árið 2017, og þýddi einnig nokkrar sagnanna í útgáfunni.
Odin‘s Ways: A Guide to the Pagan God in Medieval Literature. Routledge 2021.
Bókin fjallar um guðinn Óðin eins og hann kemur fyrir í öllum forníslenskum bókmenntatextum, þar á meðal eddukvæðum, Snorra-Eddu og Ynglinga sögu, en einnig í Danasögu eftir Saxo Grammaticus. Oft er lögð á það áhersla í fræðilegum umfjöllunum um Óðin að hann sé flókin og torskilin vera í guðaheimi norrænna manna. Í bókinni er sýnt fram á að þessi fjölbreytni Óðins endurspegli í raun margvísleg bókmenntaleg markmið þeirra mörgu íslensku skálda og rithöfunda sem skrifuðu um hann á kristnum miðöldum þegar fátt er vitað með vissu um hlutverk Óðins í heiðnum sið. Sá guð sem við þekkjum af bókmenntunum mótaðist einkum á kristnu bókfelli.
Oldtidssagaernes verden. Gyldendal 2021.
Í sagnaflokknum fornaldarsögur Norðurlanda settu íslenskir sagnaritarar á blað hugmyndir sínar um ævintýralegt og ofbeldisfullt líf víkinga og fornkonunga í Norðurálfu. Það er frá þessum óþekktu listamönnum sem við höfum söguna af Ragnari loðbrók, Hrólfi kraka og skáldinu og stríðsmanninum Starkaði. Enn fornari en þeir eru söguhetjur á borð við Sigurð Fáfnisbana og skjaldmeyjuna Brynhildi. Fornaldarsögur fjalla gjarnan um uppreisnarmenn af báðum kynjum en persónur á borð við bændur og búkonur er þar sjaldnast að finna heldur konunga og hirðmeyjar, drottningar og dreka, já, guði, tröll, jötna, risa, dverga, skjaldmeyjar, meykonunga, berserki, seiðmenn og -konur, víkinga og völvur. Sögurnar eiga að gerast í grárri forneskju þegar guðirnir blönduðu enn geði við mennina og hetjur voru risavaxnar og sterkar í samræmi við stærð. Karlmenni í fornaldarsögum eru stundum svo karlmannleg að vilja helst komast af án kvenna.
Þrátt fyrir ævintýralegt yfirbragð hafa þessar sögur allt frá miðöldum gegnt mikilvægu hlutverki fyrir þekkingu okkar á fornöld Norðurlanda. Það leynast nefnilega í þeim minni frá forsögulegum tíma, til að mynda nöfn og staðfræði, svo einatt er erfitt er að útiloka að forn sannleikur geti legið að baki. Danir, Svíar og Norðmenn hafa að minnsta kosti í gegnum aldirnar sótt til þeirra hugmyndir sínar um eigin forsögu. Fornaldarsögurnar eru því í einhverjum skilningi heimildir um elstu tíð í Norðurálfu og jafnframt stórkostlegar heimsbókmenntir sem heillað hafa fjölda listamanna. Wagner byggði á þeim í Niflungahringinn og Tolkien notaði þær í Hringadróttinssögu sína, svo ekki sé minnst á vinsælt sjónvarpsefni eins og Vikings og Game of Thrones, upplífgandi fantasíur fyrir úrvinda nútímafólk eftir vinnu, kryddaðar persónum, gripum, frásagnarminnum og -mynstrum sem beint eða óbeint er fengið að láni úr fornaldarsögunum íslensku.
Sumir eldri fræðimenn töldu að íslenskar miðaldabókmenntir hefðu varðveist í minni þjóðarinnar kynslóð fram af kynslóð þar til einhverjir nýjungagjarnir náungar lærðu að rita þær með fjaðurpenna á bókfell. Við þykjumst nú hafa betri skilning á því hvernig íslenska efnið mótaðist af fundinum við evrópskan lærdóm. Sú bókagerð sem Íslendingar tileinkuðu sér var nefnilega ekki bara handverk. Íslensku sagnaritararnir aðlöguðu þekkingu sína á fornöld Norðurlanda nýjum hugmyndastraumum og frásagnaraðferðum sem allt er raunar meira á yfirborðinu og auðsýnilegra í fornaldarsögum Norðurlanda en t.d. í Íslendingasögunum sem reyna heldur að fela lærdóm sinn. Tilgangurinn með þessari bók er að opna heim fornaldarsagna fyrir lesandanum og kynna þá íslensku og evrópsku menningu sem þær eru sprottnar úr, auk þess að fjalla um hverja sögu og gera skil ritunartímanum og helstu hugðarefnum og listbrögðum sagnaritaranna.