Skip to main content

Fréttir

Tuttugasta og annað hefti tímaritsins Orð og tunga er komið út

Tuttugasta og annað hefti tímaritsins Orð og tunga er komið út í ritstjórn Helgu Hilmisdóttur. Að þessu sinni fjalla greinarnar um orðræðuagnir, tökuorð, rökliðagerð sagna, nýyrði, ritreglur og nafnfræði.

Í ritrýnda hluta heftisins fjallar Þóra Björk Hjartardóttir um orðræðuögnina hvað í sjálfsprottnum samtölum og skoðar notkun hennar út frá kenningum samskiptamálfræðinnar. Í grein Margrétar Jónsdóttur segir frá fleirkvæðum aðkomuorðum sem enda á –ík, eins og epík, keramík og klassík. Einar Freyr Sigurðsson og Heimir van der Feest Viðarsson rita grein um rökliðagerð sagnarinnar líka í sögulegu ljósi og að lokum fjallar Matteo Tarsi um tökuorð í Þriðju málfræðiritgerðinni (um 1250) sem eiga sér innlend samheiti í sama handriti. Í óritrýnda hluta heftisins fjallar Ágústa Þorbergsdóttir um þær kröfur sem almenningur gerir til nýyrða í íslensku. Segja má að höfundur sé með puttann á púlsinum því í greininni er að finna ýmsar tillögur sem bárust Nýyrðavefnum nú í mars og apríl og eiga að ná yfir það sem á ensku hefur verið nefnt social distancing. Í annarri greininni fer Jóhannes B. Sigtryggsson yfir helstu atriði varðandi bil í ritmáli, og þriðja og síðasta greinin er eftir Svavar Sigmundsson og fjallar um úlf í örnefnum á Íslandi, Færeyjum og Skotlandi.

Á eftir fræðilega hluta heftisins má finna þrjár málfregnir: Eiríkur Rögnvaldsson segir frá nýrri CLARIN-miðstöð á Íslandi, Trausti Dagsson og Steinþór Steingrímsson kynna nýja og uppfærða vefi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Þórdís Úlfarsdóttir og Halldóra Jónsdóttir segja í stuttu máli frá nýrri útgáfu norrænu veforðabókarinnar ISLEX. Allra síðast eru svo ritfregnir þar sem fjallað er um nýlegar útgáfur á áhugasviði tímaritsins.

Tímaritið er aðgengilegt öllum á vefsíðunni ordogtunga.arnastofnun.is (frá 3. júlí). Áskrift að prentaðri útgáfu heftisins má panta hjá Bóksölu stúdenta (orders@boksala.is).