Skip to main content

Fréttir

Tíðfordríf Jóns lærða komið út

Tíðfordríf

Tíðfordríf* Jóns Guðmundssonar lærða í útgáfu Einars G. Péturssonar er komið út í tveimur bindum. Í fyrra bindi (369 bls.) er inngangur útgefanda ásamt heimildaskrá, nafnaskrá og handritaskrá. Í seinna bindinu (119 bls.) er texti Tíðfordrífs, ásamt orðaskrá og nafnaskrá. Handritið fjallar um miðaldabókmenntir, um yfirnáttúrulegar verur, náttúruundur Íslands, steina og ýmislegt tengt hjátrú, ágrip úr landafræði miðalda, ásamt fleiru. Í inngangi Einars er að finna afar ítarlegar skýringar á efni ritsins og varðveislu, og gerð er grein fyrir leit að þeim heimildum sem Jón lærði hefur stuðst við. Texti Tíðfordrífs er varðveittur í mörgum handritum, bæði í heild og í hlutum. Vegna þess hve efnið er fjölbreytt hafa einstakir kaflar varðveist víða en Tíðfordríf er nú gefið út í heild í fyrsta sinn.

 

*Um orðið tíðfordríf segir m.a. í fyrsta kafla fyrra bindis:

„Orðið „tíðfordríf“ er ekki finnanlegt í fornmáli. Elsta dæmið samkvæmt ritmálsskrá Orðabókar Háskólans (OH) er úr skýrslu um Kötlugosið 1625 eftir Þorstein Magnússon sýslumann og klausturhaldara að Þykkvabæ í Álftaveri. [...] Samkvæmt sömu heimild er tvímyndin „tíðsfordríf“ fyrst kunn í uppskrift af titilblaði á handriti með fornkvæðum í Nks. 1141, fol. frá miðjum seinni helmingi 18. aldar. Glatað forrit 1141 var skrifað að forlagi Magnúsar Jónssonar í Vigur 1699 og 1700, en uppskrifarinn er óþekktur. Orðið „dægrastytting“, sömu merkingar, kemur einnig fyrir á titilblaði annars handrits úr Vigur. Það orð er kunnugt úr fornmáli og mörg dæmi eru um það í ritum siðaskiptamanna. [...] „Tíðfordríf“ er tökuorð og er eins víst að það sé inn í íslensku komið úr lágþýsku, en ekki dönsku.“

Ítarlegri skýringar má lesa í ritinu.