Skip to main content

Fréttir

Þýðingarvinnu á íslensk-finnskri orðabók lokið

Orðaský með finnskum orðum mynda útlínur Íslands á svörtum bakgrunni.
Finnsk matarorð.

Merkum áfanga er nú náð í ISLEX-orðabókinni þegar öll íslensku orðin á finnsku eða um 54 þúsund uppflettiorð hafa verið þýdd. Um það bil tíu ár eru síðan vinna við íslensk-finnsku orðabókina hófst en hún hefur verið aðgengileg á vefnum frá 2018. Verkið nýtist ýmsum markhópum, m.a. þýðendum, blaðamönnum, íslenskunemum og þeim sem taka þátt í norrænu samstarfi. Samkvæmt tölum frá fyrri helmingi ársins 2022 voru notendur ISLEX í Finnlandi um 1200 sem sýnir mikinn áhuga Finna á orðabókinni. Að verkefninu unnu Marjakaisa Matthíasson og Hanna Poussu. Verkefnisstjórn var í höndum Helgu Hilmisdóttur og Sari Päivärinne sem einnig tóku virkan þátt í þýðingarstarfinu og veittu ráðgjöf.

ISLEX er samvinnuverkefni allra Norðurlandanna sem stýrt er af Þórdísi Úlfarsdóttur og Halldóru Jónsdóttur frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Finnski hluti orðabókarinnar var unninn í samstarfi við Háskólann í Helsinki. Helstu styrktaraðilar voru finnski menningarsjóðurinn (Suomen kultuurirahasto), finnska menningarmálaráðuneytið og Nordplus sprog. Auk þess hefur verkefnið hlotið smærri styrki frá Letterstedska föreningen og finnsk-íslenska menningarsjóðnum.

Orðabókina má skoða á islex.is og islex.fi.