Guðrún Kvaran hefur vakið athygli fyrir óvenjulega mikil afköst og úthald þegar kemur að því að svara spurningum almennings um íslenskt mál. Í vikunni birtist þúsundasta svar hennar við fyrirspurn á Vísindavefnum en hún byrjaði að svara slíkum fyrirspurnum þegar árið 1965 þegar hún réðist fyrst á Orðabók Háskólans. Guðrún lítur yfir farinn veg í stuttu viðtali fyrir vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum:
„Ég hef svarað erindum í síma og bréflega hjá Orðabókinni frá því ég hóf þar störf 1965. Þau svör rötuðu öll í seðlasafn talmálssafns Orðabókarinnar. Svo fór ég af stað 1978 með útvarpsþáttinn Íslenskt mál. Þá skrifuðu hlustendur okkur bréf og við óskuðum eftir viðbrögðum frá hlustendum, því að oft vantaði heimildir um orð og orðasambönd sem algeng voru áður fyrr í talmáli. Þannig lærði maður af spyrjendum líka og hlustendur lærðu vonandi eitthvað af þættinum. Þegar ég var búin að gera 215 þætti í útvarpinu fór þetta umfjöllunarefni inn í þáttinn Vítt og breitt og þegar hann lognaðist út af þá var þessu tímabili í útvarpinu lokið.“
Guðrún segist hafa lent í því tvisvar að geta ekki svarað spurningum sem lentu inni á borði hjá henni í gegnum Vísindavefinn, sem hún hefur skrifað fyrir í sextán ár: „Þá voru þetta einhver sérstök orð sem líffræðingar gátu betur tjáð sig um, svo að ég kom þeim áfram. En það hefur oft komið fyrir að ég hef fengið erfiðar spurningar sem ég hef verið lengi að svara, þá hef ég stundum lýst eftir frekari upplýsingum á vefnum.“
En hvar eiga spurningarnar sem hún fær upptök sín? „Stundum er fólk að bera saman bækur sínar um málfar í vinnunni og er ekki sammála um hvað er réttast. Stundum lenda menn í að byrja að þrasa um svona lagað í veislum. En ég sé oft á orðalaginu að það eru stálpaðir krakkar og unglingar sem senda fyrirspurnir á Vísindavefinn. Mér finnst allar spurningar vera jafn réttháar og hef aldrei litið niður á þær þó sumar séu ef til vill barnalegar. Það er bara virðingarvert ef fólk spyr og hefur vilja til að fá að vita meira um það sem er ekki augljóst. Þess vegna geri ég aldrei gys að neinni spurningu.
Hvaða spurningu skyldi Guðrún varpa fram ef hún væri komin í hlutverk þess sem spyr í stað þess að vera sá sem svarar? „Næsta verkefni bíður nú þegar og ég spyr sjálfa mig, rétt eins og spyrjandinn á vefnum að því hvers vegna við segjum ‚allamalla!‘? Ég hef ekki hugmynd um það í dag en ég mun ekki gefast upp á þessari spurningu frekar en öðrum“ segir Guðrún Kvaran prófessor emerita við Stofnun Árna Magnússonar sem hefur nú leit að svari við spurningu númer 1001 um málvísindi á Vísindavef Háskólans.
EMJ