Nordkurs-námskeið í júní
Alþjóðasvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annaðist skipulagningu Nordkurs-námskeiðs í íslenskri tungu og menningu. Það er haldið árlega í samvinnu við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Námskeiðið er styrkt af norrænu samstarfi og er ætlað nemendum frá Norðurlöndunum. Kennsla og samskipti fara fram á íslensku og á öðrum Norðurlandamálum. Í ár sóttu tuttugu og fimm nemendur frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð námskeiðið í Reykjavík.
Námskeiðið samanstendur af rúmlega sjötíu kennslustundum og veitir tíu ECTS. Auk þess að nema íslensku gafst stúdentum tækifæri á að hlýða á fyrirlestra um náttúru Íslands, menningu og sögu landsins, íslenskar nútímabókmenntir og íslensk stjórnmál. Þá fengu þeir jafnframt tækifæri til að heimsækja menningarstofnanir og skoða sig um á sögustöðum.
Markmið Nordkurs-námskeiðanna er að gefa nemendum á Íslandi, Færeyjum, Grænlandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi færi á því að kynnast tungumálum, bókmenntum og menningu annarra þjóða á Norðurlöndum. Á hverju sumri er boðið upp á Nordkurs-námskeið víða á Norðurlöndum en hægt er að nálgast frekari upplýsingar á heimasíðu Nordkurs.
Sumarskóli í íslenskri tungu og menningu í júlí
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Hugvísindasvið Háskóla Íslands stóðu fyrir fjögurra vikna alþjóðlegum sumarskóla í íslenskri tungu og menningu í Reykjavík. Þetta er í þrítugasta og sjötta sinn sem slíkur sumarskóli er haldinn. Námskeiðið stendur yfir í fjórar vikur og samanstendur af sjötíu tímum í íslensku máli og tíu tímum þar sem fjallað er um náttúru Íslands, sögu Íslendinga, íslenska menningu, íslenskar nútímabókmenntir og íslensk stjórnmál. Vegna COVID-19-faraldursins var brugðið á það ráð að halda íslenskunámskeið aftur í ár í blönduðu formi. Þeir sem voru í staðnámi gátu heimsótt menningarstofnanir og skoðað sig um á sögustöðum.
Mikill áhugi er á að læra íslensku víða um lönd og árlega sækja á bilinu sjötíu til hundrað nemendur um að taka þátt en aðeins um helmingur þeirra kemst að. Í ár voru þátttakendur fjörutíu og fjórir í staðnámi og ellefu í fjarnámi. Nemendurnir voru frá nítján löndum og var þeim skipt í tvo hópa í íslenskunáminu eftir kunnáttu en allir höfðu þegar lagt stund á íslensku heima fyrir, annaðhvort hjá íslenskukennurum eða með aðstoð vefnámskeiðsins Icelandic Online.
Sumarskólinn er ætlaður stúdentum í tungumála- og bókmenntanámi en aðrir sem áhuga hafa á íslensku nútímamáli og menningu eiga þess kost að sækja námskeiðið.
Sumarskóli í handritafræðum í ágúst
Fimmtudaginn 25. ágúst lauk alþjóðlegum sumarskóla í handritafræðum. Skólinn var haldinn í Reykjavík á vegum Árnastofnunar og Den Arnamagnæanske Samling í Kaupmannahöfn í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Sumarskólinn er haldinn til skiptis á Íslandi og í Kaupmannahöfn. Stefnt var að því að halda skólann hér á landi árið 2020 en vegna COVID-19 var skólanum frestað í tvígang. Sumarskólans var því beðið með óþreyju en sextíu nemendur víðs vegar að úr heiminum sóttu námskeiðið. Þá komu allt að þrjátíu kennarar og aðstoðarmenn frá ýmsum löndum að skipulagi skólans og kennslu.
Í sumarskólanum er boðið upp á þjálfun í textafræði, handritafræði og uppskriftum norrænna handrita ásamt aðferðum í útgáfu texta eftir handritum. Nemendur lærðu að nálgast texta handrita frá ýmsum sjónarhornum og fengu tækifæri til að skoða og vinna með handrit í vinnustofum bæði á Landsbókasafni og í Árnagarði.
Næsti sumarskóli verður haldinn að ári í Kaupmannahöfn.