Skip to main content

Fréttir

„Svört verða sólskin“

Lóð Húss íslenskra fræða.

 

Í tilefni þess að 11. mars eru þrjú ár liðin frá fyrstu skóflustungu að Húsi íslenskunnar á Melunum í Vesturbæ Reykjavíkur birtir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hugleiðingar nokkurra Íslendinga um málefnið. Í dag skrifa Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fyrrverandi menntamálaráðherra. 

Svört verða sólskin

„Mér hefur jafnan fundizt þessi örskotsstund hafa breytt því meir að vera Íslendingur en nokkuð annað sem gerzt hefur um mína daga.“

Þannig lýsti Sigurður Nordal prófessor stuttri athöfn á stéttinni framan við Stjórnarráðið 1. desember 1918 í blaðagrein þegar hálf öld var liðin frá þeim miklu tímamótum. Við sama tilefni lýsti hann andstæðum áhrifum Kötlugossins með þessum orðum: „Minnisstæðast hefur orðið að sjá þann dag sólina tapa skini sínu á skýlausum himni, - „sólskin verða svört“, eins og segir í Völuspá.“

Nú styttist í að hundrað ár verða liðin frá því að þessi örskotsstund breytti svo miklu fyrir Ísland og Íslendinga í skugga Kötlugossins og spænsku veikinnar.

Fyrir tæpu ári lagði forsætisráðherra fram á fundi ríkisstjórnarinnar tillögu til þingsályktunar um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Þar sagði:

„Alþingi ályktar, í tilefni þess að árið 2018 er öld liðin frá því að Ísland varð sjálfstætt ríki, frjálst og fullvalda,

[...] að á árinu 2018 verði lokið byggingu yfir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem geymir dýrustu djásn íslenskrar sögu og myndar einn mikilvægasta grundvöll íslenskrar þjóðmenningar og íslenskrar tungu og þar með sjálfstæðis þjóðarinnar;“

Í öðrum liðum tillögunnar er gerð grein fyrir nokkrum öðrum viðfangsefnum sem tengja átti fullveldisafmælinu.

Forsætisráðherra segir síðan þetta í greinargerð um meginefni tillögunnar:

„Með þingsályktunartillögunni er stefnt að því að nýbygging yfir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum verði látin marka þau tímamót sem verða 2018, eins konar þjóðargjöf af þessu þýðingarmikla tilefni.“

Þjóðargjöf er stórt orð. En ætla má að fáum geti blandast hugur um að það hæfir betur tækifærinu en nokkurt annað orð. Eins er vandfundið verðugra verkefni af þessu tilefni en hús yfir íslensk fræði og handritin.

Við lýðveldisstofnunina 1944 var ákveðið að nýtt hús yfir Þjóðminjasafnið yrði þjóðargjöf af því tilefni. Þegar minnst var ellefu hundruð ára byggðar í landinu 1974 var ákveðið að þjóðargjöfin á þeim tímamótum yrði Þjóðarbókhlaðan. Þessir tveir hornsteinar íslenskrar menningar standa á sama reit á Melunum í Reykjavík.

Á þessum sama reit er einnig hola fyrir Hús íslenskunnar. Við hlið fyrri þjóðargjafa hefur þessi hola einmitt í dag í full þrjú ár verið eins og tákn sem stendur á haus um veglæti Alþingis Íslendinga gagnvart dýrmætustu sameign þjóðarinnar, íslenskri tungu og handritunum. En þvert á það sem við blasir þar trúum við því ekki að sú táknmynd lýsi raunverulegum hug þeirra sem ráða gangi mála á Alþingi.

Segja má að meginefnið í tillögu forsætisráðherra um Hús íslenskunnar hafi í þessu samhengi verði eins og ris sólar upp á skýlausan himin.

Því meiri undrun sæta örlög þessa þáttar í tillögunni. Við afgreiðslu síðustu fjárlaga lagði meirihluti fjárlaganefndar til að einu öðru viðfangsefni í tillögunni yrði hleypt af stokkunum. En fyrir þá sem standa utan veggja Alþingis er engu líkara en höfuðefni tillögunnar, þjóðargjöfin sjálf, hafi fyrir sakir tómlætis lent ofan í skúffu gleymdra mála. 

Bæði þekkjum við vel að ráðherrar koma aldrei öllum þeim málum fram sem þeir kjósa. En hér er um það að ræða að forsætisráðherra landsins setur fram metnaðarfulla tillögu um ekki minna mál en hvernig minnast á eitt hundrað ára fullveldis þjóðarinnar. Og aðalefni tillögunnar lýtur ekki að smærra verkefni en því að reisa hús yfir hornstein íslenskrar menningar og sjálfstæðis.

Aðeins nokkrum sinnum á hverri öld hefur þjóðin tilefni til að minnast stærstu stunda í sögu sinni. Tillaga forsætisráðherra er því fjarri því að vera pólitískt dægurmál. Þegar litið er til fyrri atburða af þessum toga verður að segja það eins og er að tómlæti þingmanna við tillögu forsætisráðherra er fordæmalaust. 

Sjálfheldan sem tillagan hefur ratað í er því þungskildari að þeir sem til þekkja vita að hugur Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis, hefur mjög ákveðið staðið til þess að Hús íslenskunnar yrði sú þjóðargjöf sem löggjafarþingið ætti að sameinast um á þeim tímamótum sem fram undan eru.

Fyrir skömmu spurðist Katrín Jakobsdóttir alþingismaður fyrir um það á Alþingi hver hefðu orðið afdrif þessarar tillögu.

Svar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra sýndi að vilji hans stendur enn, að því er virðist, til þess að minnast hundrað ára fullveldis með því að reisa hús yfir handritin og íslensk fræði. En það breytir ekki hinu að svarið var ómarkvisst.  Sennilega vegna þess að forsætisráðherra sýnist enn sem komið er ekki hafa náð eyrum nægilega margra þingmanna til að koma málinu fram.

Staða málsins eftir þessa stuttu umræðu í sölum Alþingis vakti því með okkur svipuð hughrif og Kötlugosið  hafði á Sigurð Nordal nokkrum vikum fyrir fullveldisyfirlýsinguna 1918. Það var eins og sólin tapaði skini sínu á skýlausum himni, - sólskin verða svört.

Á þessum þriggja ára afmælisdegi holunnar á reit þjóðargjafanna er spurning okkar til þingmanna einföld:

Á þetta mál í raun og veru að fara svona?

 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Þorsteinn Pálsson.

Þorsteinn Pálsson

 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. mars 2016.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.