Styrkjum úthlutað úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands 2019
Nokkrir fræðimenn sem starfa við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fengu fjárstyrki til rannsókna. Til upplýsingar birtist hér listi yfir styrkþegana og rannsóknirnar:
Haukur Þorgeirsson: Stílmælingarrannsóknir á fornum íslenskum prósatextum
Markmið verkefnisins er að búa til safn af fornum íslenskum prósatextum sem er nothæft til rannsókna á tölfræðilegum höfundareinkennum, svo sem tíðni einstakra orða eða orðasambanda. Með stílmælingarlegum aðferðum af þessu tagi er svo hægt að færa rök með og á móti tilgátum um að tveir eða fleiri varðveittir textar eigi sér sameiginlegan höfund.
Svanhildur Óskarsdóttir: Barndómssaga Jesú — rannsókn og útgáfa
Árið 1508 var prentuð í fyrsta sinn í Kaupmannahöfn apokrýf frásögn um Maríu, Jósef og uppvöxt Jesúbarnsins sem átti eftir að verða feykivinsæl í danska konungsríkinu og var endurprentuð margsinnis. Verkið, sem gengur undir nafninu Jesu barndoms bog, barst til Íslands og var þýtt eins og ýmsir aðrir textar um persónur og atburði í biblíunni sem prentaðir voru í dönskum almúgabókum. Slíkar þýðingar gengu í handritum á Íslandi en voru ekki prentaðar. Íslenskar gerðir af Jesu barndoms bog hafa ekki verið kannaðar fram til þessa, enda þótt hér sé um að ræða efni sem naut mikilla vinsælda meðal alþýðu á Íslandi. Vitað er um 14 handrit sem geyma prósagerð sögunnar en auk þess orti sr. Guðmundur Erlendsson í Felli (um 1595–1670) rímur út af þeim sem varðveittar eru í a.m.k. 46 handritum. Einnig er varðveitt brot úr öðrum rímum út af sögunni. Markmið verkefnisins er að kortleggja viðtökur Jesu barndoms bog á Íslandi með því að kanna íslenska þýðingu – eða þýðingar – verksins, og tilurð og útbreiðslu Jesú rímna séra Guðmundar. Textarnir verða gefnir út með inngangi þar sem niðurstöður rannsóknarinnar verða raktar. Áætlað er að verkefninu ljúki 2021. Starfsmaður í verkefninu ásamt Svanhildi er Helgi Kristinn Grímsson.
Guðvarður Már Gunnlaugsson: Sýnisbók þess að Ísland sé ekki barbaraland
Markmið verkefnisins er að ganga frá rithöfundatalinu Specimen Islandiæ non barbaræ sive literatæ et cultioris (Sýnisbók þess að Ísland sé ekki barbaraland heldur land bókmennta og menningar) eftir Jón Þorkelsson (Thorcillius) (1697–1759) til útgáfu ásamt íslenskri þýðingu Sigurðar Péturssonar. Verk Jóns er til marks um breyttar áherslur í bókmenntarannsóknum Íslendinga á 18. öld og eitt elsta dæmið um rit þar sem leitast er við að draga upp heildarmynd af íslenskri bókmenntasögu. Textinn er á latínu og virðist fyrst og fremst hafa verið ætlaður erlendum lesendum. Líkt og ráða má af titli ritsins er helsta markmið Jóns með skrifunum að sýna fram á að Ísland sé „ekki barbaraland“ heldur hafi það verið í góðum tengslum við evrópskan lærdóm allt frá öndverðu. Ritið er því öðrum þræði landkynning og málsvörn fyrir íslenskar bókmenntir. Specimen er merk samtímaheimild og í því er ýmislegt sem er ekki þekkt annars staðar að. Sigurður Pétursson hefur þýtt Specimen Islandiæ non barbaræ á íslensku, búið verkið til útgáfu með skýringum og skrifað inngang. Styrkurinn verður notaður til að greiða Hjalta Snæ Ægissyni fyrir að ganga frá öllu ritinu til prentunar, þ.e. latneska textanum, þýðingunni, skýringum og inngangi Sigurðar. Vonir standa til að bókin komi út árið 2019.
Margrét Eggertsdóttir: Gaman og alvara. Útgáfa á tveimur veraldlegum kvæðum Hallgríms Péturssonar
Verkefnið er liður í fræðilegri heildarútgáfu á verkum Hallgríms Péturssonar og beinist að tveimur kvæðum sem prentuð verða í fimmta bindi útgáfunnar. Annað þeirra kallast Samstæður eða Gaman og alvara og hefur upphafið Oft er ís lestur; hitt hefst á orðunum Stöngin fylgir strokki. Þau hafa bæði að geyma gamansamar athugasemdir um lífið og tilveruna í mjög knöppu formi og tengjast að því leyti að þau eru undir mjög svipuðum bragarháttum enda eru þau í mörgum handritum varðveitt saman og stundum eins og þau séu eitt og sama kvæðið. Fyrrnefnda kvæðið er í tæplega 100 handritum, hitt er í 33 handritum. Athyglisvert er að elstu uppskriftir kvæðanna eru í Svíþjóð. Ýmislegt bendir til þess að kvæðin séu ort snemma á ferli Hallgríms og hafi borist með íslenskum stúdentum fyrst til Danmerkur og síðan til Svíþjóðar. Markmið verkefnisins er að kortleggja útbreiðslu og vinsældir þessara kvæða.
Þórunn Sigurðardóttir: Hvað er í öskjunum? Fornbréf úr safni Árna Magnússonar
Markmið verkefnisins er að veita fræðimönnum, stúdentum og öðrum aðgang að fornbréfum (skjölum svo sem kaupmálum, máldögum, samningum, dómum, jarðabréfum o.s.frv.), bæði skráningum einstakra bréfa með nákvæmum lýsingum á innihaldi, ástandi og varðveislu, sem og stafrænum ljósmyndum af skjölunum. Skráin verður hluti af hinni rafrænu handritaskrá Árnastofnunar, Árnasafns í Kaupmannahöfn og Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns, Handrit.is. Heimildirnar eru mikilvæg rannsóknargögn sem ekki hafa verið aðgengileg fram til þessa. Þær munu nýtast fræðimönnum og stúdentum á ýmsum fræðasviðum. Nefna má sagnfræði, íslensk fræði, fornleifafræði, handritafræði, málvísindi, skriftarfræði, lögfræði. Auk þess kunna sum þeirra að hafa lagalegt gildi.
Einar Freyr Sigurðsson: „Í beinan karllegg: Skráning talmáls þriggja ættliða‟
Markmiðið með verkefninu er að koma u.þ.b. 50 klukkustundum af myndbandsupptökum með máli tveggja drengja og feðra þeirra á skriflegt form. Við verkefnislok getur hver sem er sótt umrituð gögnin og nýtt sér þau í fræðilegum tilgangi. Myndböndin eru frá árunum 1987–1992 og 2011–2018 og hafa annars vegar að geyma upptökur með töluðu máli barns (f. 1982) og föður þess (f. 1954) og hins vegar upptökur með sama „barni“ (f. 1982) og sonar þess (f. 2011). Með þessu móti er skráð talmál þriggja ættliða í beinan karllegg í sömu fjölskyldu og þaðan er nafn verkefnisins fengið. Með því að nýta svo umfangsmikil langsniðsgögn fást ítarlegar upplýsingar um máltöku tveggja barna (f. 1982 og 2011). Með því að greina talmál feðra barnanna (f. 1954 og 1982) fást einnig miklar upplýsingar um mál sem beint er að börnum (e. child-directed speech) en slíkt er mikilvægt við rannsóknir á ílagi (e. input) sem íslensk börn fá í máltöku.
Nánar má lesa um styrkveitingar úr Rannsóknasjóði 2019 hér.