Skip to main content

Fréttir

Strengleikar - Miðaldastofa: Gottskálk Jensson

Árnagarður.

 

Strengleikar - Miðaldastofa
1. nóvember, kl. 16.15
Árnagarði, stofu 422

Gottskálk Jensson flytur erindið Dante og Snorri um margar þjóðtungur og eina málslist (grammatica) sem hann lýsir svo — og flytur á þjóðtungu vorri:

„Dante Alighieri skrifaði ritgerð sína Um kveðskap á þjóðtungu (De vulgari eloquentia) á árunum 1302-1305. Ritgerðin er að mörgu leyti sambærileg við nokkur íslensk verk frá sama tíma, einkum Snorra-Eddu og íslensku málfræðiritgerðirnar, sem fylgdust snemma að í handritageymdinni og mynduðu eitt kennilegt samhengi. Menningarleg tengsl Íslands og Ítalíu á hámiðöldum hafa lítið verið skoðuð. Þó áttu ítalskar og íslenskar móðurmálsbókmenntir sín klassísku skeið um svipað leyti, á 13. og 14. öld. Bókmenntir þessar hafa auðvitað mikið verið rannsakaðar hvorar í sínu lagi en samanburði þeirra undarlega lítið verið sinnt. Samhengi ítalskra og íslenskra móðurmálsbókmennta er þó allnáið og augljóst, þegar farið er að skoða efnið frá stærra sjónarhóli, þó ekki væri nema vegna ráðandi stöðu hinnar rómversku og þar með ítölsku kirkju á íslenskum miðöldum. Flestir kannast við að íslensk ritmenning eigi upphaf sitt í latnesku skólakerfi þessarar kirkju en sennilega gera færri sér grein fyrir því að bókmenning Íslendinga sleit aldrei tengslunum við upprunann. Í erindinu verða rakin athyglisverð dæmi um bein tengsl milli ítalskra og íslenskra bókmennta á hámiðöldum en aðallega verður fjallað um þær sameiginlegu forsendur sem liggja skrifum Dantes og Snorra (með málfræðiritgerðunum) til grundvallar.“

Veitingar á kostnaðarverði en umræður og fróðleikur kostnaðarlaust.

Gottskálk Jensson er prófessor í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann varði doktorsritgerð sína á sviði fornaldarskáldsögunnar við Torontoháskóla 1997. Næstu tvö árin mun hann rannsaka latínu í íslenskum miðaldahandritum sem Marie Curie prófessor við Kaupmannahafnarháskóla.