Skýrsla íslenskusviðs 2024
Íslenskusvið Árnastofnunar sinnir fjölbreyttum verkefnum sem tengjast íslenskri tungu í fortíð og nútíð. Í stórum dráttum má skipta verkefnunum í fimm flokka: útgáfu orðabóka, umsjón eldri gagna frá Orðabók Háskólans, málfarsráðgjöf, máltækni og alþjóðastarf. Á sviðinu störfuðu um 16–18 manns, þar af sjö akademískir starfsmenn með rannsóknarskyldu. Þegar litið er yfir afrakstur ársins 2024 má sjá að starfsemi íslenskusviðs stendur í miklum blóma.
Ýmis verkefni snúa að miðlun upplýsinga til almennings og á það ekki síst við um útgáfu rafrænna orðabóka og annarra gagnasafna á vefnum. Í ár ber hæst opnun skólavefgáttarinnar m.is sem opnuð var formlega á haustdögum og í október var Íslensk-þýsk orðabók opnuð í Vínarháskóla. Á árinu var einnig hafist handa við undirbúning samheitaorðabókar sem ætlunin er að tengja m.a. við Íslenska nútímamálsorðabók sem er mest sótti vefur stofnunarinnar ásamt Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Samhliða þessu starfi hefur einnig farið fram umræða um viðkvæman orðaforða, þ.e. orð sem líkleg eru til þess að valda ágreiningi í samfélaginu. Eftir endurskipulagningu gömlu sviða stofnunarinnar er auðveldara að skoða orðabækur og gagnasöfn heildstætt og samræma upplýsingarnar þar sem ástæða þykir til.
Niðurstöður þjónustukönnunar sem gerð var á vegum Stjórnarráðsins voru ritstjórum orðabóka mikil hvatning enda kom þar glögglega fram hversu þakklátir notendur eru fyrir það efni sem stofnunin birtir á vefnum. Mikið framboð á orðabókum og leiðbeinandi efni á vefnum hefur leitt til þess að verulega hefur dregið úr beinum samskiptum landsmanna við málfarsráðgjafa stofnunarinnar. Málfarsráðgjafar og aðrir sérfræðingar tóku þó við fjölmörgum fyrirspurnum á árinu í tölvupósti og síma en stofnunin býður upp á símatíma eina klukkustund á dag alla virka daga. Fyrirspurnirnar sem bárust sviðinu voru gróflega áætlað um 800 talsins.
Í ágúst var haldinn fundur hjá Netverki norrænna málnefnda í Eddu þar sem fjallað var sérstaklega um kynjað mál frá sjónarhorni málfarsráðgjafa. Á vordögum auglýsti íslenskusvið eftir lektor í máltækni en þetta er í fyrsta sinn í sögu Árnastofnunar sem ráðinn er akademískur starfsmaður á því sviði sem hefur það hlutverk að leiða máltækniverkefni stofnunarinnar og sinna rannsóknum. Síðastliðið haust tók máltæknifólk sviðsins þátt í alþjóðlegri samkeppni um þýðingavélar fyrir íslensku.
Framlag Árnastofnunar var metið fjórða besta þýðingarkerfið af tuttugu og var fyrir ofan vinsæl kerfi á borð við Google Translate, Microsoft Translator og GPT-4. Alþjóðastarf sviðsins snýr einkum að sumarnámskeiðum í íslensku, stuðningi við háskóla erlendis og styrkjum til erlendra fræðimanna og nemenda í íslensku sem öðru máli á BA-stigi. Unnið var að því á árinu að koma aftur á fót íslenskukennslu við Edinborgarháskóla en kennsla þar hefur lengi legið niðri.
Rannsóknarstarf sviðsins er öflugt eins og sjá má á birtingum ársins. Í haust kom út 26. hefti tímaritsins Orð og tunga þar sem áhersla er meðal annars lögð á orðfræði og nafnfræði. Tímaritið hefur verið gefið út frá árinu 1988 og er bæði gefið út á prenti og birt á vefnum í opnum aðgangi. Starfsmenn tóku þátt í stórum evrópskum verkefnum þar sem fjallað var til dæmis um nýyrði, tökuorð og kynjað mál. Einnig var á árinu gefið út efnismikið sérhefti Sociolinguistica um íslensk félagsmálvísindi þar sem starfsmenn sviðsins ritstýrðu og skrifuðu greinar ásamt öðrum. Um þessi verkefni má lesa í nýju vefriti íslenskusviðs, Mannamál, þar sem ætlunin er meðal annars að miðla niðurstöðum rannsókna til almennings.