Skip to main content

Fréttir

Stafræn yfirfærsla gamalla hljóðrita og rafræn varðveisla sýninga

Fyrirlestur á vegum Félags íslenskra safna-og safnmanna (FÍSOS)
Miðvikudagur 14. október kl. 12:05-13:00
Fyrirlestrasalur Þjóðminjasafns Íslands
Allir velkomnir

 

Bjarki Sveinbjörnsson og Jón Hrólfur Sigurjónsson frá Tónlistarsafni Íslands flytja erindið: 

Stafræn yfirfærsla gamalla hljóðrita og rafræn varðveisla sýninga.

Samstarf Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og aðstandenda Tónlistarsafns Íslands á sér nokkurra ára sögu. Einkum á það við um samstarf á sviði þjóðfræða en einnig á miðlun handrita þar sem finna má nótur við einstök kvæði. Stofnanirnar reka saman gagnagrunninn Ísmús.

Við lok 19. aldar var fundin upp tækni til að geyma hljóð. Frá þeim tíma hefur tæknin og varðveislumiðlarnir gengið í gegnum ýmis skeið, svo sem vaxhólka, stálþráð, segulband, hljómplötur og fleira til þess sem nú er kölluð stafræn tækni. Í fyrirlestri Bjarka Sveinbjörnssonar mun hann fara yfir þessa sögu, ýmis vandamál sem komið geta upp og mikilvægi þess að gera stöðugar „uppskriftir“ af þessum formum vegna varðveislu og miðlunar. 

Vitað er, að við uppsetningu á sýningum safna verður til mikið safn heimilda og gagna sem gjarnan enda í geymslum að sýningum loknum. Tónlistarsafn Íslands hefur gert tilraun til varðveislu sýninga og sýningargagna í stafrænu formi í samvinnu við Einar Jón Kjartansson hönnuð, bæði til að kalla þær fram eins og þær eru voru og til upprifjunar á starfsemi safnsins. Jón Hrólfur Sigurjónsson mun fara yfir þær vangaveltur og sýna dæmi um hvernig tekist hefur til við varðveislu á síðustu sýningu safnsins.

 

Vaxhólkar.