Skip to main content

Fréttir

Skrifað um skynsamlega fjárfestingu á 10 ára afmæli Stofnunar Árna Magnússonar

HÚS ÍSLENSKUNNAR – HEIMILI HANDRITANNA

 

Hugði ég kynslóð eitt sinn alið geta

íslenska þjóð, sem kynni gott að meta

og hefði til þess hug að þrá og fagna

hrynjandi sinnar tungu, óðs og sagna.

                                                                    (Úr ljóðinu Árni Magnússon eftir Davíð Stefánsson.)

 

Vestur á Melum hafa landsmenn á síðustu árum mátt horfa ofan í gríðarlegan húsgrunn, sem verið hefur áminning um hvort tveggja í senn efnahagshrunið hér á landi og forgangsröðunina í kjölfar þess. Úr þessum grunni mun rísa Hús íslenskunnar, í námunda við Þjóðarbókhlöðu, Þjóðminjasafn og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Í Húsi íslenskunnar verður heimahöfn þeirra fræðimanna sem gleggst rannsaka móðurmál okkar og allan þann arf sem fólginn er í fornum ritum. Starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er nú dreifð um borgina og víðast í óhentugu húsnæði en í húsinu nýja munu handritin loks eignast samastað við hæfi, í húsi sem verður sérhannað til að varðveita og sýna þær gersemar allar.

 

Handritasafn Árna Magnússonar er  á varðveisluskrá UNESCO yfir minni heimsins, enda er litið á þau sem sameiginlegan arf mannkyns. Því fylgir mikil ábyrgð að varðveita slíkt fágæti, og gera reglulega til góða eins og forngripir þarfnast. En jafnframt ber að gera handritin sýnileg almenningi, jafnt heimamönnum sem þeim fjölda erlendra ferðamanna er sækir okkur heim ár hvert. Rannsóknir sýna einmitt að menning okkar, forn og ný, er eitt það helsta sem hingað dregur ferðalanga. Það er enginn efi í huga okkar sem þetta ritum að vegleg og nútímaleg handritasýning í Húsi íslenskunnar verður segull sem mun laða fjölda fólks í húsið, á öllum árstímum. Af þeim sökum er það ekki nauðsynin ein sem hvetur til þess að húsið sé fullgert sem fyrst, heldur er það afskaplega skynsamleg fjárfesting sem styrkir innviði ferðamennskunnar og skilar sér vafalítið fljótt aftur í ríkiskassann. Við það bætist síðan fullnægjan og stoltið yfir því að geta loksins deilt handritarfinum á sæmandi hátt með umheiminum. 

 

Það gladdi velunnara Árnastofnunar mikið þegar ríkisstjórnarflokkarnir opinberuðu fjármálaáætlun sína til næstu ára og í ljós kom að gert var ráð fyrir því að hið langþráða Hús íslenskunnar yrði reist á fremur skömmum tíma. Við vitum hins vegar vel að áætlanir einstakra stjórnmálaflokka geta auðveldlega raskast í takt við breytingar í hinu pólitíska landslagi. Nú eru alþingiskosningar framundan í haust og enginn veit hverjir skipa munu næstu ríkisstjórn. Af þeim sökum langar okkur að beina þeirri ósk til allra stjórnmálaafla að þau hefji Hús íslenskunnar yfir dægurþras stjórnmálanna og sameinist um það þvert á flokka að reisa húsið á Melunum úr gryfjunni eins hratt og auðið er og búa það þannig úr garði að starfsemi stofnunarinnar geti dafnað og að handritin okkar eignist þarna þá heimilisfesti sem þeim hæfir. Fólk mun fjölmenna á staðinn til að líta á og sækja þrótt í þær ómetanlegu gersemar sem okkur Íslendingum hefur verið falið að gæta og vinna með, þannig að heimurinn allur fái notið þeirra með okkur.

 

Sigurður Svavarsson 

Þórarinn Eldjárn               

(Höfundar sitja í stjórn Vina Árnastofnunar)

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. ágúst 2016.