Skip to main content

Fréttir

Skrambi hlaut Hagnýtingarverðlaunin

Leiðréttingarforritið Skrambi varð hlutskarpast í samkeppninni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands 2012, en þau voru afhent í Hátíðasal Háskólans í dag. Aldrei hafa fleiri tillögur borist í samkeppnina.

Þetta er í 14. sinn sem Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands eru afhent en með þeim vill háskólinn stuðla að nýsköpun og frumkvöðlastarfi innan skólans og verðlauna þær tillögur sem skara fram úr.

Frá vinstri: Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Hilmar Þór Birgisson og Helgi Þorbergsson, tveir af aðstandendum tillögunnar sem varð í öðru sæti, Jón Friðrik Daðason og Kristín Bjarnadóttir, höfundar sigurtillögunnar, og Jóhann Grétar Kröyer

Auglýst var eftir frumlegum og hagnýtanlegum hugmyndum frá bæði nemendum og kennurum innan Háskóla Íslands snemma í haust. Alls bárust 24 hugmyndir af flestum fagsviðum skólans í samkeppnina. Þær hafa aldrei verið fleiri og endurspegla fjöldinn og fjölbreytnin þá grósku sem er í nýsköpun við Háskóla Íslands.

Samkeppnin var hörð og eftir töluverða yfirlegu ákvað dómnefnd að veita verkefninu Skramba fyrstu verðlaun sem nema einni milljón króna. Kristín Bjarnadóttir, rannsóknarlektor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og kennari við Háskóla Íslands, og Jón Friðrik Daðason, tölvunarfræðingur við sömu stofnun, standa á bak við verkefnið. Um er að ræða leiðréttingarforrit sem greinir texta málfræðilega og finnur af samhengi hans rétta stafsetningu orða. Það getur því greint villur sem annars er erfitt að greina, t.d. hvort rita skuli „leyti“ eða „leiti“ í tilteknu samhengi. Leiðréttingartólið Skrambi byggist á rannsóknagögnum Stofnunar Árna Magnússonar og er áætlað að fyrsta útgáfa þess komi á markað í febrúar 2013. Skrambi er afrakstur nokkurra rannsóknaverkefna, þar á meðal er meistaraverkefni Jóns Friðriks í tölvunarfræði við Háskóla Íslands. Stefnt er að því að þróa það sem viðbót við ritvinnsluforrit, eins og Word, og algengustu vafra. Í umsögn dómnefndar segir að verkefnið sé þarft og hafi mikinn samfélagslegan ávinning, hagnýting rannsókna sé langt komin og viðskiptahugmyndin vel útfærð.

Önnur verðlaun, 500 þúsund krónur, hlaut verkefnið „Tóngreinir til tónbilaæfinga á smátækjum” (e. „Musical tone recognition system for interval tone training on mobile devices“). Að baki verkefninu standa Hilmar Þór Birgisson, meistaranemi í rafmagns- og tölvuverkfræði, Helgi Þorbergsson, dósent í rafmagns- og tölvuverkfræði, Magnús Örn Úlfarsson, lektor í rafmagns- og tölvuverkfræði, og Sveinn Ólafsson, vísindamaður við Raunvísindastofnun. Um er að ræða kerfi sem þegar hefur verið hannað fyrir farsíma og spjaldtölvur og er bæði ætlað til menntunar og tómstunda. Það greinir tóna í rauntíma og umbreytir þeim í frambærilega nótnaskrift. Kerfið getur því aðstoðað byrjendur við að læra og greina tónbil og lesa nótnaskrift. Áætlað er að vara byggð á þessu kerfi komi á markað sumarið 2013. Í umsögn dómnefndar segir að hugmyndin sé frumleg og dæmi um hagnýtingu þar sem saman fari vel útfærð viðskiptahugmynd og rannsóknir innan háskólans.

Verkefnið „Stöðgun próteina með kítófásykrum“ hlaut þriðju verðlaun sem námu 300 þúsund krónum. Hörður Filippusson, prófessor við Raunvísindadeild, Stefán Bragi Gunnarsson, MS í lífefnafræði, og Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson, BS í lífefnafræði, standa að tillögunni. Verkefnið snýr að notkun fásykra sem unnar eru úr kítósani til að auka stöðugleika próteina í lausn. Það er fyrirtækið Prímex á Siglufirði sem vinnur kítósan úr rækjuskel og líftæknifyrirtækið Genís í Reykjavík framleiðir kítófásykrurnar. Sýnt hefur verið fram á að sykrurnar séu skaðlausar líkamanum og er verið að þróa þær sem lyfjaefni. Dómnefnd Hagnýtingarverðlaunanna telur verkefnið mjög áhugavert þar sem rannsóknirnar hafi sýnt að kítófásykrur megi m.a. nota til að auka líftíma ensíma og þol próteina gagnvart sjálfmeltu, en það gæti hentað vel við notkun próteina við rannsóknir og þróun próteinlyfja.

Samkeppnin um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands er samstarfsverkefni skólans, Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands, Tæknigarðs, Einkaleyfastofunnar og Árnason|Faktor