Nokkuð hefur verið rætt um skort á þýðendum af íslensku eftir hina jákvæðu umfjöllun sem kynningin á bókmenntum Íslendinga fékk í Frankfurt. Þar vakti Ísland mikla athygli sem heiðursgestur á bókamessunni á dögunum.
Þorgerður Agla Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bókmenntasjóðs segir skort á þýðendum á íslenskum bókum yfir á erlend mál. Þorgerður Agla bendir jafnframt á að þar sem íslenska er kennd erlendis væri verið að búa til þýðendur. Hún benti t.d. á að margir góðir þýðendur væru í Frakklandi þar sem nútímaíslenska væri kennd á tveimur stöðum. Til að bæta úr skortinum þyrfti að efla íslenskukennslu erlendis að hennar dómi.
Það er sjaldan minnst á hið mikla menningarstarf sem þeir sem kenna íslensku sem annað mál og erlent mál heiman og heima stunda og ánægjulegt að vakin sé svo jákvæð athygli á þessu starfi.
Samkvæmt gögnum stofnunarinnar er nútímaíslenska kennd á 40 stöðum um heiminn en íslensk stjórnvöld styðja við 16 þeirra. Á Íslandi eru um 250 stúdentar í námi í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands. Íslensk stjórnvöld styðja 18 þeirra til þessa náms.
- Íslenskukennsla erlendis
- Stuðningur við háskólakennslu
- Skortur á þýðendum - viðtal við Þorgerði Öglu