Skip to main content

Fréttir

Skiptidagar eftir Guðrúnu Nordal er komin út

Skiptidagar eftir Guðrúnu Nordal
Forsíða Skiptidaga

Guðrún Nordal prófessor og forstöðumaður hefur sent frá sér bókina Skiptidagar, nesti handa nýrri kynslóð. Þar skrifar höfundurinn t.d. um veturinn 2008-9:

Margar spurningar leituðu á hugann þennan vetur og urðu til þess að ég hóf að setja niður punkta um fortíð og framtíð Íslands. Sumir gripu þá í hliðstæður við löngu gengna atburði til að gera nútímann skiljanlegan og sumir spurðu jafnvel hvort við lifðum gamla tíma að nýju. Þessi bók hófst sem tilraun til að svara þeirri spurningu.

Guðrún Nordal segir hvatann að Skiptidögum hafa verið þær miklu breytingar sem við upplifum í samtímanum og spurningar um hvað við ætlum að taka með okkur inn í framtíðina af því sem fortíðin hefur látið okkur í té. Hún fjallar um tímana, sem við lifum, í ljósi sögunnar.

„Mig langaði að ræða hvernig við höfum iðulega einfaldað söguna af okkur sjálfum. En það er mikilvægt og raun heilbrigðismerki að við leyfum ólíkum sögum að koma fram, að við göngumst við sögunum um okkar sjálf, við erfiðleikum, ofbeldi og harðneskju, rétt eins og sigrunum. Í skrifunum var ég að miklu leyti knúin áfram af þörfinni til að skrifa fyrir næstu kynslóð. Bókin er því einskonar hugleiðing sem mig langaði að deila með ungu fólki. Ég leyfi mér líka að draga mína sögu og og míns fólks inn í hugleiðingar mínar. Við þurfum nefnilega ekki að fara lengra aftur en til ömmu og afa til að tengja okkur við tíma sem hafði sama takt og margar aldir þar á undan en er nú alveg horfinn.“

Bókin spannar tímann frá landnámi til vorra daga en er þó aðeins 170 blaðsíður. Það hefur verið áskorun?

„Mér fannst spennandi  að horfa svona vítt og breitt yfir sviðið, alveg til landnámsins og til okkar tíma, og það þýðir að ég verð auðvitað að fara hratt yfir sögu því að bókin er stutt og vonandi snörp. Íslendingasögur fjalla t.d. um átök, hampa snjallyrðum og hnyttnum vísum en ekki endilega rökræðulist. Við höfum enda ekki verið þekkt fyrir stjórnmál sem einkennast af góðum samræðum. Sögurnar okkar hafa þannig mótað okkar sjálfsmynd. Ekki alltaf til gagns. Hvað ætlum við að leggja áherslu á í okkar samfélagi í framtíðinni? Ein leið til að finna svar við þessum spurningum er að gangast við því að veruleikinn, og þar með sögurnar af honum, er mun flóknari en við látum vera láta – og allir þessir söguþræðir eru áhugaverðari en ein samræmd saga sem er haldið að okkur.“

Er þetta hefðbundin fræðibók?

„Bókin Skiptidagar geymir persónulegar hugleiðingar mínar, og þær bera þess merki að ég hef stundað rannsóknir í miðaldabókmenntum og starfað lengi á vettvangi vísinda og háskóla. Í bókinni undirstrika ég hve stór þáttur sköpunarkraftur og menningarstarf, ekki síst á vettvangi ritunar, hefur verið í sögu okkar og er enn, og hve mikilvægt er að við hlúum myndarlega að menningu, menntun og vísindum. Þar eru fólgin verðmæti á hvaða mælikvarða sem þau eru mæld. Ég vona að bókin verði til að vekja umræður og vangaveltur um öll þau tækifæri sem blasa við ef rétt er á málum haldið.“