Skip to main content

Fréttir

Sjálfsmynd, hugmyndafræði og bókmenning á Íslandi á síðmiðöldum

Jóhanna Katrín Friðriksdóttir.

 

Jóhanna Katrín Friðriksdóttir hefur hlotið styrk til að vinna rannsóknarverkefni um sjálfsmynd, hugmyndafræði og bókmenningu á Íslandi á síðmiðöldum. Styrkurinn, sem er kenndur við Marie Curie, og er hluti af 7. rannsóknaáætlun ESB, er um 240.000 evrur, hann dreifist á þrjú ár og greiðir fyrir laun og kostnað við styrkþega. Verkefnið er unnið hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í samstarfi við Harvard háskóla og Stephen A. Mitchell, prófessor. Rannsóknardvöl og –þjálfun í tvö ár í Harvard og eitt ár hér heima.

Í mars kom út bókin Women in Old Norse Literature eftir Jóhönnu Katrínu hjá Palgrave Macmillan.

Sjálfsmynd, hugmyndafræði og bókmenning á Íslandi á síðmiðöldum
Markmið verkefnisins er að auka við þekkingu á bókmenntum síðmiðalda og öðlast heildaryfirsýn yfir bókmenningu og þá hugmyndastrauma sem birtast í bókmenntum á þessu tímabili. Textar samdir og ritaðir á bókfell á síðmiðöldum og hafa varðveist verða teknir til skoðunar óháð bókmenntagreinum og þannig verður fjallað um minna þekkt verk á borð við rímur, biskupasögur og annála til jafns við þekktari texta eins og Íslendinga-, fornaldar- og riddarasögur. Þetta verður til þess að draga upp samþættari, fjölbreyttari og flóknari mynd af bókmenntum á síðmiðöldum heldur en hingað til. Þessi rit endurspegla öll á einhvern hátt hugrenningar höfunda, ritstjóra og/eða ritbeiðanda og fela í sér orðræðu og hugmyndafræðileg skoðanaskipti sem áttu sér stað á bókmenntalegu formi. Handritin verða órjúfanlegur hluti af rannsókninni en þau geta m.a. gefið vísbendingar um ritunartíma og –stað textanna, sem hjálpar til við að setja þá í sögulegt og þjóðfélagslegt samhengi. Textarnir verða greindir með það að markmiði að skýra sjálfsmynd Íslendinga og viðhorf þeirra til menningar sinnar í samtíma og fortíð, hugmyndafræði og þjóðfélagsskipan, og afstöðu til konungsvalds og umheimsins. Kenningar á borð nýlendu- og eftirlendufræði verða notaðar til að draga fram sumar af þessum hugmyndum og hvernig bókmenntir endurspegluðu en um leið mótuðu sjálfsmynd og viðhorf Íslendinga á síðmiðöldum.