Skip to main content

Fréttir

Sigurðar Nordals fyrirlestur í sjónmáli

Guðmundur Andri Thorsson og Sigurður Nordal.

 

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur mun flytja fyrirlestur Sigurðar Nordals í byrjun hausts. Fyrsta skáldsaga Guðmundar, Mín káta angist, kom út árið 1988. Söguefnið er líf manns sem nemur við íslenskudeild Háskóla Íslands. Síðast sendi Guðmundur frá sér fagurlega myndskreytta föðurminningu í bókinni Og svo tjöllum við okkur í rallið. Bókin um Thor

Guðmundur Andri var beðinn um að segja stuttlega frá því sem hann hyggst fjalla um fyrirlestri sínum í Norræna húsinu á fæðingardegi Sigurðar Nordals:

„Það er mér mikill heiður að vera boðið að flytja þennan fyrirlestur sem kenndur er við Sigurð Nordal, og hefur þegar áunnið sér nokkra hefð. Ég var beðinn um að tala um Sveinbjörn Egilsson sem af margvíslegum ástæðum höfðar alveg sérstaklega til mín, þó ekki væri nema fyrir það að búa á Álftanesinu. Hann er líka skemmtilega öðruvísi en margir aðrir kallar á 19. öld – ekki jafn mikill svona kall og þeir: hann var skegglaus, lágvaxinn, drengjalegur og notaði stöng til að stökkva yfir skurðina á Álftanesi eins og Þórarinn Eldjárn orti frægt ljóð um.
 
Þegar maður fer annars að hugsa um Sveinbjörn slær það mann að við þekkjum hann fyrst og fremst fyrir það sem hann var öðrum – ekki fyrir það að láta aðra snúast kringum sig eða vera sífellt að stússast kringum sjálfan sig eins og skáldum er stundum tamt að gera.
 
Hann var faðir og að minnsta kosti tvö barna hans koma við íslenska bókmenntasögu, Þuríður Kúld sem kom Matthíasi Jochumssyni til mennta og átti dramatíska ævi og svo Benedikt Gröndal sem hefur hin seinni ár notið virðingar sem fjölfræðingur og frumkvöðull í alls konar fræðum. Viðhorf Gröndals til föður síns voru nokkuð mótsagnakennd, hann talaði um hversu kaldur og fjarlægur hann hefði verið en var líka mjög annt um sæmd og orðspor hans. 

 
Sveinbjörn var kennari Fjölnismanna, Jónasar og Konráðs, og lagði ásamt öðrum kennurum Bessastaðaskóla grunninn að málstefnu þeirra og þar með þeirri stefnu sem við höfum fylgt fram á okkar daga.
 
Hann var líka rektorinn sem fyrsta íslenska stúdentauppreisnin beindist gegn, þegar skólapiltar hrópuðu að honum „Pereat“ árið 1850 vegna þess að hann vildi að þeir gengju í bindindisfélag en þeir vildu komast á fyllerí.
 
Hann hefur líka komið mjög við sögu hjá íslenskum börnum, sérstaklega þegar þau eru að fara að sofa. Þá er sungið fyrir þau Nú legg ég augun aftur, þar sem meðal annars er að finna orðið „náðarkraftur“ og svo eru það vísurnar sem hann hefur raulað fyrir krakkana sína: Fljúga hvítu fiðrildin og Kristín litla kondu hér og þær allar. Og svo hafa börnin fram á þennan dag brotið heilann um þessa „meinvill“ sem í myrkrunum lá og hann fann upp.
 
Hann var þýðandi og mikilvægi hans fyrir þróun íslenskt ritmáls verður seint ofmetið – þýddi Hómer á þetta unaðslega mál en líka Biblíuna – orðalag hans hefur ómað í íslenskum kirkjum og íslenskum höfðum síðan þá. 
Það eru nú eru til verri leiðir til að vera minnst en fyrir það sem maður var öðrum. 
 
En mikilvægast er að Sveinbjörn lagði sitt af mörkum til íslenskunnar og íslenskra fræða og það er fyrir frjóa og menntaða menn eins og hann að sá þráður sem kalla má íslensk fræði er enn óslitinn. En hann er orðinn þunnur og trosnaður og mun slitna endanlega þegar beygingakerfið hrynur saman. Þá hættum við að geta lesið okkar gömlu sögur."

Stofnun Sigurðar Nordals var til húsa í Þingholtsstræti 29. Þar er nú ein af starfsstöðvum Stofnunar Árna Magnússonar til húsa.